Í fyrri grein minni um þróun fjölmiðlanotkunar, einkum sjónvarps, var fjallað um nokkrar staðreyndir varðandi Evrópu og þær þjóðir sem við Íslendingar berum okkur einkum saman við. Þar kom fram að línuleg dagskrá er ennþá allsráðandi varðandi áhorf og ekki líklegt að sú mynd breytist snarlega á næstu árum. Hins vegar horfir yngra fólk minna á hefðbundið sjónvarp og sú staðreynd kemur til með að breyta þessu landslagi.
Hér á eftir verður litið á sjónvarp og útvarp í almannaeigu/ríkismiðla (e. Public Service Media, PSM) og einkum RÚV og hvernig okkar almannaútvarp, -sjónvarp stendur sig í samanburði við þær þjóðir sem við eigum einna helst samleið með. Niðurstaðan er í stuttu máli: RÚV stendur sig afburðavel.
Byrjum á markaðshlutdeild PSM í Evrópu:
Hér lendir RÚV ekki einungis í efsta hópnum, RÚV trónir hreinlega á toppnum í Evrópu með 58,5% markaðshlutdeild, ARD/ZDF í Þýskalandi eru næstar með 45,8%, BBC með 43,9% og NRK í Noregi með 37,6%.
Þetta er einstakt, markast vissulega af fákeppninni á Íslandi, litlu úrvali á sjónvarpsmarkaðnum og ekki síst af frammistöðu RÚV um langa hríð þrátt fyrir nánast stöðugan niðurskurð og erfiða rekstrarstöðu.
Og til að kóróna þetta er RÚV Sjónvarp líka á toppnum í Evrópu hvað varðar ungt fólk á aldrinum 15-24 ára með 47,7% hlutdeild. Þar eru einungis sjö PSM stöðvar í Evrópu með yfir 21% hlutdeild.
Hvað varðar stöðu PSM almennt í Evrópu má geta þess að slíkar almenningsstöðvar eru í efsta sæti í 18 löndum (RÚV þeirra á meðal), númer 2 í 11 löndum. Þær stöðvar eiga lítinn grundvöll, hafa lítinn stuðning yfirvalda, eru í fjársvelti og liggja aftarlega í samkeppni má finna í löndum i austurhluta álfunnar, t.d. Úkraínu, Rúmeníu, Azerbaijan, Georgíu, og Makedóníu svo að fáein dæmi séu tekin. Ég hygg að þetta séu ekki lönd sem við Íslendingar viljum mikið bera okkur mikið saman við.
Hvað útvarp varðar sérstaklega er RÚV, Rás 1 og Rás 2, í miðjum hópi í samanburði við önnur Evrópulönd. Þar hafa systurstöðvar í löndum eins og Austurríki, Svíþjóð, Danmörku, Noregi og Sviss ógnarsterka stöðu á útvarpsmarkaði með frábæra þjónustu, einkum við hinar dreifðu byggðir þessara landa.
Ef litið er á hvernig efni er boðið uppá er RÚV með lágt hlutfall af eigin efni íslensku og hátt af amerísku, í samanburði við aðrar PSM. Hér er greinilega verk að vinna, en sökum smæðar og fjárhags er talsvert erfitt að sjá þetta breytast mikið. Hins vegar er RÚV með eitt hæsta hlutfallið af eigin (íslensku) efni sem keypt er af aðilum utanhúss. Þetta má túlka á ýmsa vegu, en sú spurning vaknar hvort að aukning íslensks efnis geti ekki einnig komið frá framleiðslu innanhúss. Þetta verður vafalítið í brennidepli þegar RÚV og menntamálaráðuneytið ganga frá nýjum þjónustusamningi.
Fjármál og fjármögnun RÚV hafa verið í sviðsljósinu undanfarið. Þar er athyglisvert að nánast öll ríki Vestur-Evrópu velja að hafa áskrift sem meginfjáröflun (mismunandi innheimtuaðferðir), einungis 4-5 undantekningar frá þeirri reglu þar sem viðkomandi PSM eru á fjárlögum. Slíkt fyrirkomulag er eins og myllusteinn um höfuð þessara stöðva, sem eru í sama basli við að réttlæta tilveru sína og hlutverk í lýðræðisríki á sama tíma og þær eru algjörlega undir hælnum viðkomandi ríkisvaldi. Slíkt er hreinlega ógnun við sjálfstæði stöðvanna og hlutverk þeirra í lýðræðislegri umræðu og upplýsingamiðlun.
Það er oft minnst á að auglýsingar eigi ekki heima í miðlum í almannaeigu (varpað fram sem álitamáli í Eyþórsskýrslunni, bls 7), en 36 Evrópuþjóðir hafa komist að þeirri niðurstöðu að blönduð fjármögnun sé besta leiðin (með auglýsingum og/eða kostun). Hjá einungis 7 þjóðum eru engar auglýsingar/kostun í PSM miðlum. Hlutfall auglýsingatekna er hátt hjá RÚV i þessum samanburði, um 1/3 tekna og einungis tvær þjóðir fyrir ofan Ísland á þeim lista, Malta og Pólland. Ekki er óalgengt að þetta hlutfall sé um og yfir 20%, t.d. í Belgíu, Austurríki, Írlandi og Ítalíu.
Eitt þeirra atriða sem ýttu nýlega af stað umræðum á Íslandi varðandi fjármögnun RÚV er samanburður á greiðslu hvers Íslendings til reksturs RÚV eða tekjur ríkisfjölmiðla á íbúa (bls 10-11). Sú mynd sem dregin er upp í Eyþórsskýrslunni upp passar illa við þær upplýsingar sem mér eru aðgengilegar (fá stöðvunum sjálfum og óháðum aðilum). Samkvæmt tölum frá 2013 er framlag hvers Íslendings 5,10 Evrur (€) til reksturs RÚV. Til samanburðar er þessi tala 10,35 í Sviss, 6,95 í Finnlandi, 7,41 í Danmörku, 3,84 í Belgíu, 3,77 á Irlandi, 4,03 í Frakklandi o.s.frv.
Ef fjármögnun PSM er hins vegar skoðuð (2013) sem hlutfall af þjóðarframleiðslu (e. GDP) verður myndin nokkuð áhugaverð og mun skýrari. Þar er meðaltalið í Evrópu 0.19%. Ísland (RÚV) er þar í 9. sæti með 0,30% á eftir þjóðum eins og Bretlandi, Króatíu, Þýskalandi og Austurríki, en á undan t.d. öðrum Norðurlöndum. Þær þjóðir sem eru með lægsta hlutfallið eru t.d. Rúmenia, Spánn, Úkraína, Armenía, Albanía og Litháen, þ.e.a.s. þær þjóðir sem minnstu eyða í PSM sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. Ályktun Eyþórsskýrslunnar af þeim gögnum sem sett eru fram er sú að „heildartekjur á íbúa (séu) hærri hjá RÚV en í flestum öðrum samanburðarlöndum“. Þessi fullyrðing stenst tæplega skoðun.
Ályktunin hér er sú að við erum að fjármagna RÚV á svipuðu róli og aðrar vestrænar Evrópuþjóðir gera við sínar almannastöðvar. Í raun þarf að taka tillit til þess að það er hlutfallslega mun dýrara að reka lítið PSM en stórt. Frammistaða RÚV virðist hins vegar til mikillar fyrirmyndar, fjármunum vel varið og afraksturinn að Ísland, með sitt litla RÚV, er í sannkölluðum toppklassa, spilar í úrvalsdeild eins og við segjum í sportinu.
Hitt er síðan annað mál hvaða hlutverki slíkar stöðvar í almannaeigu gegna í lýðræðisþjóðfélagi og mikilvægi þeirra í lýðræðisumræðu, upplýsingamiðlun, skemmtun og almennri þjóðfélagsþróun. Það er efni í aðra grein.
Ingólfur Hannesson starfar sem framkvæmdastjóri íþróttasviðs EBU, Evrópusambands útvarps- og sjónvarpsstöðva, oft kennt við Eurovision.
Helstu heimildir: Gagnabanki EBU, Ofcom UK, Zenith Op, Eurodata TV Worldwide.