Árið 2015 var fyrsta heila ár Pírata í borgarstjórn og því er vel við hæfi að líta yfir hvað hefur áunnist í okkar áhersluatriðum og hvað er eftir. Sumt hefur gengið hægar en ég bjóst við í upphafi en það er víst sagt að góðir hlutir gerist hægt. Borgarfulltrúar sem og aðrir hjá Reykjavíkurborg standa líka frammi fyrir hagræðingarkröfu í öllu borgarkerfinu en það er þó sannfæring mín og hefur alltaf verið að áherslur Pírata séu mun frekar til þess fallnar að draga úr útgjöldum en auka við þau. Enda snúast þær í grunninn um að virkja upplýsingatæknina og straumlínulaga kerfið; spara fólki spor og handtök.
Upplýsingastefna og þjónustuveiting
Á árinu var skipaður stýrihópur á vegum stjórnkerfis- og lýðræðisráðs til að skrifa nýja upplýsingastefnu fyrir Reykjavíkurborg. Eldri stefnan var frá árinu 2000 og löngu var orðið tímabært að uppfæra hana í ljósi tækniþróunar og þeirrar ríku áherslu á gagnsæi sem einkennir nútímastjórnmál.
Ég fór með formennsku og með mér í hópnum voru borgarfulltrúarnir Heiða Björg Hilmisdóttir og Kjartan Magnússon. Við kölluðum eftir umsögnum frá almenningi um drög að stefnunni og kláruðum hana í góðri sátt. Upplýsingastefnan var svo samþykkt einróma eftir tvær umræður í borgarstjórn. Í stefnunni er gerð rík krafa um gagnsæi, frumkvæði í upplýsingamiðlun og notendamiðað aðgengi að upplýsingum, svo fátt eitt sé nefnt. Einnig er þar sérstakur kafli um opin gögn, en annað sem gerðist á árinu var að fjármálaskrifstofa Reykjavíkurborgar skilaði stjórnkerfis- og lýðræðisráði tillögum að útfærslu á rafrænni gagnagátt fyrir borgina, í samræmi við tillögu sem borgarstjórn hafði samþykkt einróma 2012. Þar var jafnframt lagt til verklag og ábyrgðarskipting um opin gögn borgarinnar almennt. Það er vonandi að opið bókhald komist þannig til framkvæmda sem fyrst á næsta ári enda mikil þverpólitísk samstaða farin að myndast um það.
Í sumar skilaði líka starfshópur um þjónustuveitingu Reykjavíkurborgar skýrslu sinni. Meðal helstu ábendinga þessa starfshóps embættismanna skipuðum af borgarstjóra má nefna að heildarstefnumótun um þjónustuveitingu borgarinnar hefur aldrei farið fram, að þjónusta borgarinnar er skipulögð þannig að íbúar þurfa að hafa innsýn í stjórnskipulag Reykjavíkur til að vita hvert þeir eiga að leita eftir þjónustu, og að þjónustuveiting miðast frekar við skipulag fagsviða en þarfir íbúa.
Úrbótatækifæri eru talin felast í að stórefla rafræna þjónustu, í að nýta betur upplýsinga- og samskiptatækni og í að Reykjavíkurborg í heild skilgreini sig í auknum mæli sem þjónustufyrirtæki. Borgarráð samþykkti að senda skýrsluna til umsagnar fagráða borgarinnar og mun hún að því ferli loknu fara fyrir stjórnkerfis- og lýðræðisráð til úrvinnslu. Beinast liggur við að fara þá strax í þá vinnu að móta heildstæða þjónustustefnu fyrir Reykjavíkurborg og myndi ég telja að sú vinna og þær stjórnkerfisbreytingar sem hún mun væntanlega hafa í för með sér verði með stærstu verkefnum ársins 2016. Við þurfum að leita allra leiða til að valdefla þjónustuþega borgarinnar og gefa „starfsfólki á plani“ svigrúm til nýsköpunar í sinni vinnu.
Betri Reykjavík / Betri hverfi
Betri Reykjavík og Betri hverfi eru lýðræðisverkefni sem stofnsett voru á síðasta kjörtímabili í samvinnu við sjálfseignarstofnuna Íbúa, sem þróar og rekur hugbúnaðinn sem er þeim undirliggjandi. Betri Reykjavík er hugmyndabanki þar sem íbúar borgarinnar geta lagt fram, rökrætt og kosið um hugmyndir sem síðan eru teknar til afgreiðslu í borgarkerfinu. Betri hverfi er árleg íbúakosning þar sem íbúar hverfa borgarinnar leggja fram hugmyndir að framkvæmdum í sínu hverfi og forgangsraða þeim síðan í kosningu.
Þessu tvennu er oft ruglað saman, kannski eðlilega. Þetta er hins vegar tvennt ólíkt þó skylt sé. Það er orðið alveg tímabært að fara yfir reynsluna af þessum verkefnum og endurskoða þau. Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála var á árinu falið að vinna úttekt á þeim og sú úttekt ætti loksins að verða tilbúin í kringum áramótin. Hún ætti að mynda ágætan grunn að endurskoðun en svo eru einnig uppi fjölmargar hugmyndir nú þegar um hvernig lyfta megi þessum verkefnum upp á næsta stig. Þau hafa vakið athygli erlendis enda þykir til dæmis kosningaþátttakan í Betri hverfum sérlega góð samkvæmt alþjóðlegri reynslu af svipuðum verkefnum. Betri hverfi hlaut til dæmis verðlaunin Nordic Best Practice Challenge þetta árið í flokknum Almenn samskipti. Verðlaunin voru veitt formlega á Norrænu höfuðborgarráðstefnunni sem var haldin í Reykjavík í maímánuði.
Reykjavíkurflugvöllur
Samantekt af þessu tagi þætti mörgum án efa rýr í roðinu ef ekki væri minnst á stöðu Reykjavíkurflugvallar, enda átakamál sem oft er nefnt í umræðum um beint lýðræði.
Í stefnu Pírata í Reykjavík segir: „Nauðsynlegt er að ákveða framtíðarstaðsetningu flugvallarins í eins víðtækri sátt höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar og kostur er á.“ Skýrsla svonefndrar Rögnunefndar, sem kom út á árinu, átti að vera einhvers konar vísir að sátt en ljóst er að nokkuð langt er þar í land. Reyndar eru þessi mál með nýjum innanríkisráðherra, Ólöfu Nordal, í það miklum hnút að kalla mætti það afturför.
Það atriði sem þó hafði náðst ágæt sátt um löngu áður en Rögnunefndin skilaði af sér, lokun NA/SV-flugbrautarinnar, er núna orðið að dómsmáli. Það er nokkuð sérstætt að ráðherra dómsmála þurfi að stefna til að láta reyna á gerða samninga (samþykktum meðal annars af hennar eigin flokksfélögum í borginni) en þetta er nauðsynlegt ekki síst í ljósi þess að þriðju aðilar á borð við þá sem hyggjast reisa byggð við Hlíðarenda eiga margt undir því að staða mála sé þarna ljós. Reyndar er það almennt einn af hornsteinum réttarríkisins að fólk og fyrirtæki geti treyst því að þeim forsendum fyrir rekstri og framkvæmdum sem gefnar eru af hálfu opinberra aðila sé hægt að treysta og þess vegna er mjög mikilvægt að úr máli af þessu tagi sé skorið fyrir dómi.
Um framtíðina eftir að úr dómsmáli hefur verið leyst er erfitt að spá, nema rétt er að halda til haga N/S-brautinni er tryggður sess í núverandi aðalskipulagi og samningum til 2022. Þó má taka fram að ég hef persónulega einatt talað fyrir því að ein leið til að höggva á þennan hnút væri að leggja mismunandi tillögur að úrlausnum á grundvelli skýrslu Rögnunefndarinnar auk annarra viðeigandi gagna fyrir þjóðaratkvæði eða jafnvel einhvers konar þjóðfundarfyrirkomulag - og mun gera það áfram. Það verður síðan áfram fyrst og fremst í höndum ríkisstjórnar hvort slík leið verður farin.