Píratar eru aftur orðnir stærsti flokkurinn sem býður fram í alþingiskosningunum í haust, samkvæmt kosningaspánni. Þeir mælast nú með 28,4 prósent fylgi, tæpum tveimur prósentustigum meira en Sjálfstæðisflokkurinn sem mælist með 26,5 prósent.
Í kosningaspánni eru nýjustu kannanir á fylgi framboða til Alþingis vegnar eftir áreiðanleika. Áreiðanleiki kannana ræðst af þáttum eins og fjölda þátttakenda, svarhlutfalli og sögulegum árangri könnunaraðila þegar kemur að því að spá fyrir um úrslit kosninga. Þannig fæst eins rétt mynd af raunverulegu fylgi framboða og hægt er. Kosningaspáin er einnig gerð í aðdraganda forsetakosninga.
Fylgi við Sjálfstæðisflokkinn hefur minnkað nokkuð frá því að kosningaspáin var síðast gerð fyrir alþingiskosningarnar. Síðast, 4. júní, mældist flokkurinn með 28 prósent fylgi en það er nú orðið 26,5 prósent. Á móti hafa Píratar bætt aðeins við sig.
Vinstri græn eru í sem fyrr þriðja stærsta stjórnmálaaflið samkvæmt kosningaspánni. Flokkurinn mælist nú með stuðning 16,7 prósent kjósenda. Framsóknarflokkurinn fengi 10,3 prósent atkvæða ef gengið yrði til kosninga nú. Framsóknarmenn hafa undanfarnar vikur slitið sig frá Samfylkingunni sem stendur í stað milli þess sem kosningaspáin er gerð. Samfylkingin mælist nú með 7,3 prósent fylgi.
Viðreisn heldur áfram að verða stærri í kosningaspánni og mælist nú með 6,7 prósent fylgi. Flokkurinn tók framúr Bjartri framtíð fyrir um tveimur vikum og hefur vaxið stöðugt síðan. Björt framtíð virðist hins vegar eiga erfiða baráttu framundan því flokkurinn mælist aðeins með stuðning 3,5 prósent kjósenda og hefur ekki mælst minni síðan 1. apríl, áður en ljóstrað var upp um Wintris-málið svokallaða sem varð til þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði af sér embætti forsætsiráðherra og fylgi flokkanna fór á flakk.
Ætla má að flokkur þurfi að fá um fimm prósent atkvæða á landsvísu til að ná kjöri. Erfitt er hins vegar að fjölyrða um slíkt því eitt framboð gæti verið að sækja meiri stuðning í eitt kjördæmi umfram önnur. Enn er ekki farið að kanna stuðning innan hvers kjördæmis fyrir sig.
Önnur framboð fá minna en eitt prósent stuðning. Dögun mælist með 0,5 prósent og Alþýðufylkingin með 0,1 prósent. Önnur framboð mælast með ekkert fylgi.
Nýjasta kosningaspáin var gerð 14. júní og er byggð á fjórum nýjustu könnunum sem gerðar hafa verið á fylgi framboða til Alþingis. Kannanirnar eru:
- Skoðanakönnun Félagsvísindastofnunnar HÍ fyirr Morgunblaðið 8. til 12. júní (vægi 26,2%)
- Skoðanakönnun Félagsvísindastofnunnar HÍ fyirr Morgunblaðið 1. til 2. júní (vægi 20,3%)
- Þjóðarpúls Gallup 28. apríl til 29. maí (vægi 38,5%)
- Skoðanakönnun Fréttablaðsins 23. til 24. maí (vægi 15,0%)
Hvað er Kosningaspáin?
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Kjarninn birti Kosningaspá Baldurs fyrir sveitarstjórnarkosningarnar og reyndist sú tilraun vel. Á vefnum kosningaspá.is má lesa niðurstöður þeirrar spár og hvernig vægi kannana var í takt við frávik kannana miðað við kosningaúrslitin.
Áreiðanleiki könnunaraðila er reiknaður út frá sögulegum skoðanakönnunum og kosningaúrslitum. Einnig hefur það vægi hversu langt er síðan könnunin var framkvæmd og svo hversu margir svara í könnununum.