Mörg hundruð manns verður sagt upp hjá WOW air í dag en Fréttablaðið greindi fyrst frá uppsögnunum.
Stór hluti af endurskipulagningu WOW air felst í því að fækka flugvélum úr tuttugu í ellefu og verða eingöngu flugvélar að gerðinni Airbus A321 og A320 í flota félagsins. Félagið er í samningaviðræðum um skil á nokkrum flugvélum til leigusala þar með talið öllum Airbus A330 breiðþotum. Verið er að ganga frá samningi þess efnis að selja fjórar Airbus A321 flugvélar sem verða afhentar í janúar 2019 og mun bæta lausafé félagsins um 10 milljónir Bandaríkjadala. Þetta kemur fram í tilkynningu frá WOW air sem send var út rétt í þessu.
Í henni kemur jafnframt fram að í ljósi þessara breytinga á starfsemi félagsins sé því óumflýjanlegt að fækka í starfsmannahópi WOW air. „Í dag var 111 fastráðnum starfsmönnum sagt upp störfum og ná uppsagnir starfsmanna þvert á fyrirtækið. Að sama skapi munu samningar við verktaka og tímabundna starfsmenn ekki verða endurnýjaðir að svo stöddu. Vonir standa til að stór hluti þeirra sem fengu uppsögn í dag fái tækifæri hjá félaginu að nýju,“ segir í tilkynningunni.
Hætta Indlandsflugi
Engar breytingar verða á flugáætlun í desember og byrjun janúar, samkvæmt WOW air. Frá janúar næstkomandi mun félagið fljúga samkvæmt nýrri flugáætlun. Síðasta flug frá Nýju Delí er 20. janúar og frá Los Angeles 14. janúar. WOW air mun hafa samband við þá farþega sem verða fyrir áhrifum breytinga á leiðarkerfi félagsins.
Enn fremur segir í tilkynningunni að síðastliðið ár hafi reynst WOW air mjög erfitt í rekstri og unnið hafi verið markvisst að því undanfarið að snúa rekstrinum við til hins betra og fjármagna félagið. „Eins og fram hefur komið er Indigo Partners að vinna með WOW air um að tryggja langtíma fjármögnun félagsins. Liður í þeirri vinnu er að einfalda rekstur WOW air og ná arðsemi á ný en félagið skilaði hagnaði árin 2015 og 2016.“
Erfiðasti dagurinn í sögu WOW air
Skúli Mogensen forstjóri og stofnandi WOW air segir þetta vera erfiðasta daginn í sögu WOW air. „Við erum með frábæran hóp af fólki sem hefur lagt hart að sér að gera WOW air að veruleika og það er því sorglegt að neyðast til að fara í þennan niðurskurð. Ég vildi óska þess að það væri til önnur leið en staðreyndin er sú að við verðum að snúa við rekstrinum og koma honum aftur í gott horf áður en við getum hafið uppbygginguna að nýju,“ segir Skúli.
Eftir þessar rekstrarbreytingar munu áfram starfa hátt í þúsund manns hjá félaginu.