Yfirmaður í Bandaríkjaher, aðdmírállinn Michael Dumont, segir í bréfi til þingmanns Demókrata, Ted Lieu, að eina leiðin til að afvopna her Norður-Kóreu, og koma í veg fyrir möguleikann á því að kjarnorkuvopnum sé beitt gegn Bandaríkjunum og bandalagsþjóðum, sé innrás og landhernaður.
Í umfjöllun breska ríkisútvarpsins BBC segir Dumont telji erfitt að meta hver yrðu áhrifin á fyrstu stigum innrásar, en að hættan á kjarnorkuárás Norður-Kóreu séu umtalsverð, og þá sé einnig erfitt að meta hvernig hvernig myndi takast að gera neðanjarðarvirki Norður-Kóreu óvirkt, en það er umfangsmikið og mikilvægur hluti af vörnum hersins.
Dear @realDonaldTrump: It is morning in Japan. This @washingtonpost article on grim N Korea war options is for you. https://t.co/PxPHxSgL0u
— Ted Lieu (@tedlieu) November 5, 2017
Í bréfinu fer Dumont ekki leynt með það, að hann styðji efnahagslegar og pólitískar þvinganir gagnvart Norður-Kóreu, áður en gripið er til hernaðaraðgerða. Greinilegt er að mikil óvissa er um hvernig stríð gæti þróast komi til þess að barist verði í landhernaði á Kóreuskaga. Hinn óútreiknanlegi leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong Un, er einnig talinn líklegur til að bregðast hratt við árás á landið og þá með fífldirfsku og jafnvel kjarnorkuárás.
Í yfirlýsingu frá Lieu segir að hann að þessar upplýsingar frá yfirmanni í hernum séu verulega varhugaverðar og að þær sýni að gríðarlegt manntjón geti orðið á örfáum dögum, og þar geti mörg hundruð þúsund eða jafnvel milljónir manna farist.
Þá segir hann það líka liggja fyrir, að hernaðaríhlutun á Kóreuskaga sé ekki góð lausn, og gagnrýnir hann Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrir að grafa undan friðsælum lausnum á spennunni á Kóreuskaga, og auka hættuna á því að stríð brjótist út með skelfilegum afleiðingum.
Íbúar í Norður-Kóreu eru 25 milljónir en í Suður-Kóreu 51 milljón. Á Kóreuskaga eru því um 76 milljónir íbúa. Höfuðborg Suður-Kóreu, Seúl, er aðeins í 35 kílómetra fjarlægð frá landamæru Norður-Kóreu, en þar er þéttasta og fjölmennasta borgarsamfélagið á Kóreuskaga, með 10 milljónir íbúa.