Samfylkingin ætlar að fyrirframgreiða vaxtabætur næstu fimm ára til að styrkja fólk til fyrstu íbúðarkaupa, komist flokkurinn til valda. Fólk í sambúð á að geta fengið þrjár milljónir króna í slíkt „forskot“, einstætt foreldri 2,5 milljónir króna og einstaklingur tvær milljónir króna. Þetta kosningaloforð var tilkynnt á blaðamannafundi í dag.
Í fréttatilkynningu frá Samfylkingunni segir að þrjá milljónir króna ætti til að mynda að duga fyrir útborgun á 20 milljóna króna íbúð, ef miðað er við að kaupandinn taki 85 prósent lán. Ljóst er að fáar ef einhverjar samþykktar, og þar með lánshæfar, íbúðir eru til sölu á höfuðborgarsvæðinu sem kosta undir 20 milljónir króna. Í skýringargögnum Samfylkingarinnar segir t.d. að tveggja herbergja íbúðir kosti í dag frá 22 milljónum króna á höfuðborgarsvæðinu. Því mun hámarksgreiðslan ekki duga sem heildarútborgun fyrir flesta sem eru í húsnæðisvanda heldur sem hlutfall af slíkri útborgun.
Fari svo að þeir sem fái fyrirframgreiðsluna á vaxtabótum til fimm ára hækki í tekjum á tímabilinu, og rýri þar með rétt sinn til vaxtabóta, mun kostnaðurinn sem ekki fæst endurgreiddur falla á ríkið. Vaxtabæturnar byrja að skerðast þegar tekjur einstæðinga fara yfir fjórar milljónir króna á ári og hjá sambúðarfólki þegar sameiginleg árslaun þeirra fara yfir 6,5 milljónir króna. Þegar einstaklingur er kominn með yfir 6,4 milljónir króna á ári í heildarlaun, 533 þúsund krónur á mánuði, þá fellur réttur hans til vaxtabóta niður. Hjá hjónum eða sambúðarfólki fellur hann niður þegar þau hafa saman 10,4 milljónir króna í árstekjur, eða 433 þúsund krónur hvort á mánuði.
Ætla að fjölga leiguíbúðum
Þeir sem fá hámarksgreiðslu út úr þessu kerfi munu fá 600 þúsund krónur á ári, og alls þrjár milljónir króna yfir fimm ára tímabil. Í „spurt og svarað“um leiðina á heimasíðu Samfylkingarinnar segir að „Kostnaður við úrræðið veltur á fjölda þeirra sem færa sér það í nyt.Í grunninn er verið að veita vaxtabótum fyrir fram sem fólk ætti öllu jöfnu rétt á næstu fimm árin. Áætla má að kostnaður vegna fyrirframgreiðslu vaxtabóta sé þó um 10,5% hærri en útlögð upphæð vegna tímavirðis peninga (m.v. 5% ávöxtunarkröfu). Einnig má búast við að kostnaður falli á ríkið vegna þeirra sem fá fyrirframgreiðslu vegna fimm ára, en hækka svo í tekjum á þeim fimm árum þar sem ríkið færi ekki fram á endurgreiðslu vegna breytinga á tekjum eða eignastöðu á tímabilinu. Vegna áætlana um hækkun skerðingarmarka vegna tekna og eigna, mun þessi munur þó minnka. Á árinu 2016 var kostnaður ríkissjóðs vegna vaxtabóta rúmir 6,2 milljarðar króna, en árið 2011 var kostnaðurinn tæpir 19 milljarðar.“
Samhliða ofangreindri leið, sem kallast „Forskot á fasteignamarkaði“, ætlar Samfylkingin að taka upp nýtt kerfi húsnæðisbóta, hækka skerðingarmörk og styðja betur við barnafjölskyldur en nú er gert. Meðal þess sem það felur í sér er að vaxtabætur eigi að ráðast af fjölda barna.
Til viðbótar ætlar Samfylkingin, samkvæmt kosningastefnu sinni, að fjölga almennum leiguíbúðum um fjögur þúsund á kjörtímabilinu og fjölga námsmannaíbúðum um eitt þúsund um allt land.
Ekki hægt að stinga hagnaðinum í vasann
Ekki verður hægt að nýta „forskotið“ til að kaupa sér íbúð, selja hana strax aftur og leysa út hagnaðinn. Á heimasíðu Samfylkingarinnar segir að ríkið taki veð, verði aftast í veðröðinni og ef viðkomandi selur innan fimm ára þarf hann annað hvort að skila fyrirframgreiðslunni eða færa hana yfir á nýja eign.
Í kynningartexta Samfylkingarinnar er leiðin borin saman við fyrstu fasteignar leið sitjandi ríkisstjórnar, sem miðar við að veita fyrstu kaupendum heimild til að nota séreignarsparnað sinn skattfrjálst til að greiða inn á íbúð. Í þeirri leið þurfa fyrstu íbúðakaupendur hins vegar að spara í allt að tíu ár og nota féð síðan. Samfylkingin vill færa þeim það núna.
Samfylkingin gengst við því að leiðin gæti haft áhrif til hækkunar á húsnæðismarkaði, og gert eiginfjárframlag þeirra sem eru að kaupa sér fasteign hærra en það er í dag. Erfitt sé þó að áætla hversu mikil þau áhrif yrðu.
Vert er að benda á að eigið fé í fasteignum Íslendinga jókst úr 1.146 milljörðum króna í 2.285 milljarða króna frá lokum árs 2010 og fram að síðustu áramótum. Það hefur því tvöfaldast á sex ára tímabili.