Þegar við gerum upp árið horfum gjarnan nær okkur við slíkt og til þeirra sem standa okkur næst. Það er skiljanlegt. Við verðum samt í leiðinni að gæta þess líta til samfélagsins alls og reyna að leggja mat á hvort okkur hafi miðað eitthvað úr stað. Skoðanir okkar á því hvort árið var gott eða ekki eru því skiptar og ráðast af eigin hagmunum í bland við lífsýn okkar. Það má þess vegna búast við því að það sem einum þótti vera gott ár þyki öðrum vera miður. Til að leggja mat á árið og reyna að átta mig á því hvernig árið 2015 þá ákvað ég að setjast og rifja upp það sem ég man eftir að markverðast hafi gerst á árinu, án þess að leita á netinu. Minnið er ekki óskeikult og án vafa margt sem hefur gleymst. En samkvæmt þessari óvísindalegu aðferð var árið 2015 svona:
- Þetta var árið sem ritstjóri DV neitaði því að vera framsóknarmaður
- Þetta var árið sem fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins viðurkenndi að hafa
njósnað um samlanda sína og framselt öðru ríki upplýsingar um þá
- Þetta var árið sem forsætisráðherra greiddi 8 milljónum lægri skatta en
áður vegna afnáms auðlegðarskatts
- Þetta var árið sem formaður sjálfstæðisflokksins sagði ellefu sinnum orðið
„fjölskylda“ í setningarræðu sinni á landsfundi flokksins
- Þetta var árið sem formaður sjálfstæðisflokksins viðurkenndi að hafa árum
saman verið skráður á erlenda vefsíðu sem hvetur til framhjáhalds
- Þetta var árið sem stöðugleikaskatturinn var kynntur um leið og hætt var
við hann
- Þetta var árið sem framsóknarflokkurinn lúffaði með stöðugleikaskattinn og
samið var við kröfuhafa
- Þetta er árið sem hægriflokkarnir sömdu um stórkostlegan afslátt til
kröfuhafa í gömlu bankanna
- Þetta var árið sem kröfuhafarnir afhentu íslenska ríkinu illseljanlega
banka og góss upp á gríðarlegar upphæðir til ráðstöfunar gegn því að fá að fara
úr landi með verðmætustu eigur sínar
- Þetta var árið sem Alþingi var kallað saman í kyndi til að setja lög til
að stöðva leka úr forsætisráðuneytinu um samninga við kröfuhafa
- Þetta var árið sem ráðherrar og þingmenn réðust með offorsi gegn
almenningi sem gagnrýndu stjórnvöld
- Þetta var árið sem iðnaðarráðherra gaf fiskeldisfyrirtæki í heimabæ sínum
mörg hundruð milljónir úr ríkissjóði
- Þetta var árið sem þingmenn fengu launahækkun jafnt fram í tímann sem
aftur í tímann
- Þatta var árið sem öryrkjar og eldriborgarar voru sviknir um launabætur
til samræmis við aðra launþega
- Þetta var árið sem þekktir einstaklingar í samfélaginu boðuðu þjóðarátak
til að koma ríkisstjórninni frá völdum
- Þetta var árið sem ríkisstjórn hægriflokkanna sló Ísandsmet í sumarfríi
- Þetta var árið sem fjármálaráherra boðaði aðra einkavæðingu á bankakerfinu
- Þetta var árið sem fólki var vísað frá námi vegna aðgerða
ríkisstjórnarinnar
- Þetta var árið sem fangelsismálastjóri tilkynnti að loka þyrfti fangelsum
sökum fjárskorts
- Þetta var árið sem veiðigjöld voru lækkuð þriðja árið í röð
- Þetta var árið sem æ fleiri Íslendingar ákváðu að flytja frá landinu
- Þetta var árið sem Alþingi ákvað að beiðni forsætisráðherra að byggja við
þinghúsið fyrir nokkra milljarða eftir nærri 100 ára gamalli teikningu af
heimavist
- Þetta var árið sem forsætisráðherra nennti ekki að taka þátt í
sameiginlegum mótmælum þjóðaðarleiðtoga gegn hryðjuverkum í París
- Þetta var árið sem upp komst að menntamálaráðherra er fjárhagslega háður
aðilum sem hann hefur sinnt sérstaklega sem ráðherra
- Þetta er árið sem almenningur tók völdin í sínar hendur og rak stjórnvöld
til baka með ákvörðun sína um að reka Albanska fjölskyldu úr landi
- Þetta var árið sem þingkona sagði að opinbert niðurgreitt leiguhúsnæði
væri hennar helgasta vé á sama tíma og hún leigði eigið húsnæði út til
ferðamanna
- Þetta var árið sem landið logaði í verkföllum jafnt á almennum sem
opinbera vinnumarkaðinum
- Þetta var árið sem formaður sjálfstæðisflokksins sagði að skerða þyrfti
verkfallsrétt launafólks
- Þetta var árið sem forsætisráðherra sendi launafólki í verkföllum skilaboð
um að verðtrygging yrði ekki afnumin nema fólk léti af verkföllum
- Þetta var árið sem verðtryggingin var ekki afnumin
- Þetta var árið sem fjölmiðill skildi framsóknarflokkinn
- Þetta var árið sem forsætisráðherra lagði fram svo vonda tillögur um
hvernig minnast mætti upp á 100 ára fullveldis Íslands að þær fegnust ekki
afgreiddar úr ríkisstjórn
- Þetta var fjórða árið í röð sem lagt var fram fjárlagafrumvarp sem á að
skila ríkissjóði á núlli á næsta ár
- Þetta var árið sem ölvaður þingmaður stjórnarliðsins ældi yfir farþega í
millilandaflugi
- Þetta var enn eitt metárið í Íslenskum sjávarútvegi
- Þetta var árið sem fjármálaráðherra gat ekki svarað fyrirspurnum úr
þinginu um 80 milljarða millifærsluna
- Þetta var árið sem forstjóri Landspítalans sagði spítalann hafa fallið
niður um deild
- Þetta var árið sem forstjóra Landspítalans ofbauð framkoma og viðhorf
forystufólks stjórnarflokkana gagnvart Landspítalanum
- Þetta var árið sem menntamálaráðherra viðraði hugmynd um
ríkistónlistarskóla
- Þetta var árið sem aðeins 5% landsmanna töldu forsætisráðherra vera
heiðarlegan stjórnmálamann
- Þetta var árið sem iðnaðarráðherra fór Gullna hringinn án þess að þurfa að
bíða í röð eftir að komast á klósettið
- Þetta var árið sem fjármálaráðherra sagði að jöfnuður væri líklega orðin
of mikill
- Þetta var árið sem reynt var að múta forsætisráðherranum
- Þetta var árið sem velferðarráðherra hæddist að starfsfólki
fjármálaráðuneytisins fyrir leti og dugleysi og sendi þeim orkustangir
- Þetta var árið sem bankastjóri Landsbankans lýsta yfir blússandi góðæri
- Þetta var árið sem fyrrum innanríkisráðherra sagði sjálfstæðisflokkinn
vera fjöldahreyfingu vandaðs fólks
- Þetta var árið sem varaformaður
utanríkismálanefndar talaði aðeins í 20 mínútur á Alþingi vegna þess að
þingmálin voru utan við áhugasvið hennar
- Þetta var árið sem Þróunarsamvinnustofnun var
lögð niður að tillögu utanríkismálanefndar
- Þetta var árið sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar greiddu
nærri einn milljarð í ráðgjöf sem þeir sóttu að mestu til valinna flokksfélaga
- Þetta var árið sem ríkissjóður borgaði 500
milljónir fyrir að flytja gamlan grjótgarð stein fyrir stein frá einum stað til
annars að kröfu forsætisráðherra
- Þetta var árið sem formaður fjárlaganefndar
sagði starfsfólk Ríkiskaupa vera spillt og hugsaði aðeins um eigin hagsmuni
- Þetta var árið sem fjármálaráðherra bað um
heimild Alþingis til að einkavæða bankana en fékk ekki
- Þetta var árið sem flokksþing
framsóknarflokksins samþykkti að Landsbankinn yrði áfram í eigu þjóðarinnar sem
samfélagsbanki
- Þetta er árið sem það opinberaðist að svo kölluð
leiðrétting gagnaðist tekjuhæsta hópi landsmanna mun betur en öðrum
- Þetta var árið sem Þjóðkirkjan fékk að fullu
bættar fjárhagslegar afleiðingar Hrunsins
- Þetta var árið sem biskup sagði að betur þyrfti
að huga að öryrkjum og öldruðum
- Þetta var árið sem Rússar settu viðskiptabann á
Ísland
- Þetta var árið sem forseti Íslands neitaði 53.571
kjósendum um þjóðaratkvæða um fiskveiðiauðlindina og veiðigjöld
- Þetta var árið sem Viðskiptaráð krafðist þess að
skattahækkunum yrði skilað til baka rétt eins og um þýfi væri að ræða
- Þetta var árið sem Píratar gerðu
sjávarútvegsstefnu Samfylkingarinnar að sinni
- Þetta var árið sem formaður verkalýðsfélags
Akraness vildi afmá bankastjóra Seðlabanka Íslands
- Þetta var árið sem matarskattur hækkaði um 63,6%
- Þetta var árið sem dýrar vörur lækkuðu í verði
vegna skattalækkana
- Þetta var árið sem þingmaður sjálfstæðisflokksins
baðst vægðar undan ritstjóra Morgunblaðsins
- Þetta var árið sem forsætisráðherra hélt ræðu á
þingi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál sem enginn skildi nema hann
- Þetta var árið sem borgarstjórn Reykjavíkur
setti viðskiptabann á Ísrael
- Þetta var árið sem borgarstjórn Reykjavíkur dró
viðskiptabann á Ísrael til baka
- Þetta var árið sem Icesave málinu lauk með sama
hætti og stóð til í upphafi
- Þetta var árið sem fjármálaráðherra sagði
launafólk hafa fengið of miklar launahækkanir
- Þetta var árið sem Arion banki gerði vildarvini
sína ógeðslega ríka með sölu á hlutum í Símanum
- Þetta var árið sem velferðarráðherra sagði að
hægt væri að lækka byggingarkostnað um 10-15% með því að lækka hann um 1%
- Þetta var árið sem Slysavarnarfélag sjómanna
fagnaði þrítugusta starfsári sínu
- Þetta var árið sem 99,9% kröfuhafa í föllnu
bankanna fögnuðu samkomulagi við stjórnvöld
- Þetta var árið sem ritari sjálfstæðisflokksins
pantaði vín með póstinum
- Þetta var árið sem forsetinn ásamt þingmönnum
stjórnarflokkana ólu sem aldrei fyrr á kynþáttafordóma og fordómum gagnvart
trúarbrögðum
- Þetta var árið sem þingmenn og ráðherrar
stjórnarflokkanna urðu að fórnarlömbum
Árið 2015 var án nokkurs vafa ár hrægammsins, Annus Condor, sem græddi tá og fingri á samkomulagi sínu við ríkisstjórn hægriflokkanna og flaug úr landi með meira fé í klónum en rúmast höfðu í villtustu draumum hans. Heilt yfir var 2015 slæmt pólitískt ár fyrir þjóðina. Árið 2015 er nær örugglega síðasta ár ríkisstjórnar hægriflokkanna. Hún mun tæplega lifa til sumars. Til þess er andstaðan við hana í samfélaginu of mikil.
Fyrir mig persónulega var þetta að mörgu leyti gott ár. Það gengu á skyn og skúrir líkt og venjulega en heilt yfir er ég bara nokkuð sáttur. Ég fékk fjórða barnabarnið mitt í ársbyrjun, dreng sem hefur fært mér mikla hamingju rétt eins og hin þrjú hafa gert á hverjum degi. Móðir mín lést á fyrri hluta ársins sem varð mér sárara en ég hafði trúað. Á árinu fylgdist ég með kærum vinum taka á miklum erfiðleikum með ærðuleysið að vopni og sigra. Ég fylgdist líka með börnunum mínum ná hverjum áfanganum af öðrum að settum markmiðum. Ég kvaddi afbragðsgóða vinnufélaga sem ég hafði starfað með síðustu tvö árin og kynntist öðrum. Félagar mínir í Vinstri grænum kusu mig sem varaformann hreyfingarinnar annað tímabilið í röð. Mér finnst svolítið til þess koma. Við Þuríður mín lukum þrítugasta og sjötta sambúðarárinu okkar í góðu og langþráðu sumarfríi og hófum það þrítugusta og sjöunda með bros á vör.
Ég óska lesendum gleðilegra jóla og
farsældar á komandi ári.