Flugstjórinn í flugvél Germanwings sem aðstoðarflugmaðurinn Andreas Lubitz flaug að öllum líkindum vísvitandi inn í frönsku alpanna, á meðan flugstjórinn brá sér frá úr flugstjórnarklefanum, grátbað Lubitz um að opna hurðina, á sama tíma og hann reyndi með öllum ráðum að brjóta hana niður, síðast með exi. „Í guðanna bænum, opnaðu hurðina!“ sagði hann, í örvæntingu. Þetta kemur fram í þýska blaðinu Bild í dag, en rannsókn á upplýsingum sem flugritar vélarinnar geymdu benda eindregið til þess Lubitz hafi stýrt vélinni inn í fjallgarðinn, með þeim afleiðingum að allir um borð, 150 manns, létu lífið.
Fram hefur komið að Lubitz glímdi við geðveiki og hélt veikindum sínum leyndum fyrir forsvarsmönnum Germanwings. Kærasta hans fyrrverandi, sagði í viðtal við Bild í gær, undir nafnleynd, að hegðun Lubitz hefði verið undarleg og hann hefði verið uppstökkur. Átt það til að vakna öskrandi um nætur, og einnig læst sig inn á klósetti ef hann hefði verið ósáttur við eitthvað.
Við leit heima hjá Lubitz í vikunni fundust meðal annars geðlyf, sem þykir renna stoðum undir það, að hann hafi verið illa haldinn af þunglyndi og geðveiki, án þess að nokkur hafi vitað af því.
Lufthansa, móðurfélag, Germanwings, hefur þegar tilkynnt um að það muni greiða 50 þúsund evrur, jafnvirði um 7,5 milljóna króna, til aðstandenda hvers farþega í fluginu.