Ný H&M verslun verður opnuð í 2.600 fermetra verslunarrými á annarri hæð í norðurlenda Kringlunnar seinni hluta árs 2017. Sem stendur er rekin Hagkaupsverslun í rýminu. Hagkaup hefur um áratugaskeið rekið tvær verslanir, á fyrstu og annarri hæð í norðurenda verslunarmiðstöðvarinnar, en Hagar, eigandi Hagkaups, hafa nú skrifað undir nýjan leigusamning um að opna eina nýja verslun á einni hæð. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Reitum, eiganda Kringlunnar. Þar segir einnig að samningar séu á lokastigi við alþjóðlegt fatamerki um að reka 1.000 fermetra verslun við hlið H&M á annarri hæðinni.
Áður hefur verið greint frá því að H&M muni opna verslanir í Smáralind og í miðbæ Reykjavíkur (á Hafnartorgi). Verslanirnar munu opna á árunum 2017 og 2018. Því verða verslanir H&M á Íslandi þrjár í nánustu framtíð.
Þrátt fyrir að H&M, sem er ein stærsta fataverslunarkeðja heimsins, hafi aldrei rekið verslun hér á landi, þá hafa rannsóknir sýnt að markaðshlutdeild fyrirtækisins í fatainnkaupum Íslendinga er mikil og stöðug.
Kjarninn fjallaði um stöðuna eins og hún birtist hjá notendum heimilisfjármálahugbúnaðarins Meniga, fyrir árið 2013. Tæp 37 prósent notenda Meniga verslaði í H&M. Tekjuhærri hópar versla mun oftar en þeir tekjulægri. Þannig versluðu 26 prósent tekjulægsta hópsins í H&M í samanburði við 47 prósent þeirra tekjuhæstu.
Lítill sem enginn munur var á meðalupphæð sem keypt var fyrir í hvert sinn eftir tekjuhópum, en hún var rúmar 15 þúsund krónur. Sama má segja um heildarupphæð sem þeir vörðu í H&M á árinu 2013, en hún nam að meðaltali 32 þúsund krónum.
Sé litið til heildarinnar þá var markaðshlutdeild H&M 22 prósent í fatainnkaupum Íslendinga, þrátt fyrir að engin verslun hafi til þess verið staðsett á landinu. Líklegt verður að teljast að innreið H&M hingað til lands geti haft veruleg áhrif á verslun hér á landi, sé mið tekið af þessum tölum.