"Áhrifaríkar fréttamyndir vekja sterk viðbrögð hjá okkur en við megum ekki gleyma þeim sem ekki sjást á myndunum. Viðbrögð okkar geta aldrei miðað að því að uppfylla mögulega þörf okkar sjálfra fyrir að sjá árangurinn af starfinu eða hljóta þakkir fyrir. Við verðum fyrst og fremst að velta því fyrir okkur hvernig við getum bjargað flestum mannslífum til skemmri og lengri tíma," segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í viðtali við Morgunblaðið þar sem hann ræðir aðgerðir stjórnvalda í flóttamannamálum.
Hann segir vandann sem nú sé upp vegna flóttamannastraumsins frá Sýrlandi og nærliggjandi svæðum sé miklu stærra mál en svo að hægt sé að horfa á það fyrst og síðast út frá því hve margir flóttamenn munu koma til Íslands. Forsætisráðherrann leggur áherslu á að í flóttamannamálinu verði vandað til verka og ekki hrapað að niðurstöðum sem svo standast ekki.
Hann segir það aldrei hafa verið fast í hendi að Íslendingar myndu einungis taka á móti 50 flóttamönnum. Á fundi fulltrúa Evrópuþjóða þar sem þessi mál voru í deiglunni hafi verið nefnt að af 40.000 flóttamönnum færu 9.000 til Frakklands og 12.000 til Þýskalands. Miðað við það hefðu Íslendingar verið að taka á móti hlutfallslega flestum. Það sé því alrangt að Íslendingar hafi boðist til að taka við óeðlilega fáum miðað við aðra.
Sigmundur Davíð bendir á að Sýrlendingar séu um 20 milljónir samtals, eða svipað margir og allir Norðurlandabúar. Síðustu misserin hafi um tólf milljón manna yfirgefið heimili sín í Sýrlandi. Um tvö prósent þess hóps hafi haldið til Evrópu en 98 prósent sé enn í heimalandinu og nágrannalöndum þess. Sá hópur búi við hrikalegar aðstæður. "Það má ekki gleyma þessum 98 prósent þó við sjáum ekki myndir af þjáningum þeirra."
Sigmundur Davíð segir þar að það væri varhugavert ef Evrópa sendi þau skilaboð að til að fá aðstoð þurfi flóttamenn að leita ásjár glæpahópa og leggja sig í lífshættu við að reyna að sigla til Evrópu eða komast eftir öðrum hættulegum leiðum. Geri menn það geti þeir átt von um aðstoð en ella búi menn við hörmulegar aðstæður og svelti jafnvel í flóttamannabúðum.
Annar hver Framsóknarmaður vill taka við færri en 50
Í könnun sem MMR gerði um vilja Íslendinga til að taka á móti flóttafólki frá Sýrlandi, og birti í gær, kom fram að stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar eru miklu líklegri til að vera fylgjandi miklum takmörkunum á mótttöku flóttamanna en þeir sem styðja hana ekki. Þannig segjast 42 prósent stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar vilja annað hvort enga (15 prósent) eða færri en 50 flóttamenn (27 prósent) hingað til lands. Einungis tíu prósent þeirra vilja taka á móti fleiri en eitt þúsund flóttamönnum á meðan að 28 prósent þeirra sem styðja ekki ríkisstjórnina vilja það. Af þeim hópi vilja raunar 21 prósent taka á móti fleirum en 2000.
Stuðningsmenn Framsóknarflokksins, flokks Sigmundar Davíðs, eru langneikvæðastir í garð mótttöku flóttamanna. Alls vilja 18 prósent þeirra ekki taka við neinum, 27 prósent þeirra vilja ekki taka við fleiri en 50 og 14 prósent þeirra vilja ekki taka við fleiri en 150. Því vilja tveir af hverjum þremur stuðningsmönnum Framsóknarflokksins ekki taka við fleiri en 150 flóttamönnum frá Sýrlandi og annar hver Framsóknarmaður vill taka við í mesta lagi 50.