Halldór Halldórsson, oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, lagði fram bókun á aukafundi forsætisnefndar borgarstjórnar á föstudag þess efnis að binda eigi kosningu ákveðins fjölda borgarfulltrúa við hverfi í borgarstjórnarkosningum. Þannig gæti Grafarvogur átt sinn fulltrúa í borgarstjórn og Breiðholt sinn. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Tilefni bókunar Halldórs - sem hann gerir ráð fyrir að leggja fram sem formlega tillögu á næstunni - er að borgarfulltrúum verður fjölgað úr 15 í 23 frá og með vorinu 2018. Halldór er þeirrar skoðunar að þá eigi að ráðast í að bunda kosningu hluta borgarfulltrúa við ákveðin hverfi, líkt og gert sé víða erlendis. Tilgangurinn, að sögn Halldórs, er að auka áhrif íbúanna á ákvarðanatöku og stytta enn frekar boðleiðir milli kjörinna borgarfulltrúa og íbúanna.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið mótfallinn fjölgun borgarfulltrúa og hefur lagt til að Alþingi endurskoði lagaákvæði þess efnis þannig að borgarstjórn geti haft sjálfdæmi um hvort þeim verði fjölgað eða ekki.