Ætli Davíð Oddsson, Andri Snær Magnason eða Halla Tómasdóttir að vinna Guðna Th. Jóhannesson, sagnfræðing, í forsetakosningunum þurfa að minnsta kosti 2,4 prósentustig af fylgi Guðna að flytjast til annars frambjóðanda á dag fram til kosninga eftir átta daga. Guðni hefur tapað 60,4 prósent stuðningi niður í 53,4 prósent síðan um mánaðarmót.
Á myndinni hér að ofan hefur þessi sviðsmynd verið sett fram til útskýringar. Miðað við þá þróun sem hefur orðið á fylgi frambjóðenda í kosningaspánni verður að teljast ólíklegt að þetta verði raunin.
Aðeins fimm prósentustig skilja að forsetaframbjóðendurna Davíð Oddsson, Andra Snæ Magnason og Höllu Tómasdóttur í kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar. Guðni Th. Jóhannesson nýtur ennþá stuðnings meira en helmings kjósenda samkvæmt nýjustu kosningaspánni en tapar fylgi síðan síðast.
Bæði Guðni og Davíð tapa tveimur til þremur prósentustigum milli þess sem kosningaspáin var gerð í síðustu tvö skipti; 14. júní og 16. júní. Bæði Andri Snær og Halla virðast vera að sækja þennan stuðning af Guðna og Davíð. Kosið verður 25. júní.
Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, mælist nú með 16,2 prósent fylgi og fellur úr 18 prósentunum sem hann hafði síðast þegar kosningaspáin var gerð. Andri Snær Magnason, rithöfundur, er nú með 13,6 prósent fylgi, það mesta sem hann hefur mælst með síðan kosningaspáin var gerð fyrst fyrir forsetakosningarnar 13. maí. Halla Tómasdóttir, athafnakona, hefur jafnframt ekki mælst með jafn mikið fylgi. Hún nýtur nú stuðnings 11,8 prósent kjósenda samkvæmt kosningaspánni. Til samanburðar var hún aðeins með 2 prósent 13. maí.
Sturla Jónsson, bílstjóri, mælist enn með meira en tvö prósent fylgi og fengi 2,5 prósent atkvæða ef gengið yrði til kosninga nú. Ástþór Magnússon fengi eitt prósent, Elísabet Jökulsdóttir fengi 0,9 prósent, Guðrún Margrét Pálsdóttir fengi 0,4 prósent og Hildur Þórðardóttir fengi 0,2 prósent.
Kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar er gerð í fyrsta sinn fyrir forsetakosningar í ár. Í nýjustu kosningspánni fyrir forsetakosningarnar eru nýjustu kannanirnar vegnar:
- Skoðanakönnun Gallup 8. – 15. júní (vægi 47,5%)
- Skoðanakönnun Fréttablaðsins 13. júní (væg: 23,4%)
- Skoðanakönnun Félagsvísindast. HÍ fyrir Morgunblaðið 8. – 12. júní (vægi 29,1%)
Hvað er kosningaspáin?
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Kjarninn birti Kosningaspá Baldurs fyrir sveitarstjórnarkosningarnar og reyndist sú tilraun vel. Á vefnum kosningaspá.is má lesa niðurstöður þeirrar spár og hvernig vægi kannana var í takt við frávik kannana miðað við kosningaúrslitin.
Áreiðanleiki könnunaraðila er reiknaður út frá sögulegum skoðanakönnunum og kosningaúrslitum. Einnig hefur það vægi hversu langt er síðan könnunin var framkvæmd og svo hversu margir svara í könnununum.