Til stóð hjá Sjálfstæðisflokknum að ljúka endurgreiðslu styrkja, sem hann fékk í lok árs 2006 frá FL Group og Landsbanka Íslands, fyrir árið 2018. Þessi áform hafa ekki gengið eftir, samkvæmt svari Þórðar Þórarinssonar, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, við fyrirspurn Kjarnans. Samtals námu styrkirnir 56 milljónum króna.
„Eins og áður hefur komið fram hlutu stjórnmálaflokkar háa styrki frá fyrirtækjum árið 2006. Þó að styrkirnir væru í fullu samræmi við þágildandi lög sættu þeir mikilli gagnrýni í opinberri umræðu. Ólíkt öðrum stjórnmálaflokkum ákvað Sjálfstæðisflokkurinn einn flokka að endurgreiða þá styrki. Sjálfstæðisflokkurinn hefur, eins og áður hefur komið fram, endurgreitt af rekstrarfé sínu,“ segir í svari Þórðar til Kjarnans.
Til stóð að ljúka endurgreiðslum fyrir árið 2018, eins og áður segir. „Það gekk því miður ekki eftir, meðal annars vegna þess að kosningar reyndust mun tíðari en ráð var fyrir gert, en þær eru langsamlega fjárfrekustu útgjaldaliðir stjórnmálaflokka. Endurskoðuð áætlun gerir ráð fyrir að endurgreiðslum ljúki á næstu misserum,“ segir enn fremur í svarinu.
Sagði að flokkurinn væri búinn að endurgreiða styrkina
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gerði endurgreiðslur Sjálfstæðisflokksins að umtalsefni í stöðuuppfærslu á Facebook þann 15. nóvember síðastliðinn. Þar talaði hann um styrkina sem Samfylkingin fékk frá Samherja og ákvörðun flokksins að skila þeim til fólksins í Namibíu. Brynjar sagði að það væri út af fyrir sig góðra gjalda vert og að fleiri mættu styrkja bágstadda í heiminum.
„Þeir sem eru eldri en tvævetur muna kannski eftir styrkjunum til stjórnmálaflokka fyrir hrun og voru eðlilega gagnrýndir. Þar tróndu Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn á toppnum. En Samfylkingin hefur ekki endurgreitt þá tugi milljóna sem hún fékk í styrki þá. Það gerði þó Sjálfstæðisflokkurinn,“ skrifaði Brynjar.
Ég gleymdi í færslunni minni fyrr í dag að nefna toppinn í sýndarmennsku Samfylkingarinnar. Nú á að nota styrkinn frá...
Posted by Brynjar Níelsson on Friday, November 15, 2019
Formaðurinn sagði árið 2009 að styrkirnir yrðu endurgreiddir
Styrkirnir voru veittir í lok árs 2006 og námu samtals 56 milljónum króna. Vorið 2009 sagði Bjarni Benediktsson, þá nýkjörinn formaður flokksins, að styrkirnir yrðu endurgreiddir.
Á landsfundi flokksins 2013 kom fram í máli Jónmundar Guðmarsson, þáverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, að flokkurinn hefði þegar endurgreitt um 18 milljónir króna. Samkvæmt því stóðu þá 38 milljónir króna eftir árið 2013.
Sjálfstæðisflokkurinn ákvað einn flokka að endurgreiða háa styrki sem hann fékk fyrir hrun. Samfylkingin fékk einnig styrki upp á rúmar 36 milljónir króna árið 2006 frá Kaupþingi, FL Group, Glitni, Landsbanka Íslands og Baugi. Flokkurinn sagðist hins vegar ekki ætla að greiða styrkina til baka líkt og Sjálfstæðisflokkurinn ákvað að gera.