Það dugði ekki að líma Lacoste plast-der á höfuð Bjarna Benediktssonar og senda í golfferð til Flórída yfir páskana til að leysa yfirstandandi kjaradeilur líkt og heppnaðist svo vel í læknadeilunni um áramótin - líklega vegna þess að Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, var á sama tíma að drekka kokteila úr strandfötu og finna sjálfan sig með hinum hampmussuklæddu júróhippunum í Myanmar.
Þvert á móti kom fjármálaráðherra heim jafn sólarþrútinn og Ingvi Hrafn eftir veturdvöl á Key Largo; tilbúinn að láta allar kröfur launafólks falla á sín daufu, flagnandi eyru á þeim forsendum að læknasamningurinn - sem hann skrifaði undir með eigin tárum - hafi alls ekki verið fordæmisgefandi.
Það gleymdist líklega að huga að því að án geislafræðinga, náttúrufræðinga, lífeindafræðinga og ljósmæðra geta læknar ekki gert margt annað en að skrifa út pensilín fyrir fólk og kvíðastillandi fyrir hvern annan. Sú aðgerð sem snerti hjartastrengi þjóðarinnar líklega mest er þó verkfall starfsmanna sýslumanns - en það lítur nú út fyrir að sjálf evróvisjónkeppnin sé í uppnámi sökum fjarveru eftirlitsaðila frá embættinu - sem mun væntanlega steypa samfélaginu í endanlegt siðrof. Allavegana er Sigmar Vilhjálmsson líklegur til að setja á sig hestagrímu og kveikja í nokkrum bílum. Einnig fellur árlegt happdrætti KR niður.
Á sama tíma og ljósin slökkna á flestum skrifstofum aðildarfólks BHM þá er staðan talsvert betri í einkageiranum. HB Grandi, sem jók hagnað sinn um 133% á síðasta ári upp í 5,5 milljarða, fagnaði með því að stjórnin kaus sjálfa sig áfram til setu, ákvað að hækka eigin laun um 33,3% og greiða út 2.7 milljarða í arð. Jóakim Aðalönd sjálfur, Kristján Loftsson, vill ekki meina að það sé merki um taktleysi að húða lókinn á sjálfum sér með 24 karata gulli á sama tíma og ekki sé hægt að hækka laun fiskaverkafólks umfram 3,5% - enda hefur gamli skutullinn áratuga reynslu af því að verja fullkomlega óverjandi og fráleita málstaði og selja þá til Japan.
Jóakim Aðalönd sjálfur, Kristján Loftsson, vill ekki meina að það sé merki um taktleysi að húða lókinn á sjálfum sér með 24 karata gulli á sama tíma og ekki sé hægt að hækka laun fiskaverkafólks umfram 3,5% - enda hefur gamli skutullinn áratuga reynslu af því að verja fullkomlega óverjandi og fráleita málstaði og selja þá til Japan.
Það er erfið samræða sem ríkisstjórn þarf að eiga við eigin þjóð þegar hún segir henni að það sé enginn möguleiki á því að lágmarkslaun verði 300.000 krónur jafnvel þótt hægt hafi verið að töfra fram 80 milljarða í aðgerð sem fæstir græddu á nema nokkrir gamlir milljónamæringar og Árni Sigfússon, sem tókst að breyta sér í enn sjoppulegri útgáfu af Finni Ingólfssyni þegar hann stakk tæpum 6 milljónum í vasann fyrir að vera í atvinnubótavinnu við að þvinga landsmenn í viðskipti við einkafyrirtækið Auðkenni sem þakkaði fyrir sig með því að tilkynna að það ætli að byrja að rukka fyrir þessa nauðungaþjónustu sína sem enginn bað um.
Á meðan heldur forsætisráðherra áfram að þróast út í Peter Sellers-leikna grínútgáfu af vænissjúkum einræðisherra sem svarar hvorki fjölmiðlum né þingmönnum og fæst raunar varla til að fara úr húsi nema til að blessa hokkíleiki, halda ræðu við eigið Norður-Kóreska endurkjör eða mæta í eigið fertugsafmæli - sem virtist reyndar vera gott partí, en þar voru samankomnir helstu framsóknarmenn Íslands: Jón Bjarnason, Davíð Oddsson og Ásgeir Kolbeins. Til að verja þessar þjóðargersemar fyrir ósýnilegum flugumönnum þurfti ekkert minna en hóp óeinkennisklæddra sérsveitarmanna - þótt líklega hefði nægt að ræsa út jakkafataklædda júdóþingvörðinn sem spúlaði vatni á og snéri niður mótmælendur fyrir það eitt að kríta á gangstétt eins og hann væri heimsins verst innrætti skólaliðinn.
Á meðan heldur forsætisráðherra áfram að þróast út í Peter Sellers-leikna grínútgáfu af vænissjúkum einræðisherra sem svarar hvorki fjölmiðlum né þingmönnum og fæst raunar varla til að fara úr húsi nema til að blessa hokkíleiki
Oftar og oftar verður mér hugsað til andartaksins þegar ég sat inni í gufubaði líkamsræktarstöðvar og inn kemur kviknakinn, holdugur maður á miðjum aldri og sest beint andspænis mér. Áður en ég veit af er hann byrjaður að makindalega raka á sér punginn líkt og ég væri ekki til; síendurteknar hægar strokur eins og hann væri að greiða hárið á barbídúkku. Hann veit að ég er þarna. Hann veit að þetta er líklega eitthvað sem er mér ekki þóknanlegt. Honum er bara alveg sama.
Það verða alltaf menn á miðjum aldri þarna úti sem munu raka sinn metófóríska pung. Það er samt bara ákveðið lengi sem fólk þolir að hafa þessar hreðjar hangandi framan í sér eins og tvær rauðar sólir af yfirlæti og hroka áður en það fær nóg og sparkar í þær.