Viðreisn er nú með nánast jafn mikið fylgi og Framsóknarflokkurinn og mælist með 9,5 prósent í nýrri kosningaspá. Píratar mælast enn með mestan stuðning allra framboða sem hyggjast bjóða fram í fyrirhuguðum Alþingiskosningum í haust.
Fylgi við Viðreisn hefur aukist jafnt og þétt í síðustu kosningaspám, sem Kjarninn og Baldur Héðinsson gera í sameiningu. Á sama tíma og Viðreisn bætir við sig virðist stuðningur við önnur framboð minnka eða standa í stað. Samfylkingin bætir reyndar örlítið við sig en nær ekki jafn miklu fylgi og Framsóknarflokks og Viðreisn. Ekki er marktækur munur á fylgi Viðreisnar og Framsóknarflokks.
Sjálfstæðisflokkurinn hlyti 23 prósent atkvæða ef gengið yrði að kjörborðinu nú, samkvæmt kosnignaspánni. Fylgi við flokkinn hefur minnkað nokkuð í síðustu kosningaspám og fallið úr nærri 30 prósent fylgi.
Á sama tíma virðist stuðningur við Pírata hafa fundið jafnvægi á ný í rúmlega 28 prósent stuðningi. Þegar best lét nutu Píratar fylgis meira en 35 prósent kjósenda framan af ári en í Wintris-vikunni svokölluðu í byrjun apríl byrjaði stuðningur við Pírata að falla.
Vinstri græn eru enn þriðja stærsta framboðið samkvæmt kosningaspánni. Stuðningur við flokkinn mælist nú 16,1 prósent, örlítið minna en í síðustu kosningaspá. Vinstri græn virðast einnig hafa fundið jafnvægi í rúmum 16 prósentum eftir fylgisflakkið í byrjun apríl. Framsóknarflokkur mælist með 10 prósent fylgi.
Enn mælist Björt framtíð með minnst fylgi allra núverandi flokka á Alþingi. Framboð þeirra mælist með aðeins 3,7 prósent stuðning. Ætla má að flokkur þurfi að fá um fimm prósent atkvæða á landsvísu til að ná kjöri. Erfitt er hins vegar að fjölyrða um slíkt því eitt framboð gæti verið að sækja meiri stuðning í eitt kjördæmi umfram önnur. Enn er ekki farið að kanna stuðning innan hvers kjördæmis fyrir sig.
Önnur framboð fá minna en eitt prósent stuðning. Dögun mælist með 0,5 prósent og Alþýðufylkingin með 0,1 prósent. Önnur framboð fengju samtals 0,3 prósent. Stuðningur við Dögun og Alþýðufylkinguna er innan vikmarka.
Nýjasta kosningaspáin var gerð 3. júlí og er byggð á þremur nýjustu könnunum sem gerðar hafa verið á fylgi framboða í Alþingiskosningum sem fyrirhugaðar eru í haust. Nýjasta könnunin vegur lang þyngst í þetta sinn. Það útskýrist af stærð könnunarinnar og lengd tímabilsins sem hún er gerð á. Kannanirnar eru:
- Þjóðarpúls Gallup 26. maí til 29. júní (vægi 50,2%)
- Skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið 19. til 22. júní (vægi 30,6%)
- Skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið 8. til 12. júní (vægi 19,2%)
Hvað er Kosningaspáin?
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Kjarninn birti Kosningaspá Baldurs fyrir sveitarstjórnarkosningarnar og reyndist sú tilraun vel. Á vefnum kosningaspá.is má lesa niðurstöður þeirrar spár og hvernig vægi kannana var í takt við frávik kannana miðað við kosningaúrslitin.
Áreiðanleiki könnunaraðila er reiknaður út frá sögulegum skoðanakönnunum og kosningaúrslitum. Einnig hefur það vægi hversu langt er síðan könnunin var framkvæmd og svo hversu margir svara í könnununum.