Á viðburðaríku ári sem er að líða í borgarmálum finnst mér heimsviðburðir hafa markað varanlegustu og merkilegustu sporin. Fyrir utan hefðbundin verkefni eins og snjómokstur, rekstur skóla, baráttu við að láta enda ná saman fjárhagslega, aðstoða þá sem á þurfa að halda osfv. er mér efst í huga nýliðin loftslagsráðstefna í París og sá tímamótasamningur sem þar var samþykktur. Aðgerðir í loftslagsmálum eru langmikilvægasta viðfangsefni samtímans og til dæmis er sá flóttamannavandi sem heimsbyggðin glímir við í dag einungis örlítið brot hjá því sem myndi verða ef hlýnun jarðar héldi áfram á þeirri braut sem hún hefur verið. Fólksflutningar tilkomnir af neyð myndu verða slíkir að ómögulegt er að sjá fyrir afleiðingarnar.
Undanfarin ár hefur mikið verk verið unnið í Reykjavík til að bæta aðstæður fyrir fleiri ferðamáta en einkabílinn. Heilmikið hefur verið framkvæmt í þá veru, en það sem skiptir lang mestu máli er hugarfarsbreyting íbúa. Almennt viðhorf hefur tekið nokkrum stakkaskiptum á undanförnum misserum. Það er sem betur fer svo að mikill meirihluti borgarfulltrúa skilur þörfina fyrir breytingar og gengur þar í takt við þorra almennings. Þó eimir aðeins eftir af öflum sem berja höfðinu við stein, telja að þétting byggðar sé byggð á misskilningi, rétt sé að brjóta nýtt land og leiðin að bættum samgöngum sé að byggja fleiri mislæg gatnamót. Þessum röddum til varnar verður þó að taka fram að allar breytingar geta vaxið fólki í augum, eins og dæmin í sögunni sýna. Það er aldrei of oft minnt á það að hópur karla barðist hatramlega gegn ritsímanum fyrir ríflega 100 árum, nokkuð sem flestum finnst ansi hjákátlegt í dag.
Kostir þess að greiða leið þeirra sem vilja ferðast með öðrum hætti en á einkabíl eru gríðarlegir, bæði fyrir þá sjálfa og ekki síður þá sem telja sig háða einkabílnum. Ávinningurinn er umhverfislegur, lýðheilsulegur og fjárhagslegur. Allir græða, bæði á daginn og á kvöldin.
Borgir leiða breytingar
Á loftslagsráðstefnunni í París kom það bersýnilega í ljós að borgir og sveitarfélög eru komin mun lengra í baráttunni gegn loftslagsbreytingum en þjóðríki. Vandinn sem loftslagsbreytingarnar valda eru orðnar mjög áþreifanlegar í borgum, mengun eykst, jarðvegur er takmarkaður eða hefur súrnað og getur ekki tekið við regnvatni. Árstíðir raskast, það rignir meira, snjóar meira, er heitara, er kaldara. Allt er ýktara. Vatn er víða af skornum skammti og lífsgæði borgaranna hafa rýrnað. Þetta kallar á aðgerðir strax og þarna eru borgirnar og sveitarfélög komin á fullt skrið að snúa af þeirri braut sem mörkuð hefur verið undanfarna áratugi. Í stað þess að þenja borgirnar út og brjóta sífellt nýtt land er stefnan að þétta innávið, bæta almenningssamgöngur og gera fólki kleift að ganga eða hjóla stærri, eða jafnvel stærstan hluta sinna ferða. Slíkum aðgerðum er ekki alltaf tekið vel í fyrstu. Á sérstakri hliðardagskrá borga í tengslum við COP21 ráðstefnuna í París sagði Boris Johnson, borgarstjóri London, að uppbygging hjólreiðahraðbrauta (cycling highways) væri ótrúlega óvinsæl, en samt rétta leiðin. Það er kannski fulldjúpt í árinni tekið hjá Boris að segja þessar aðgerðir "ótrúlega óvinsælar", enda kannski frekar hægt að tala um slík viðhorf fyrir 10 árum. Meirihluti íbúa Reykjavíkur hefur í það minnsta ekki lýst yfir vanþóknun á slíkum aðgerðum hér, en ég tek hins vegar undir þau orð að þetta sé rétta leiðin.
Megi mátturinn vera með okkur
Fyrir utan Parísarráðstefnuna, mikilvægustu ráðstefnu allra tíma, eins og leikarinn og umhverfisaktívistinn Leonardo DiCaprio kallaði hana, er næst jákvæðasti viðburður ársins líklega frumsýning nýjustu Star Wars myndarinnar. Þegar þetta er skrifað hef ég ekki séð þá mynd, og það skiptir ekki alveg öllu hvernig hún er, Star Wars æðið í sjálfu sér er bara svo skemmtilegt. Reykjavík tengist nú Star Wars með áþreifanlegri og varanlegri hætti en nokkru sinni fyrr. Gata í Reykjavík heitir nú Svarthöfði; frábær tillaga sem sett var fram á hinum framsækna lýðræðisvettvangi Betri Reykjavík, af Óla Gneista. Tillagan hlaut einróma samþykki borgarfulltrúa sem um málið fjölluðu. Gatan stendur á einum af framtíðarþéttingarreitum borgarinnar, Höfðunum.
Mátturinn í Reykjavík er talsvert mikill og megi hann vera með okkur um ókomna framtíð.
Höfundur er oddviti Bjartrar framtíðar í Reykjavík.