Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar og þingmaður Framsóknaflokksins, og Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður nefndarinnar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telja að stjórnendur Ríkisútvarpsins (RÚV) hafi vísvitandi blekkt fjárveitingarvaldið með því að gefa þeim rangar upplýsingar um stöðu stofnunarinnar. Tímabundin fjárheimild að upphæð 182 milljónum króna hafi verið lögð til RÚV en hún hafi verið háð þeim skilyrðum að á vegnum stjórnar félagsins myndi fara fram endurskipulagning og að hún myndi gera áætlun um sjálfbæran rekstur. Þær áætlanir áttu að liggja fyrir í lok mars. Vigdís og Guðlaugur Þór telja að þessum skilyrðum hafi alls ekki verið framfylgt. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu. Þar segir Vigdís að þeir „sem fara með málefni RÚV verða að svar því hver axli þá ábyrgð“. Hún telur að Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra verði að svara því hvernig það sé gert. „Ég lít þetta mjög alvarlegum augum að rangar upplýsingar séu lagðar fyrir nefnd sem hefur eftirlit með fjárreiðum ríkisins“.
Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri hafnar því að forsvarsmenn RÚV hafi blekkt fjárlaganefnd. Í vinnu sem farið hefði fram með aðilum frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti hafi komið fram að skilyrðum fjárlaganefndar hefði verið náð.
Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Illugi vill að útvarpsgjaldið verði ekki lækkað
Í skýrslu nefndar sem Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra skipaði 7. maí síðastliðinn til að greina þróun á starfsemi RÚV ohf. frá stofnun, þann 1. apríl 2007, og kom út í gær var rekstur fyrirtækisins harðlega gagnrýndur. Þar sagði meðal annars að rekstur RÚV hafi verið sjálfbær frá því að fyrirtækið var gert að opinberu hlutafélagi árið 2007. Alls nemur tap umfram hagnað 813 milljónum króna á því tímabili, og er þar gert ráð fyrir þeim tekjum sem RÚV hefur af útvarpsgjaldi sem landsmönnum er skylt að greiða. Samt sem áður gera áætlanir RÚV, sem fyrirtækið vinnur eftir, ráð fyrir því að það fái hærra útvarpsgjald en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi ársins, að 3,2 milljarða króna lán vegna lífeyrisskuldbindinga hverfi úr efnahag RÚV og að sala á byggingarétti á lóð fyrirtækisins gangi eftir. Gangi allar þessar forsendur ekki eftir er rekstur RÚV eins og fyrirtækið er rekið í dag ósjálfbær.
Útvarpsgjaldið sem rennur að mestu til RÚV var lækkað um síðustu áramót, úr 19.400 krónum í 17.800 krónum. Um næstu áramót á að lækka það aftur í 16.400 krónur. Í Fréttablaðinu í dag er haft eftir Illuga að hann ætli að leggja það til að útvarpsgjaldið muni ekki lækka um komandi áramót. Engin ákvörðun hefur hins vegar verið tekin um hvort ríkið yfirtaki lífeyrisskuldbindingarnar sem fylgdu RÚV þegar fyrirtækið var gert að opinberu hlutafélagi.