Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, mælti fyrir því á landsfundi flokksins í dag að fimm prósentum af hlutafé í Íslandsbanka yrði deilt meðal landsmanna. Þannig fengju tæplega 330 þúsund landsmenn hlutabréf í bankanum. Sé mið tekið af eigið fé bankans, sem er um 187 milljarðar króna, þá nemur verðmæti fimm prósent hlutar um 9,3 milljörðum króna. Verðmæti hvers hlutar nemur því ríflega 28 þúsund krónum.
„Ég er að tala um það að ríkið einfaldlega taki tiltekinn hlut, fimm prósent, og einfaldlega afhendi hann landsmönnum,“ sagði Bjarni í ræðu sinni.
Bjarni fjallaði um fyrirhugaða sölu á hlutafé í Landsbankanum og um einkavæðingu Íslandsbanka í sinni. Nú er unnið að sölu um 30 prósenta hlutar ríkisins í Landsbankanum en Bjarni stefnir á að bankinn fari á markað, og kemur fram í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár, að ríkið reikni með að fá um 71 milljarð fyrir hlutinn.
Bjarni sagði bankarekstur ekki vera áhættulausan, og að það ætti einnig við um samfélagsbanka, en umræða um slíka tegund banka hefur verið töluvert mikil að undanförnu, meðal annars innan Framsóknarflokksins.Hann sagðist leggja áherslu á gagnsæi þegar kæmi að sölu á eignarhlutum í bönkunum. Þá sagðist hann vilja að eignaraðildin yrði dreifð, vandað yrði til verka.
Íslenska ríkið á í dag 98 prósent eignarhlut í Landsbankanum, en eigið fé hans nemur um 250 milljörðum króna.