Búið er að slíta stjórnarmyndunarviðræðum milli Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, sem hófust formlega á föstudag. Það var gert í dag og ástæðan er ágreiningur milli flokkanna um sjávarútvegsmál sem ekki náðist sátt um.
Líklegt er að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins skili nú umboði sínu til stjórnarmyndunar, og að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, fái umboðið næst. Hún hefur áður sagt að hennar fyrsti kostur væri að mynda ríkisstjórn frá vinstri og að miðju.
Heimildir Kjarnans herma að vel hafi gengið að ræða um breytingar á landbúnaðarkerfinu um liðna helgi. Ákveðið hafði verið að geyma Evrópumálin þar til síðast og dagurinn í dag átti að fara í að ræða sig niður á mögulegar lausnir í sjávarútvegsmálum. Þar bar töluvert á milli. Viðreisn og Björt framtíð vilja að aflaheimildir verði að hluta afturkallaðar og boðnar upp á markaði, til að stuðla að meira jafnræði í greininni og frekari tekjum fyrir samneysluna vegna nýtingar á fiskveiðiauðlindinni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið alfarið á móti þessum leiðum og á því strandaði á endanum.
Voru búin að fresta Evrópumálum
Stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar hófust formlega á laugardagsmorgun eftir að ákveðið var að láta á þær reyna á föstudag. Áður höfðu óformlegar þreifingar átt sér stað dögum saman.
Eftir að tilkynnt var um að formlegar viðræður myndu eiga sér stað á föstudag reis reiðibylgja upp þar sem hin fyrirhugaði ráðahagur var harðlega gagnrýndur í opinberri umræðu og á samfélagsmiðlum. Andúðin beindist fyrst og fremst að Óttarri Proppé, formanni Bjartrar framtíðar, og kom í flestum tilfellum frá stjórnmálamönnum og aðilum sem eru fylgismenn þeirra flokka sem eiga ekki aðild að stjórnarmyndunarviðræðum eða fólki sem er alfarið á móti veru Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn.
Þessi mikla opinbera andúð hafði áhrif á viðræðurnar og Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, sá sig knúinn til að taka upp hanskann fyrir Óttarr á samfélagsmiðlum á sunnudagskvöld. Samt sem áður töldu viðmælendur Kjarnans að góðar líkur væru á að nást myndi saman, sérstaklega varðandi sjávarútvegsmál. Helsta ásteytingarsteinninn yrði Evrópumál og var ákveðið að fást við þau síðast. Þau komust þó ekki formlega á dagskrá vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn lagðist gegn afturköllun á hluta fiskveiðiheimilda og/eða uppboði á hluta þeirra.