Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur sett sig í samband við Óttarr Proppé, formann Bjartrar framtíðar, um myndun nýrrar ríkisstjórnar flokkanna tveggja og Viðreisnar. Þeir ræddu saman í síma í gær. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, vill ekki gefa upp hvort að hann og Bjarni hafi rætt saman. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Ríkisstjórn þessara þriggja flokka myndi vera með minnsta mögulega meirihluta, eða 32 þingmenn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur 21 þingmenn eftir kosningarnar á laugardag, eða tveimur fleiri en á síðasta kjörtímabili. Viðreisn, sem sest nú á Alþingi í fyrsta sinn, fékk 10,5 prósent atkvæða og sjö þingmenn. Björt framtíð tapaði tveimur þingmönnum og hefur nú fjóra.
Í Fréttablaðinu er rætt við Björt Ólafsdóttur, þingkonu Bjartrar framtíðar. Hún segir að það séu ekki margir aðrir kostir í stöðunni en ríkisstjórn þessara þriggja flokka. „Við höfum áður sagt að við útilokum ekkert þó mikið þurfi að ganga á til að við göngum til samstarfs með Framsóknarflokki [...] Það er lítið sem ber í milli okkar og Viðreisnar og það hefur verið að koma betur og betur í ljós í kosningabaráttunni. Afdráttarlausar yfirlýsingar annarra formanna hafa einnig fækkað mögulegum ríkisstjórnarmyndunum þannig að það er ekki um marga aðra kosti að ræða.“
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur gefið afar lítið fyrir mögulega ríkisstjórn sem innihaldi bæði flokk hennar og Sjálfstæðisflokkinn. Lengst sé á milli þessara flokka af öllum þeim sem eiga fulltrúa á Alþingi.
Formenn allra þeirra flokka sem náðu kjöri til Alþingis um helgina munu mæta til fundar við forseta Íslands í dag. Bjarni Benediktsson hittir hann fyrstur klukkan 10.