Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur lagt fram fyrirspurn til forseta Alþingis um aksturskostnað þingmanna. Hann vill fá að vita hver mánaðarlegur og árlegur aksturskostnaður sérhvers þeirra þriggja þingmanna sem fengu hæstu greiðslurnar samkvæmt akstursskýrslu á árunum 2013–2016 í hverju kjördæmi var.
Í stuttri greinargerð sem fylgir fyrirspurninni er sérstaklega tekið fram að þess sé ekki óskað að viðkomandi þingmenn séu nafngreindir, einungis er spurt um upphæðirnar sem eru undir.
Björn Leví spurði út í aksturskostnað þingmanna á síðasta þingi. Í svari þáverandi forseta Alþingis, Unnar Brár Konráðsdóttur, við fyrirspurninni, sem var birt í byrjun nóvember, kom fram að frá byrjun árs 2013 og til loka árs 2016 hafi þingmenn fengið greiddar 163 milljónir króna vegna aksturs eigin bifreiða. Þingmönnum er heimilt að halda akstursdagbækur og fá kostnað endurgreiddan frá þinginu. Á árinu 2016 fóru tvær af hverjum þremur krónum sem voru endurgreiddar vegna aksturskostnaðar til þingmanna Suðurkjördæmis. Þrátt fyrir margar fyrirspurnir, frá þingmönnum og fjölmiðlum, þá hefur Alþingi ætið neitað að greina frá því hvað hver þingmaður hefur fengið í akstursgreiðslur.
Þingið hefur hvatt þingmenn til að nýta sér bílaleigubíla í meiri mæli í stað þess að nota eigin bíla og fá greidda aksturspeninga, til að svara kostnað. Þessi tilmæli hafa skilað því að endurgreiðslur til þingmanna í Norðvesturkjördæmi hafa dregist verulega saman.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, var spurður af því af Fréttablaðinu í nóvember hvort hann vildi upplýsa um hversu mikið hann hefði fengið greitt vegna aksturs á árinu 2016. Hann vildi ekki greina frá því. Þess í stað spurði hann blaðamann: „Þið eruð ekki að spyrja hvað lögfræðingarnir frá Rauða krossinum eru að fá fyrir að senda bréf til innanríkisráðuneytisins vegna hælisleitenda, er það? Þið viljið ekki að þeir missi spón úr aski sínum?“
Ásmundur baðst síðar afsökunar á orðum sínum í viðtalinu og sagðist hafa verið argur og þreyttur þegar viðtalið var tekið.