„Alþjóðleg samvinna og virk hagsmunagæsla er undirstaða þess að lífskjör og tækifæri hérlendis geti áfram orðið með því sem best sem gerist í heiminum.“
Þetta sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, í opnunarávarpi sínu í morgun á ráðstefnu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, Norðurlanda í fókus og utanríkisráðuneytisins sem ber titilinn „Alþjóðasamvinna á krossgötum: Hvert stefnir Ísland?“
Í ræðunni gerði hann stöðu Íslands í umheiminum að umtalsefni, og hvernig hann teldi best að haga utanríkisstefnu landsins. Hann sagði að hann væri sannfærður um það, að „unga fólkið“ tryði jafn mikið og hann á frjáls alþjóðleg viðskipti og þátttöku í EES-samstarfinu.
Hann sagði þátttöku í alþjóðlegri samvinnu lykilatriði, samhliða öflugri hagsmunagæslu. „Þar er samstarfið innan Evrópska efnahagssvæðisins lykilþáttur, sem og vestræn samvinna í þágu öryggis. Síðast en ekki síst felur þátttaka í alþjóðlegri samvinnu í sér viðurkenningu erlendra ríkja á því að Ísland sé frjálst og fullvalda ríki,“ sagði Guðlaugur Þór.
Í ávarpinu nefndi hann einnig að stöðugt þyrfti að greina tækifæri, og að reyna að liðka fyrir alþjóðlegum viðskiptum. Það skipti Ísland miklu máli. Nefndi hann sem dæmi tengingu Íslands við Asíuríki, þar sem mikill vöxtur hefur einkennt efnahagsmál og þróun þeirra. „Þá má ekki gleyma því að utanríkisviðskipti byggja einnig á alþjóðlegu samstarfi og regluverki. Mikið er rætt um að þessi öld verði öld Asíu enda eykst hagsæld þar hratt og íbúum fjölgar. Ég hef leitast við að funda með kollegum mínum í stærstu ríkjum Asíu í þeim tilgangi að liðka fyrir viðskiptum. Þannig hefur okkur meðal annars tekist að koma á samkomulagi sem greiðir fyrir beinum flugsamgöngum milli Íslands og Japans og öðru samkomulagi um tímabundin atvinnuréttindi ungs fólks í Japan og á Ísland, auk annars samkomulags sem greiðir fyrir útflutningi íslenskrar landbúnaðarvöru til Kína. Utanríkisþjónustan er í dag með sendiráð í þessum tveimur löndum, auk Indlands. Þar vinnur starfsfólk okkar að því að aðstoða íslensk fyrirtæki við að opna á ný tækifæri á þessum fjarlægu mörkuðum, auk þess að kynna íslenska menningu og samfélag fyrir heimafólki,“ sagði Guðlaugur Þór.
Ávarp hans má í heild sinni lesa hér.