Undanfarið hefur verið talsverð almenn umræða um þróun fjölmiðlunar, hvert stefnir og einkum og sér í lagi hvernig „hefðbundnir“ fjölmiðlar munu lifa af tæknibreytingar. Þetta hefur verið býsna áberandi í tengslum við hina svokölluðu „Eyþórsskýrslu“ um RÚV („Skýrsla nefndar um starfsemi og rekstur RÚV frá 2007“, birt 29. október), en þar er að finna talsvert magn af upplýsingum, sem síðan eru notaðar til að draga margvíslegar ályktanir af.
Hér að neðan leitast ég við að skoða nánar tvö atriði sem koma fram í skýrslunni. Hið fyrra snýr að almennri þróun ljósvakamiðla í Evrópu og hið seinna er staða RÚV í alþjóðlegum/evrópskum samanburði.
Byrjum fyrst á nokkrum staðreyndum:
- Samanlagður tími sem Evrópubúar nota í fjölmiðla eykst ár frá ári
- Aukning í internetnotkun hefur lítil áhrif á vinsældir útvarps og sjónvarps
- Áhorf er meginstefið, fremur en hlustun eða lestur
- Meðaltími sem Evrópubúar nota í „áhorf“ er býsna stöðugur
- Hefðbundið sjónvarpsáhorf er yfirgnæfandi hluti áhorfs
- Efni sérsniðið fyrir internetdreifingu er einungis um 10% af heildaráhorfi
- Enn er yfirgnæfandi áhorf á sjónvarpstæki (samanborið við farsíma, tölvur, fartölvur o.s.frv)
- Annar hver Evrópubúi hlustar reglulega á útvarp
Skoðum þetta aðeins nánar. Internetið hefur hreinlega orðið viðbót við útvarp og sjónvarp, en alls ekki komið í staðinn. Í raun er internetið smátt og smátt að verða ein af mikilvægustu dreifileiðum ljósvakamiðlanna, einkum útvarps. Sá tími sem fólk almennt notar til þess að vafra á netinu er einungis helmingur þess tíma sem (línuleg, e. linear) útvarps- og sjónvarpsnotkun framkallar.
Hitt er síðan annað mál því er spáð að netnotkun muni aukast um 20% á árunum 2014 til 2017 á meðan lestur dagblaða og tímarita minnkar um 7%. Á sama tíma er gert ráð fyrir að hefðbundin útvarps- og sjónvarpsnotkun dragist einungis saman um 2%. Í skýrslunni er þetta fullyrt (bls 6) og vel í lagt: „Miklar breytingar eru í neytendahegðun, sem koma fram í miklum samdrætti á hefðbundna sjónvarpsdagskrá, einkum hjá ungu fólki. Mikilvægt er að skoða þjónustuhlutverk RÚV í ljósi þessarar þróunar“.
Hvað sjónvarp varðar sérstaklega horfðu Evrópubúar að meðaltali 3,57 klst á sjónvarp, sem er aukning um 20 mínútur frá árinu 2008. Þessi staðreynd er ansi sláandi, og fór til að mynda algjörlega framhjá höfundum Eyþórsskýrslunnar, þar sem hefðbundin línuleg dagskrá er töluð niður. Reyndar er áhorf á hefðbundið sjónvarp víða á hægu undanhaldi, en notkun „sarpa“ eykst og bætir víða upp tapið. Í sumum löndum eykst hins vegar sjónvarpsáhorf talsvert.
Því er líka oft slegið fram að enginn undir 30 ára horfi lengur á hefðbundna, línulega sjónvarpsdagskrá. Þessi fullyrðing er einfaldlega röng. Tökum dæmi frá Finnlandi þar sem 90% af áhorfi allra yfir 9 ára og 78% 9-44 ára er á hefðbundna sjónvarpsdagkrá. Í Bretlandi er meira en helmingur heildaráhorfs unglinga 12-15 ára og 16 til 24 ungmenna ára á línulega dagskrá sjónvarps. En vissulega er hreyfingin í átt að (yngra) fólk almennt velji í æ ríkari mæli á hvað það horfir og hvenær, um það er ekki deilt. Spurningin er hins vegar sú hvernig þróunin verður, einkum þegar unga kynslóðin með allt annað viðhorf til áhorfs, er orðin settleg og með eigin fjölskyldu og því lífsmynstri/áhorfi sem slíku fylgir.
Í Bretlandi er 69% af heildaráhorfstíma fólks eldra en 16 ára á línulega (beina) dagskrá og samanlagt er sjónvarp með 85% alls áhorfs. Hér fer ekkert á milli mála.
En eru önnur tæki og tól til áhorfs að ryðja sjónvarpi burt, fartölvur, borðtölvur, spjaldtölvur og farsímar? Ekki alla vega í bráð, eru í raun bara viðbót og talsvert mikið notuð til að horfa á línulega sjónvarpsdagskrá.
Hvað með efnisveitur eins og Netflix, sem eru nánast að gera útaf við sérstakar kvikmyndarásir og breyta fjölmiðlalandslaginu hratt? En staðreyndin er sú að áskrifendur Netflix eru að jafnaði að horfa minna en eina kls á dag á efni fengið þaðan, á meðan fólk almennt í Evrópu horfir að jafnaði næstum 4 klst á línulega sjónvarpsdagskrá.
Annar samanburður: YouTube notandi horfir að jafnaði í 12 mínútur á dag. Ef við þrengjum samanburðinn, tökum annan vinkil og horfum á eina rás, t.d. BBC1 þá er hver notandi þar að horfa að meðaltali í 48 mínútur á dag, NRK1 í Noregi í 47 mínútur. Hvað með Gangham Style myndbandið, sem var horft á 2.2 þúsund milljón sinnum, vinsælasta myndband sögunnar? Er eitthvað sem stenst samanburð við 159 milljónir klukkutíma í heildaráhorf?
Berum þessa tölu saman við eina vinsælustu þáttaröðina í Bretlandi, Strictly Come Dancing á BBC 1. Á síðustu seríuna, haustið 2014, var samanlagt, uppsafnað, áhorf 321 milljón klukkustundir eða tvöfalt meira en á hið fræga suður-kóreska video. Áhrifamátturinn er síðan margfaldur á miðað við aðra dagskrá eða miðlun. Það væri freistandi að taka dæmi frá mínum vinnustað, Eurovision, og nota söngvakeppnina í samanburði, en það læt ég bíða betri tíma. Sem og hlutverk beinna íþróttaútsendinga.
Hér má sjá % hlutfall þeirra Evrópubúa sem horfa einhvern tímann á sjónvarp eða hlusta á útvarp í viku hverri:
Hjá yngra fólki var þessi tala 76% 2014 og hefur lækkað úr 81% 2009. Sama tilhneigingin og áður, en þróunin hefur verið fremur hæg. Þessar tölur eru nánast þær sömu fyrir Ísland.
Þetta segir okkur ekki annað en að staða línulegar, hefðbundinnar, sjónvarpsdagskrár er enn ákaflega sterk og breytist ekki hratt, en vissulega er þróunin í þá átt að fólk vill í æ ríkari mæli stýra eigin áhorfi.
Eyþórsskýrslan dregur upp nokkuð aðra mynd, bls 24: „Tæknin hefur mikil áhrif á áhrif og hlustun um allan heim, einkum hjá yngri hópum“ og talað um að tilvistargrunnur fjölmiðla breytist hratt með auknu framboði og aðgengi efnisveitna.
Útvarp, er það ekki úrelt og að hverfa? 2009 var meðaltals-hlustun einstaklings í Evrópu 2,50 klst. Í dag er hún 2,42 klst. Svarið er því einfalt: Nei. Hitt er síðan annað mál að hlustun hefur mikið til færst frá hefðbundnum dreifileiðum og yfir á netið. Um helmingur Svía, Spánverja, Hollendinga og Íra sem nota netið hlusta þar á útvarp. Tökum annað dæmi, frá Spáni. Internetnotkun þar þrefaldaðist á síðustu 15 árum, skiljanlega, en heildarhlustun á útvarp per dag stóð í stað á sama tíma, var og er um 1,50 klst. Til samanburðar er netnotkun Spánverja að meðaltali 1,4 klst per dag.
Samkvæmt gögnum sem ég hef komist yfir eru Íslendingar sú þjóð í Evrópu sem skemmst horfir á sjónvarp á dag, 1,57 klst. Hinar Norðurlandaþjóðirnar, Danir (2,53), Norðmenn (2,43), Svíar (2,33) og Finnar (2,56) eru nálægt, en á hinum endanum eru þjóðir Suður- og Austur-Evrópu, t.d. Tyrkir (4,07), Portúgalir (4,56), Rúmenar (5,42) og Serbar (5,04). Hér erum við Íslendingar í góðum hópi þjóða sem við viljum líkja okkur við hvað varðar lífsmynstur og innri samfélagsgerð.
En eitt eiga flestar þjóðir Evrópu sameiginlegt hvað þetta varðar, þ.e. að yngra fólk horfir sífellt minna á hefðbundið sjónvarp. Þetta kallar á ýmis viðbrögð, t.d. að hefðbundnar sjónvarpsstöðvar laga sig að þessu nýja umhverfi. Fáum dettur hins vegar í hug að þessi frábæra og eðlilega (tækni-) þróun breyti sjálfum tilvistargrunni fjölmiðla í almannaeigu. Þeir þurfa hins vegar klárlega að aðlagast og mér sýnist ekki betur en að RÚV gangi býsna vel hvað það verkefni varðar. Um það fjallar seinni grein mín.
Helstu heimildir: Gagnabanki EBU, Ofcom UK, Zenith Op, Eurodata TV Worldwide.
Ingólfur Hannesson starfar sem framkvæmdastjóri íþróttasviðs EBU, Evrópusambands útvarps- og sjónvarpsstöðva, oft kennt við Eurovision. Önnur grein hans um stöðu RÚV mun birtast í Kjarnanum á næstu dögum.