Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, segir það skynsamlegt að leggja útsvar á fjármagnstekjur. Það sé „óþolandi að sumir séu í aðstöðu til að beinlínis velja að greiða ekki skatta til sveitarfélaga. Við hin borgum þá í staðinn leikskóla, grunnskóla, götulýsingu, gistiskýli, menningarstofnanir, umönnun aldraðra og veikra og allt annað sem útsvarið okkar fer í.“
Þetta segir Drífa í stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hún tengir við frétt Stundarinnar um að Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, muni leggja fram tillögu í borgarstjórn á morgun þess efnis að útsvar verði lagt á fjármagnstekjur.
Staðgreiðsla skatta af launatekjum er á bilinu 36,94 til 46,24 prósent að útsvari meðtöldu en fjármagnstekjuskattur er 22 prósent. Þeir sem hafa tekjur sínar af fjármagni þurfa ekki að greiða útsvar af þeim tekjum.
Í greinargerð með tillögu Sönnu segir að útsvarið sé veigamesti tekjustofn sveitarfélaganna og sé dregið af launum launafólks. Fjármagnstekjur beri hinsvegar ekkert útsvar ólíkt launatekjum. „Tekjur hinna allra auðugustu eru að miklu leyti fjármagnstekjur og greiða þeir aðilar því ekki sama hlutfall af tekjum sínum til sveitarfélaganna sem þeir búa í, líkt og launafólkið. Hafi einstaklingur einungis fjármagnstekjur en engar launatekjur greiðir viðkomandi ekkert útsvar til viðkomandi sveitarfélags sem hann býr í. Þ.e.a.s. viðkomandi greiðir því ekki í sameiginlegan sjóð borgar eða bæjar líkt og launafólk viðkomandi sveitarfélags. Til að vinna gegn þessu ósamræmi í skattlagningu og til að efla tekjustofna sveitarfélaganna er mikilvægt að leggja útsvar á fjármagnstekjur.“
Sanna telur að með þessu megi styrkja borgarsjóð og þar með borgina svo að hún hafi burði til að sinna öllum þeim verkefnum er koma inn á hennar borð og þannig geti hún veitt sem bestu þjónustuna. „Markmið þessarar tillögu snýr að því að efla tekjustofna sveitarfélaganna og koma á réttlátara skattkerfi í gegnum álagningu útsvars á fjármagnstekjur. Hlutverk Sambandsins er að vinna að eflingu íslenskra sveitarfélaga og að hvers konar hagsmunamálum þeirra. Þá snýr tilgangur Sambandsins m.a. að því að vera sameiginlegur málsvari sveitarfélaganna í landinu og að vinna að sameiginlegum hagsmunum þeirra og samstarfi. Því er lagt til að unnið verið að framkvæmd tillögunnar á borði Sambandsins.“
Þetta er skynsöm tillaga enda óþolandi að sumir séu í aðstöðu til að beinlínis velja að greiða ekki skatta til...
Posted by Drífa Snædal on Monday, September 2, 2019