Níu formenn félaga Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir stuðningi við tillögu Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, um svonefnda blandaða prófkjörsleið fyrir framboðslista flokksins í borginni fyrir komandi sveitastjórnarkosningar.
Sjálfstæðismenn í Reykjavík geta því allir tekið þátt og haft áhrif á val á næsta leiðtoga flokksins í borginni. Uppstillingarnefnd, kjörin af fulltrúaráði flokksins, velur síðan fulltrúa í önnur sæti á lista, að því er segir i tilkynningu frá formönnunum.
Formennirnir eru Friðrik Þór Gunnarsson, formaður Heimdallar, Egill þór jónsson, formaður Hóla- og Fellahverfis, Sigurður Helgi Birgisson, formaður Nes- og Melahverfis, Elín Jónsdóttir, formaður í Árbæ Árni Guðmundsson, formaður í Grafarvogi, Elín Engibertsdóttir, formaður í Langholtshverfi, Júlíus Helgi Eyjólfsson, formaður í Grafarholti, Hafsteinn Númason, formaður á Kjalarnesi og Gylfi Þór Sigurðsson, formaður í Háaleiti. „Á undanförnum árum hefur þátttaka í prófkjörum farið dvínandi, en til marks um það tóku aðeins 3400 manns þátt í prófkjöri flokksins í Reykjavík fyrir síðustu alþingiskosningar. Það er versta þátttaka í prófkjöri Sjálfstæðisflokksin í Reykjavík frá upphafi. Til samanburðar eru um 2000 einstaklingar í fulltrúaráði flokksins, sem kjósa uppstillinganefndina. Opið prófkjör hefur sætt sívaxandi gagnrýni flokksmanna sér í lagi margra sjálfstæðiskvenna er þótti hlutur kvenna rýr í niðurstöðum síðustu prófkjöra víða um land til alþingiskosninga. Á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar röðuðu þrír karlmenn sér í þrjú efstu sætin. Sjálfstæðisflokkurinn var brautryðjandi prófkjörsleiðarinnar og hefur haft hana að meginreglu á vali á framboðslista sína en er á sama tíma óhræddur að velja nýjar leiðir við val á lista sem tryggt getur aukna fjölbreytni, styrkt hlut kvenna og sótt fulltrúa úr ólíkum hverfum borgarinnar,“ segir í tilkynningu frá formönnum félaga Sjálfstæðisflokksins.