Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti í morgun frumvarp sitt um losun fjármagnshafta fyrir ríkisstjórn. Búist er við að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi innan tíðar.
Stjórnvöld kynntu áætlun sína um losun hafta í fyrrasumar. Aðalatriði þeirrar áætlunar snérust um að ljúka slitum þrotabúa föllnu bankanna og aðgerðir til að taka á hinni svokölluðu aflandskrónusnjóhengju í eigu erlendra aðila sem var föst innan íslenskra hafta. Samið var við kröfuhafa föllnu bankanna um að þeir gæfu eftir hluta eigna sinna gegn því að fá að fara með aðrar eignir út úr höftum og var gengið frá því samkomulagi á síðasta ári.
Næsta stóra skref var svo aflandskrónuútboð Seðlabanka Íslands, þar sem eigendum slíkra voru boðnir tveir kostir. Annar fólst í því að eigendurnir samþykki að selja krónurnar sínar á genginu 190-220 krónur á hverja evru í útboði sem fór fram 16. júní síðastliðinn. Þeir sem myndu ekki samþykkja að taka þátt í þessu útboði myndi bjóðast að fjárfesta í sérstökum innstæðubréfum útgefnum af Seðlabanka Íslands sem bera 0,5 prósent vexti en vextir á þeim eru endurskoðaðir árlega.
Tvo útboð voru haldin í júní. Fjárhæð samþykktra tilboða í báðum útboðunum var 83 milljarðar króna. Alls voru 188 milljarðar króna boðnir í útboðinu en heildarumfang aflandskrónuvandans var fyrir það um 319 milljarðar króna. Því liggur fyrir að stórir aflandskrónueigendur tóku ekki þátt í útboðunum. Þar er aðallega um að ræða bandaríska fjárfestingasjóði sem hafa boðað málshöfðun gegn íslenska ríkinu vegna málsins.
Þá voru einnig framkvæmdar lagabreytingar sem færðu Seðlabanka Íslands nýtt stjórntæki í tengslum við undirbúning losunar hafta. Um er að ræða reglu um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris sem á að draga úr svokölluðum vaxtamunaviðskiptum.
Allir ofangreindir þættir áttu að marka leiðina að losun hafta á einstaklinga og fyrirtæki á Íslandi. Og nú hefur fjármála- og efnahagsráðherra kynnt frumvarp um hvað muni felast í þeirri losun fyrir ríkisstjórn sinni.