Óttar Guðjónsson hagfræðingur skrifaði áhugaverða grein í Morgunblaðið í gær, þar sem hann gerði að umtalsefni þá stöðu sem uppi er í bankamálum þjóðarinnar. Stjórnvöld standa frammi fyrir krefjandi stöðu, vegna þess hve hlutfallslega stórar fjármagnshreyfingar geta fylgt endurskipulagningu á eignarhaldi hinna endurreistu banka.
Mikil verðmæti
Í grein sinni segir Óttar: „Nú er sú staða uppi að ríkisvaldið á tvo af þremur stóru bankanna í landinu og söluandviði þess þriðja mun renna í ríkissjóð. Samtals eigið fé þessara banka er m.v. síðustu tölur frá Seðlabankanum rétt um 630 milljarðar króna. Heildarinnlán í bankakerfinu voru um 1.876 milljarðar í lok nóvember... Í nýlegri greiningu Óttars Snædal hjá Samtökum atvinnulífsins kom fram að algengt eiginfjárhlutfall smærri banka í nágrannalöndum okkar er milli 8 og 10% og stærri bankar milli 4 og 6%, samanborið við tæp 20% hjá okkur. Þetta segir mér að mjög líklegt sé að með einbeittum vilja megi greiða út fast að helmingi þess hlutafjár sem bankarnir ráða yfir í dag, án þess að þjónusta, hlítni við lög eða reglur skaðist. Þannig að ef bankarnir væru seldir fjárfestum á 60 til 80% af virði eigin fjár, þá gætu fjárfestarnir greitt sér út stóran hluta kaupverðsins á tiltölulega fáum árum.“
Óttar nefnir síðan, að ríkið þurfi að skoða það sérstaklega að greiða út úr bönkunum þar sem ríkið er eigandi, verulegan arð af óþörfu eigin fé áður en þeir verði seldir.
Einstök staða - Gagnsæi verði leiðarljós
Þetta er líklega einstök staða hjá þjóð í heiminum um þessar mundir, og framhald á fordæmalausum aðstæðum og aðgerðum sem hér hafa markað stöðu efnahagsmála frá því fjármálakerfið hrundi í október 2008.
Til viðbótar við góða greiningu Óttars, á þessum krefjandi
aðstæðum, má nefna atriði, er snerta sölu á hlutum í bönkunum, sem er afar
mikilvægt. Það er að stjórnvöldum beri gæfa til þess að hafa hvert einasta
skref sem tekið er í átt að sölu á eignarhlutum í bönkunum með gagnsæi sem
leiðarljós. Allt verður að vera uppi á borðum um hvaða aðilar sýna áhuga á
bönkunum, hvaða verð hafa verið nefnd og á hvaða forsendum, og einnig hvaða
persónur og leikendur það eru sem eru að ræða um öll atriði sem snúa að þessum
málum á hverjum tíma.
Ísland er agnarsmár markaður í alþjóðlegu samhengi, og því eðlilegt að endurskipulagningarferli eins og það sem nú er að fara af stað, verði eins opið og aðgengilegt öllum og mögulega er hægt.
Þetta er ekki sagt til að þess að gera þessi mál tortryggileg, heldur miklu frekar til þess að minna á að þetta verður bara gert einu sinni og að trúverðugleikinn skiptir sköpum. Ekki þarf að fjölyrða um það, að traust til bankakerfisins á Íslandi er enn að byggjast upp. Eins og bankakerfið er í dag er það nær alfarið byggt upp á innlánum almennings og fyrirtækja, og því eru almannahagsmunir hvert sem litið er.