Þessar vikurnar stendur yfir gerð nýrra búvörusaminga á milli bænda og ríkisins. Í þeim hluta er snýr að sauðfjárrækt er lagt mikið kapp á að efla og auka framlegð greinarinnar útfrá núverandi forsendum; þ.e. að framleiða lambakjöt. Samkvæmt fjárlögum 2016 má reikna með að um 50 milljarðar renni til sauðfjárræktarinnar yfir samningstímann, eða um 5 milljarðar árlega. Undanfarið hefur átt sér stað talsverð umræða um framtíðarmöguleika greinarinnar. Landvinningar erlendis heilla og veðjað skal á markað kröfuharðra neytenda lífrænna afurða. Minna fer fyrir umræðu um hvernig kindakjötsneysla hefur þróast innanlands undanfarna áratugi og því ekki úr vegi að hnykkja aðeins á henni.
Árið 1975 voru Íslendingar tæplega 216 þúsund. Um 72 þúsund gestir heimsóttu okkur árlega og bændur höfðu rúmlega 860 þúsund fjár á fóðrum. Við neyttum á ársbasa um 45 kg af kindakjöti hvert, en þar sem framleiðslan nam tæplega 15 þúsund tonnum vorum við ekki að torga nema um 66% hennar. Við greiddum því með umframkjötinu ofaní neytendur erlendis.
Árið 1992 voru Íslendingar um 260 þúsund, rúmlega 142 þúsund gestir heimsóttu okkur árlega en sauðfé hafði fækkað í rétt um 487 þúsund gripi. Árleg kindakjötsframleiðsla nam um 8600 tonnum. Innanlandsmarkaðurinn torgaði um 93% af því, eða um 31 kg á íbúa.
Okkur hélt áfram að fjölga í rólegheitunum og árið 2002 voru Íslendingar tæplega 287 þúsund. Svipaður fjöldi sá sér ástæðu til að heimsækja okkur erlendis frá, eða um 278 þúsund manns. Um 470 þúsund fjár var í landinu og gaf af sér um 8700 tonn af kindakjöti. Innanlandsneysla var um 70% af heildarframleiðslunni eða um 22 kg á íbúa.
Árið 2014 vorum við orðin um 326 þúsund talsins og um ein milljón ferðamanna sóttu okkur heim. Jafnmargt fé var í landinu og árið 1992, eða um 487 þúsund gripir sem gáfu af sér 10.100 tonn af kjöti. Hinsvegar hafði innanlandssalan dregist meira saman og var orðin sambærileg við árið 1975, eða aðeins um 65%. Svo, þrátt fyrir þessa gríðarlegu fjölgun ferðamanna síðan árið 2002, þá borðuðum við enn minna kindakjöt en áður á ársvísu, aðeins um 20 kg á íbúa. Árleg heildarkjötneysla á mann er aftur á móti 74,7 kg. Maður hlýtur að spyrja: hvað veldur því að sala á kindakjöti hefur ekki aukist í hlutfallslegu magni við fjölgun ferðamanna síðasta áratuginn eða svo? Og - af hverju vill íslenski neytandinn ekki meira?
Hvað skal til bragðs taka?
Þessar tölur sýna berlega að greinin er langt frá því að vera í markaðslegu jafnvægi. Framboð er mun meira en eftirspurn. Afurðaverð til bónda er sömuleiðis lágt, framleiðslustyrkir háir og ekki fyrirséð að það muni breytast á næstu árum. Jafnvel þótt markaðsgreiningar sýni hugsanlega möguleika á hærra afurðaverði, sérstaklega fyrir útflutning á sérvörumarkaði. Samkvæmt skýrslu sem Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri gerði nýlega fyrir LS þá er mest allt lambakjöt sem flutt er út selt án upprunamerkingar. Hvernig má það vera? Ef við ætlum raunverulega að skapa afurðinni sérstöðu sem íslenskrar “hálfgildis villibráðar” þá þurfa kaupendur að minnsta kosti að vita upprunaland vörunnar?
Ég vil sjá sauðfjárrækt halda áfram að vera til og dafna vel. Að ær og lömb séu á úthagabeit sumarlangt og að afurðirnar sem greinin framleiðir flokkist sem hágæðavara, framleidd á sjálfbæran hátt án allra aukaefna. Að grunn afurðaverð hækki umtalsvert og svæðisbundin fullvinnsla afurða vaxi og styrkist enn frekar. Að við hættum að leggja gæði og verð lamba- svína og kjúklingakjöts að jöfnu. Ég trúi að tækifærin séu fjöldamörg en þau liggja ekki í að halda áfram á sömu braut og greinin hefur fylgt síðustu 50 árin eða svo.
Það þarf að kollvarpa núverandi kerfi og aflæsa öllum gildrum sem eru innbyggðar í það. Hugsa heildstætt, tengja framtíðarsýn greinarinnar mun sterkar við byggðamál almennt og opna á ný atvinnutækifæri fyrir þá sem kjósa að byggja sveitir landsins. Af hverju erum við til dæmis enn að greiða framleiðslustyrki út á hvert kíló kindakjöts eða á grip? Af hverju greiðir ríkið ekki bændum fyrir nýsköpun í staðinn, til að mynda í formi búsetu- eða byggðastyrkja og hvetur þá þannig til að hugsa útfyrir kassann? Þeir sem vilja halda sauðfé geta sem best gert það áfram samhliða öðrum verkefnum en þeir sem vilja nýta aðrar auðlindir en beitiland fengju aukin tækifæri til þess. Því ætti það ekki að ganga?
Það er margt fleira en markaðsmálin athugavert við núverandi stöðu. Lagaramminn, styrkjakerfið allt, ástand og meðferð beitilands, vörsluskylda búfjár og lögþvingaðar smalamennskur fjárlausra landeigenda eru, svo eitthvað sé nefnt, mjög eldfim og vandmeðfarin mál sem þarf að ræða á lausnamiðaðan hátt og marka skýran ramma. Það gerist aðeins með samvinnu og trausti á milli allra þeirra sem telja sig eiga hagsmuna að gæta. Greinin þarf sömuleiðis að vinna sér traust og virðingu neytenda og það verður aðeins gert með því að hlusta eftir óskum þeirra varðandi afurðirnar sem þeim er ætlað að kaupa.
Höfundur er landgræðsluvistfræðingur og starfar hjá Landgræðslu ríkisins.