Hagstofa Íslands segir að sér „þykir miður“ að mistök hafi orðið við útreikning á vísitölu neysluverðs með þeim afleiðingum að verðbólga var verulega vanmetin frá mars 2016 og til og með september sama árs. Stofnunin tekur málið mjög alvarlega og ætlar að reyna eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig. Þetta kemur fram í frétt á vef hennar.
Í gær var greint frá því því að Hagstofunni hefði reiknuð húsaleiga verið vanmetin við útreikningi vísitölu neysluverðs, sem mælir verðbólgu. Þessi mistök hafa nú verið leiðrétt með þeim afleiðingum að vísitalan hækkaði um tæp 0,5 prósent á milli mánaða og langt umfram allar opinberar spár. Þetta þýðir líka að 12 mánaða verðbólga hefur verið verulega vanmetin undanfarið hálft ár. Ársverðbólga, sem var 0,9 prósent í ágúst, mælist því 1,8 prósent í september.
Mistök Hagstofunnar hafa víðtæk áhrif. Þeir sem tekið hafa ný verðtryggð húsnæðislán á því tímabili sem þau ná yfir munu til að mynda þurfa að greiða uppsafnaðar verðbætur af lánum sínum. Þeir sem tóku lán í septembermánuði munu auk sjá þau hækka hins vegar skarpar en annars hefði orðið. Þeir sem ætla sér að taka verðtryggð húsnæðislán þessa daganna ættu að bíða fram í nóvember hið minnsta svo þeir þurfi ekki að greiða uppsafnaðar verðbætur tímabils sem þeir voru ekki með lán, vegna mistaka Hagstofunnar. Þá mun húsaleiga þeirra sem er bundin við þróun vísitölu neysluverðs hækka um komandi mánaðarmót.
Áhrifin á skuldabréfamarkað í gær voru einnig mikil og verðbólguálag hækkaði skarpt. Þá er ljóst að hluti þeirra forsenda sem nefndar voru fyrir vaxtalækkun Seðlabanka Íslands fyrir skemmstu eru nú brostnar. Greiningaraðilar sem spáðu áframhaldandi lækkun stýrivaxta hafa þegar breytt spám sínum í að vextir haldist óbreyttir.
Hagstofan sagði í gær að það liti út fyrir að mannleg mistök hafi orsakað reikniskekkjuna.