Viktoría Hermannsdóttir hefur sagt upp störfum hjá 365. Hún hefur verið annar ritstjóra helgarblaðs Fréttablaðsins í tæpt ár ásamt Ólöfu Skaftadóttur. Viktoría er annar stjórnandi Fréttablaðsins sem segir upp störfum á skömmu tíma en Fanney Birna Jónsdóttir, aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, hefur einnig gert það. Samkvæmt heimildum Kjarnans eru fleiri starfsmenn fréttastofu 365, sem nær yfir Fréttablaðið, Stöð 2 og Vísi, að íhuga uppsögn.
Ástæðan er óánægja með störf Kristínar Þorsteinsdóttur, aðalritstjóra fréttastofu 365, og yfirstjórnar fyrirtækisins. Sú óánægja náði nýjum hæðum eftir að Pjetri Sigurðssyni, yfirmanni ljósmyndadeildar 365, var sagt upp störfum í síðustu viku, en Pjetur gafði kvartað undan Kristínu við fyrrverandi mannauðsstjóra fyrirtækisins vegna meints eineltis. Mannauðsstjórinn, Unnur María Birgisdóttir, setti af stað formlega athugun á ásökunum Pjeturs en þegar Kristín komst að því að slík athugun stæði yfir var hún stöðvuð af yfirstjórn 365 og Pjetur sendur í leyfi. Unnur María hætti störfum í byrjun júní, eftir að hafa starfað hjá fyrirtækinu í hálft ár.
Í kjölfar uppsagnar Pjeturs voru starfsmenn á ritstjórn 365 boðaðir á fund á föstudag með Kristínu þar sem hún fór yfir málið frá sínum bæjardyrum. Samkvæmt heimildum Kjarnans hélt hún því þar fram að ástæðan fyrir samskiptarörðuleikunum við Pjetur væru hans megin, ekki hennar og ásakaði hann um að vera í herferð gegn sér. Þessi málflutningur fór afar illa í starfsmenn, sérstaklega þar sem hann fékk ekki tækifæri til að segja sína hlið á málinu. Var í kjölfarið rætt um að leggja niður störf og koma í veg fyrir að Fréttablaðið, sem er stærsta dagblað landsins, kæmi út á laugardag.
Þess í stað ákváðu starfsmennirnir að senda frá sér yfirlýsingu vegna atburðanna. Hún var send út á þriðjudag og samkvæmt upplýsingum Kjarnans stóðu nær allir starfsmenn Vísis og Fréttablaðsins sem ekki hafa fjölskyldutengsl við aðalritstjórann og náðist í, að yfirlýsingunni. Í yfirlýsingunni er uppsögn Pjeturs sögð óverðskulduð. Þar eru einnig hörmuð „óásættanleg vinnubrögð aðalritstjóra og yfirstjórnar fyrirtækisins í aðdraganda uppsagnar Pjeturs og við kynningu á henni til samstarfsmanna hans.“ Yfirlýsingin var send til allra fjölmiðla, Ingibjargar Pálmadóttur stjórnarformanns og aðaleiganda 365, Sævars Freys Þráinssonar forstjóra 365 og Kristínar, aðalritstjóra fyrirtækisins. Jakob Bjarnar Grétarsson, fréttamaður á Vísi, deildi frétt Kjarnans um yfirlýsinguna á Facebook í gær og sagði í ummælum við hana að málið snúist „ekki bara um Pjetur, með fullri virðingu fyrir þeim ágæta vini mínum, frekar að hans mál sé kornið sem fyllir mælinn. Blasir það ekki við?“
Starfsmenn voru boðaðir á fund með stjórnendum 365 í dag klukkan 13 til að fara yfir stöðuna. Á þeim fundi tóku Kristín, aðalritstjóri, og Ingibjörg, stjórnarformaður, m.a. báðar til máls. Samkvæmt viðmælendum Kjarnans sem voru á fundinum var mikil óánægja með það á meðal starfsmanna að Kristín hefði ekki beðist afsökunar á framferði sínu gagnvart starfsfólki og að þar hafi ekki verið kynntar neinar beinar aðgerðir til að taka á þeim vanda sem uppi sé innan fyrirtækisins.