Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir, stjórnarformaður og aðaleigandi 365, segir að faglegur ágreiningur milli yfirmanns og undirmanns hafi valdið uppsögn Pjeturs Sigurðssonar, fyrrverandi yfirmanns ljósmyndadeildar fyrirtækisins. Eigendur og yfirstjórn 365 hafi aðeins eitt að markmiði að standa að vandaðri fjölmiðlun og afþreyingu og reka gott fyrirtæki. Mikilvægt sé að eigendur, stjórnendur og starfsmenn tali saman sem ein liðsheild. „Þá vil ég að lokum taka fram að 365 er fjölskyldufyrirtæki. Von mín er að við stöndum saman sem ein fjölskylda.“ Þetta kemur fram í bréfi hennar til starfsmanna 365.
Starfsfólk Fréttablaðsins og Vísis sendi í morgun frá sér yfirlýsingu til stjórnarformanns 365, forstjóra og aðalritstjóra fyrirtækisins, þar sem uppsögn á yfirmanni ljósmyndadeildar 365, Pjeturs Sigurðssonar, er mótmælt harðlega. Uppsögnin er sögð óverðskulduð í yfirlýsingunni, en Pjetri var sagt upp störfum fyrir helgi.
Þar eru einnig hörmuð „óásættanleg vinnubrögð aðalritstjóra og yfirstjórnar fyrirtækisins í aðdraganda uppsagnar Pjeturs og við kynningu á henni til samstarfsmanna hans.“ Aðalritstjóri 365 miðla er Kristín Þorsteinsdóttir og forstjóri þess er Sævar Freyr Þráinsson.
Þá greindi Kjarninn frá því í morgun að Fanney Birna Jónsdóttir, aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, hafi sagt upp störfum hjá 365. Hún hefur hefur gengt stöðunni í tæpt ár, en Fanney Birna tók við henni í ágúst 2015. Ingibjörg segir í pósti sínum að Fanney Birna hafi sjálf sagt upp störfum í lok júní síðastliðins og að ástæður uppsagnar hafi verið persónuleg eðlis.
Póstur Ingibjargar í heild sinni:
„Kæru samstarfsmenn
Vegna tilkynningar sem ákveðinn hópur á fréttastofu 365 sendi á mig og fjölmiðla í morgun, vil ég taka fram að fyrirtækið 365 eins og önnur fyrirtæki standa oft frammi fyrir því að þurfa að segja upp starfsmönnum. Að baki því kunna að liggja ýmsar ástæður hverju sinni. Í tilfelli Pjeturs var uppi faglegur ágreiningur milli undirmanns og yfirmanns, sem endaði með uppsögn. Slíkt gerist því miður í öllum fyrirtækjum hvar sem er í heiminum og er alltaf erfitt.
Eigendur og yfirstjórn 365 hafa aðeins eitt að markmiði að standa að vandaðari fjölmiðlun og afþreyingju og reka gott fyrirtæki. Mikilvægt er að við sem ein liðsheild tölum saman og gerum góða fréttastofu og fyrirtækið enn betra.
Rétt er að fram komi vegna umfjöllunar um uppsögn Fanneyjar Birnu Jónsdóttur, aðstoðarritstjóra Fréttablaðsins, að hún sagði sjálf upp störfum 30. júní sl. Ástæður uppsagnarinnar voru persónulegs eðlis.
Þá vil ég að lokum taka fram að 365 er fjölskyldufyrirtæki. Von mín er að við stöndum saman sem ein fjölskylda.
Með bestu kveðju
Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir
Stjórnarformaður og aðaleigandi 365.“