Tekjur Tempo, dótturfélags Nýherja, jukust um 57 prósent á fyrsta ársfjórðungi þessa árs miðað við árið í fyrra og námu 2,2 milljónum Bandaríkjadala eða sem nemur um 300 milljónum króna. Vöxtur Tempo hefur verið ævintýri líkastur frá því starfsmenn TM Software komu starfseminni á fót með vöruþróun og forritunarvinnu innanhúss. Þessar tekjur kom til vegna sölu á Tempo Timesheets og Tempo Planner viðbótunum fyrir JIRA og jókst sala á Tempo Planner um meira en 200 prósent samanborið við síðasta ár, að því er segir í afkomutilkynningu frá Tempo.
Ágúst Einarsson, framkvæmdastjóri Tempo, segir vöxtinn ánægjulegan. „Markmið okkar er að auðvelda fyrirtækjum að skapa, bæta og afkasta vinnu innan settra tímamarka og kostnaðaráætlana. Með Tempo vörunum gerum við viðskiptavinum okkar kleift að ná markmiðum sínum,“ segir Ágúst. „Við erum afskaplega stolt af því að geta sagt að í hverjum mánuði velja rúmlega 150 nýjir viðskiptavinir Tempo lausnirnar til að hámarka arðsemi og auka skilvirkni innan fyrirtækja sinna.“
Tempo vörumerkið er þekkt sem leiðandi og brautryðjandi fyrirtæki í hugbúnaðargerð á sviði verkefna og eignasafnsstjórnunarlausna (PPM) fyrir JIRA kerfið hjá Atlassian. Viðskiptavinir eru nú orðnir fleiri en sex þúsund og bættust nokkur þekkt fyrirtæki í hóp viðskiptavina í byrjun ársins, meðal annars HBO, Netflix og EA Sports.
Viðskiptavinirnir eru í meira en 100 löndum. Þetta eru meðal annars stórfyrirtæki á borð við Disney, eBay, Amazon, AT&T, Oracle, BMW, Dell og Pfizer.
Hér meðfylgjandi má sjá myndskeið af því þegar Kjarninn heimsótti Tempo og tók Ágúst Einarsson tali. Fyrirtækið var þá styttra komið í uppbyggingu en vaxtamöguleikarnir voru fyrir hendi, og sagði Ágúst mikla möguleika vera til staðar fyrir vörur fyrirtækisins.
https://vimeo.com/93353851