Ræða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar
forsætisráðherra á Viðskiptaþingi í síðustu viku var athyglisverð, líkt og flestar
ræður hans raunar eru. Skoðanir á ágæti forsætisráðherrans eru verulega
skiptar, svo vægt sé til orða tekið, en fáir kunna þá list að valda umtali um
málflutning sinn jafn vel og Sigmundur Davíð.
Og ræðan í síðustu viku var þar engin undantekning. Hún virkaði á margan hátt sem upphaf kosningabaráttunar sem framundan er þar sem Sigmundur Davíð eyddi umtalsverðu púðri í að vara sérstaklega við Pírötum, sem farið hafa með himinskautum í skoðanakönnunum. Hann sagði að aðilum af jaðrinum væri nú að vaxa fiskur um hrygg í stjórnmálum víða í heiminum og þeir væru allir að boða „eitthvað nýtt í andstöðu við gamla spillta kerfið.“
Þessir aðilar væru nú kallaðir ýmsum nöfnum. Sósíalistar, kommúnistar, þjóðernissinnar eða anarkistar. Allt væri þetta samt bara sama gamla vínið á nýjum belgjum. Það eigi að leysa vandamálin með auknum útgjöldum án tillits til verðmætasköpunar, byggt á útópískum kenningum „sem lögðust að mestu í dvala eftir að landamæraverðir í Berlín misstu vinnuna.“
Eru borgaralaun galin?
Sigmundur Davíð hjólaði síðan í hugmyndir um borgaralaun, sem Píratar hafa velt upp. „Hér kynnir stjórnmálahreyfing sem nýtur mikils stuðnings tillögu um að ríkið greiði öllum landsmönnum mánaðarlega laun, ja, a.m.k. 300.000 krónur skilst mér, fyrir það eitt að vera Íslendingur. Óháð stöðu og öðrum tekjum.“ Hann benti á að kostnaður gæti orðið tvöfalt meiri á ári en tekjur ríkisins eru í dag, eða um 100 milljarðar króna á mánuði.
Til að gæta allrar sanngirni þá hafa Píratar einfaldlega lagt fram þingsályktunartillögu þar sem óskað er eftir því að skipaður verði starfshópur til að kortleggja leiðir sem tryggi öllum borgurum landsins skilyrðislausa grunnframfærslu. Engar tölur eru nefndar í þeirri tillögu.
Borgaralaunum er líka ætlað að koma í stað örorkubóta, atvinnuleysisbóta, ellilífeyris, námslána, fæðingarorlofs, vaxtabóta, barnabóta og ýmissa annarra bóta sem hjálpa fólki að draga fram lífið. Ein helsta röksemdarfærslan fyrir því að borgaralaun verði tekin upp er sú að fyrirséð er að aukin sjálfvirkni og tækniframfarir geti orsakað það að allt að helmingur starfa hverfi. Þau störf sem eru í mestri hættu eru láglaunastörf sem krefjast lítillar þekkingar. Einhvern veginn verður það fólk sem í dag sinnir þessum störfum að lifa þegar störfin leggjast af.
Þess vegna eru 20 hollensk sveitarfélög að kanna fýsileika einfaldara kerfis borgaralauna. Stjórnvöld í Finnlandi eru að gera slíkt hið sama og í Sviss verður kosið um málið í júní næstkomandi.
Bæði hægri- og vinstrimenn víða um heim hafa stutt hugmyndina um borgaralaun. Vinstrimenn segja að þau muni draga úr atvinnuleysi vegna vélvæðingar í framleiðslugreinum og hægrimenn hafa bent á að leiðin einfaldi velferðarkerfið gríðarlega.
Einfalt getur verið flókið
Það var líka athyglisvert að Sigmundur Davíð gagnrýndi einnig þessi jaðaröfl í stjórnmálum fyrir að boða einfaldar, en vanhugsaðar, lausnir á flóknum málum. „Það þarf ekki að útskýra hvernig dæmið á að ganga upp, það nægir að hafa boðskapinn nógu einfaldan og setja hann fram í nógu jákvæðum frösum,“ sagði forsætisráðherra. Einfaldar lausnir geti verið bestar, jafnvel nauðsynlegar, þar sem þær eigi við en önnur viðfangsefni kalli „flóknari lausnir en lausnir verða alltaf að vera úthugsaðar og rökréttar.“
Þetta er sami forsætisráðherra og sagði það vera einfalt að afnema verðtryggingu í aðdraganda síðustu kosninga. Samt sem áður hefur ekkert verið gert til að afnema verðtryggingu á yfirstandandi kjörtímabili og forsætisráðherra hefur ekki fengist til að svara fyrirspurn Kjarnans um hvað felist í slíku afnámi að hans mati, þrátt fyrir að tæpur mánuður sé síðan að umrædd fyrirspurn var send. Þetta er sami forsætisráðherra og sagði einfalt að taka á skuldavandanum sem hafi orðið til vegna hrunsins með leiðréttingu verðtryggðra lána sumra óháð fjárhag og eignarstöðu, sem er ein tæknilega flóknasta aðgerð sem íslensk stjórnvöld hafa ráðist í. Þetta er sami forsætisráðherra og sagði það einfalt að tryggja fólki vinnu og betri tekjur svo að það hafi efni á að kaupa sér húsnæði og lifa mannsæmandi lífi á Íslandi. Staðan í dag er hins vegar sú að það virðast sífellt færri hafa efni á því að kaupa sér húsnæði hérlendis á sama tíma og vera þeirra á fokdýrum leigumarkaði rýrir mjög möguleikann á því að lifa mannsæmandi lífi á Íslandi.
Í aðdraganda síðustu kosninga var boðskapurinn einfaldur og frasarnir jákvæðir. En niðurstaðan var flókin. Eins og raunveruleikinn vill oft verða.
Skýr valkostur
Það mátti líka lesa ýmislegt annað úr ræðu Sigmundar Davíðs. Hann hvatti atvinnulífið til að hætta að „að eyða kröftum í að atast í bændum eða ímynda sér að það geti verið skynsamlegt að gera Ísland að losunarstað fyrir umframframleiðslu á heimsmarkaði á meðan önnur ríki viðhalda tollum gagnvart okkur.“ Hann boðaði endurskipulagningu fjármálakerfisins og söguleg framfaraskref í húsnæðismálum. Hann boðaði aukin fjárútlát í heilbrigðis- og velferðarmál. Hann boðaði enn og aftur aðgerðir gegn verðtryggingu. Og síðast en ekki síst boðaði forsætisráðherrann auknar innviðafjárfestingar. „Þörfin fyrir þjóðhagslega hagkvæmar fjárfestingar hefur hlaðist upp,“ sagði Sigmundur Davíð. Það má því búast við stóraukinni eyðslu í opinberar framkvæmdir í völdum kjördæmum á síðustu fjárlögum sitjandi ríkisstjórnar.
Í ræðunni komu fram margar áherslur sem verða í forgrunni hjá Framsóknarflokknum á næstu misserum nú þegar firnasterk og vel skipulögð kosningavél hans fer að malla af stað. Kerfisbundið verður áfram ráðist á Pírata, enda sýna kannanir að Framsókn er að missa langstærstan hluta kjósenda sinna yfir til þeirra. Það verður mjög athyglisverð rimma.
Það er skýrt að Framsókn ætlar ekki að reyna að stela stefnum og hugmyndum frá Pírötum til að ná fylgi til baka, líkt og til að mynda Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn hafa verið að reyna að gera. Flokkurinn ætlar þvert á móti að stilla sér upp sem algjörri andstæðu.
Skilaboðin eru að Framsókn sé hinn ábyrgi stjórnarflokkur. Að hann hafi leyst haftamálin, þrátt fyrir að enn séu höft í gildi. Að hann standi vörð um heimilin í landinu, þrátt fyrir að húsnæðisvandi þjóðarinnar hafi ekki verið meiri í lengri tíma. Að hann muni afnema verðtryggingu, þótt hún hafi ekki verið afnumin á þessu kjörtímabili né að fyrir liggi hvernig eigi að gera það. Að enginn geri betur við gamalt og veikt fólk en Framsókn, þrátt fyrir að samtök eldri borgara klifi á því að stór hópur þeirra lifi undir fátæktarmörkum og að 75 þúsund manns hafi skrifað undir áskorun Kára Stefánssonar um endurreisn heilbrigðiskerfisins.
Þetta verður allt saman mjög einfalt og frasarnir jákvæðir. Svo er bara spurning hvort kjósendur bíti aftur á agnið.