Seðlabanki Íslands segir að samanburður á greiðslubyrði og eftirstöðvum verðtryggðra og óverðtryggðra fasteignalána sem er að finna í greinargerð með frumvarpi til laga um stuðning til að kaupa á fyrstu íbúð (einnig þekkt sem Fyrsta fasteign) sé „afar villandi“. Þær fjárhæðir sem þar eru settar fram séu ekki sambærilegar á milli ára og réttara hefði verið að setja samanburð sem þennan fram á föstu verðlagi. Þetta kemur fram í umsögn Seðlabankans um frumvarpið.
Upplýsingar sem byggðu á samanburðinum sem Seðlabankinn gagnrýnir er einnig að finna í kynningu sem haldin var á Fyrstu fasteign í Hörpu nýverið. Seðlabankinn tekur þó ekki beina afstöðu til frumvarpsins, þar sem að það snýr fyrst og fremst að „tekjuskiptingu og tilfærslu á skattbyrði milli kynslóða.“
Seðlabanki Íslands gagnrýnir einnig frumvarp um til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, sem á að banna hluta Íslendinga að taka 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán, í umsögn sinni um það frumvarp. Þar segir að tilgangur frumvarpsins sé óljós en virðist vera sá að mæta skorti á upplýsingagjöf vegna lánveitinga. „Ef svo er væri æskilegra að bregðast við því með beinum hætti frekar en að takmarka þá valkosti sem standa hluta lántakenda til boða, sérstaklega þar sem ekki er metið til hve margra bannið mun líklega ná. Í frumvarpinu er sú tegund lána sem lagt er til að verði óheimil mjög skýrt tilgreind, en bannið mun því ekki ná til lánsforma sem viðbúið er að komi fram verði það að veruleika, og geta líkt nánast algerlega eftir því formi sem bannað verður. Því er líklegt að verði afar erfitt að ná þeim markmiðum sem frumvarpi þessu er ætlað að ná.“
Seðlabankinn bendir á að í frumvarpinu sé lögð til breyting á lögum um vexti og verðtryggingu. „Í kjölfar álits ESA um að algjört bann á gengistryggðum lánum fæli í sér brot á 40 gr. EES samningsins hefur verið unnið að breytingum á þessum lögum. Samhliða hafa einnig verið lagðar til breytingar er lúta að takmörkun lánveitinga í erlendum gjaldmiðlum til óvarinna aðila. Seðlabankinn telur afar brýnt að þessar breytingar nái fram að ganga.“