Á Alþingi eru nú til meðferðar lagafrumvörp varðandi húsnæðismál og þá hefur umhverfis- og auðlindaráðuneytið kynnt tillögur að breytingum á byggingarreglugerð.
Markmið með þessum frumvörpum og breytingum á byggingarreglum er m.a. að auka framboð á húsnæði fyrir tekjulágt fólk og að draga úr byggingarkostnaði.
Það eru auðvitað góð markmið en þó er ýmislegt sem huga þarf vel að og annað sem verður sérstaklega að varast.
Í lögum um málefni fatlaðs fólks er því lýst yfir að tryggja skuli fötluðu fólki „jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi.“ Tækifæri fatlaðs fólks til sjálfstæðs og eðlilegs lífs og sambærilegra lífskjara á við aðra eru augljóslega órjúfanlega tengd möguleikum þess til að eignast eigið heimili.
Heimilið nýtur sérstakrar friðhelgi samkvæmt íslensku stjórnarskránni og mannréttindasamningum sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist. Sá sem ekki á heimili fer á mis við þau mannréttindi. Tækifæri fatlaðs fólks til jafns við aðra er meginmarkmið samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem íslensk stjórnvöld hafa lýst yfir að þau ætli að uppfylla með lögum, reglum og stjórnsýsluframkvæmd. Samningurinn leggur mikla skyldu á ríki til að gera viðeigandi ráðstafanir, m.a. með lögum og reglum, til að greiða fyrir aðgengi fatlaðs fólks á öllum sviðum og ekki síst að húsnæði.
Tekjur fatlaðs fólks og geta til að greiða fyrir húsnæði
Einstaklingur sem vegna fötlunar á ekki möguleika á að afla sér atvinnutekna hefur nú um 185 þús. kr. á mánuði í ráðstöfunartekjur, eftir skatt, og rúmar 207 þús. kr. ef hann býr einn. Hafi fatlaður einstaklingur verið í þeirri stöðu frá fæðingu eða barnsaldri eru það, að öðru óbreyttu, þær tekjur sem hann þarf að láta duga fyrir allri framfærslu sinni, þ.m.t. kostnaði vegna leigu eða kaupa á húsnæði, öll sín fullorðinsár.
Mat á nauðsynlegu rými og aðstæðum í íbúðum þar sem fatlað fólk býr
Ýmis útbúnaður sem er nauðsynlegur fólki vegna fötlunar tekur oft mikið pláss. Þá þarf fatlað fólk oft á miklum stuðningi að halda á heimili sínu við athafnir daglegs lífs og þarf þá að gera ráð fyrir rými sem aðstoðarfólk þarf að hafa. Við mat á því hver er þörf fatlaðra einstaklinga fyrir rými og aðstæður í íbúðum þar sem þeir búa er því nauðsynlegt að tekið sé fullt tillit til þessa sem og þess viðbótarkostnaðar sem af þessu leiðir.
Fatlað fólk dvelst almennt meira á heimilum sínum en þeir sem ófatlaðir eru. Það má því fullyrða að lífsgæði fatlaðs fólks séu almennt enn háðari því húsnæði sem það býr í en þegar um ófatlað fólk er að ræða.
Íbúð sem fatlaður einstaklingur flyst í verður oft heimili hans til langs tíma og jafnvel ævilangt. Þarfir og kröfur sem geta átt við um byggingu húsnæðis sem ætlað er fólki að búa í um takmarkaðan tíma, s.s. námsmannaíbúðir, eiga því alls ekki við um húsnæði sem ætlað er fötluðu fólki.
Aðgengi að íbúðarhúsnæði
Aðgengi fatlaðs fólks að íbúðarhúsnæði snýst alls ekki bara um íbúðir þar sem það býr. Möguleikar til eðlilegs lífs, þ.m.t. tækifæri til þátttöku í félagslífi og afþreyingu sem fram fer á heimilum fólks ráðast augljóslega alfarið af því að fatlað fólk geti heimsótt annað fólk þar sem það býr sem og að því að það geti athafnað sig þar með eðlilegum hætti og notað salerni án þess að því fylgi óþægilega mikið umstang.
Fatlað barn, svo dæmi sé tekið, sem þarf að nota hjólastól getur ekki farið í afmæli þó að því sé boðið í það ásamt bekkjarfélögum sínum, sem fram fer í íbúð afmælisbarnsins nema aðgengi sé tryggt að íbúðinni og það geti notað salernið þar. Og háskólanemi sem þarf að nota hjólastól getur ekki verið með þegar skólafélagar hans hittast heima hjá einum þeirra til að búa sig undir próf ef aðgengi að íbúðinni er ófullnægjandi eða að salerninu þar.
Lokaorð
Breytingar á reglum sem geta leitt til að fatlað fólk verði að láta sér lynda enn verra húsnæði en því býðst nú sem og breytingar á reglum sem torvelda aðgengi fatlaðs fólks að íbúðarhúsnæði frá því sem er samkvæmt gildandi reglum er mikil afturför sem fer í bága við markmið laga um málefni fatlaðs fólks og meginreglur og markmið samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Slíkar breytingar eru alls ekki í anda samfélags án aðgreiningar og draga úr líkum á að unnt verði að „tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi“, eins og íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að gera og hafa lýst yfir og sett í lög.
Landssamtökin Þroskahjálp skora á alþingismenn og stjórnvöld að gæta mjög vel að þeim skyldum sem þau hafa samkvæmt lögum og mannréttindasamningum til að „tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi“ Þegar þau setja lög og reglur á sviði húsnæðis- og byggingarmála.
Höfundar ertu formaður og framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar.