Ég álpaðist inn á netkönnun hjá einum fjölmiðlinum þar sem maður má taka afstöðu til nokkurra sjónarmiða um forsetaembættið og bera eigin svör saman við svör frambjóðenda. Ein staðhæfingin hljóðar svo:
„Breyta ætti lögum um forsetakjör á þann veg að tvær umferðir þurfi til að forseti nái kjöri. Kjósa ætti á milli þeirra tveggja er hlutu flest atkvæði í fyrri umferð. Þannig mætti tryggja að meirihluti kjósenda hafi veitt forseta Íslands brautargengi."
Ekki er nefnt að hægt sé að breyta kjöri forseta á neinn annan hátt en nákvæmlega þennan. Það er eins og tvennt og aðeins tvennt komi til greina: óbreytt skipan (þar sem hægt er að ná kjöri með litlu fylgi ef atkvæðin dreifast á marga frambjóðendur) eða tvær umferðir (sem tryggja verðandi forseta reyndar engan meirihluta því að fólk getur bæði setið heima og skilað auðu). Og fólk er beðið, bæði við almenningur og frambjóðendurnir sjálfir, að velja á milli þessara vondu kosta.
Vondu? Jú, sko:
Þetta er skrifað daginn sem Austurríkismenn kusu sér forseta. Samt áður en ég frétti úrslitin, því áhyggjuefni mitt er ekki hvern austurrískir kjósendur völdu sér fyrir forseta heldur hvernig þeir voru látnir gera það. Nefnilega með kosningu í tveimur umferðum þar sem aðeins má velja einn frambjóðanda í hvort sinn.
Í fyrri umferð kosninganna voru frambjóðendur sex talsins. Fjöldi sem okkur Íslendingum ætti ekki að ofbjóða, samt nægur til þess að enginn gat raunverulega búist við að ná hreinum meirihluta. Kosningarnar voru því í raun bara undanrás, keppni um hverjir tveir kæmust í úrslit.
Hefðin er sú í Austurríki, þó embætti forseta sé í sjálfu sér ópólitískt, að flokkarnir bjóða fram sín forsetaefni. Í þetta sinn voru fjórir af frambjóðendunum núverandi eða fyrrverandi forustumenn í stjórnmálaflokkum landsins. Þeir sem komust í úrslitin voru fulltrúar flokkanna lengst til hægri og vinstri, hvor um sig pólitískur öfgamaður í augum meirihluta kjósenda. Hvor þeirra sem nær kjöri, þá verður það maður sem minnihluti kjósenda vildi helst og ekki er líklegt að margir hafi viljað næsthelst.
Til að velja tvo keppendur í úrslit forsetakosninganna var þetta heldur slysaleg aðferð. Nær hefði verið að spyrja kjósendur ekki bara hvern þeir vildu helst heldur líka hvern þeir vildu næsthelst. Eins og íslenskur stjórnmálaflokkur myndi gera í prófkjöri um tvö efstu sæti á framboðslista. Keppinautarnir í dag hefðu þá verið þjóðernissinninn sem röskur þriðjungur kjósenda vildi helst, og svo sá af hinum sem flestir kjósendur vildu annaðhvort helst eða næsthelst. Ekki ólíklega Irmgard nokkur Griss, sem er kona óflokksbundin, fyrrverandi forseti hæstaréttar og formaður rannsóknarnefndar um bankahneyksli, en í fyrri umferðinni kom hún rétt á eftir fyrrverandi formanni Græningjaflokksins.
En ef kjósendur hefðu í fyrri umferðinni fengið að segja til um hvern þeir vildu næsthelst, jafnvel líka hvern þeir teldu þriðja bestan o.s.frv., þá hefði reyndar verið óþarfi að halda neina seinni umferð. Í stað þess að endurtaka kosninguna, og það aðeins einu sinni, hefði verið einfalt mál að endurtaka talninguna, kannski þrisvar–fjórum–fimm sinnum, fækka frambjóðendum smátt og smátt og færa atkvæði þeirra sem heltast úr lestinni yfir á þá sem kjósendur þeirra völdu sem næsta kost. Sú aðferð er auðvitað fljótlegri, einfaldari og ódýrari, þegar ekki þarf að efna til nýrra kosninga. Aðalatriðið er þó að með henni má taka mið af vilja fleiri kjósenda og tryggja betur að sem flestir séu nokkurn veginn sáttir við niðurstöðuna.
Erlendis tíðkast hvort tveggja, tveggja umferða kosning, sem t.d. er mikið beitt í Frakklandi, og kosning með forgangsröðun sem á sér ríkasta hefð á Írlandi og í Ástralíu. Í fréttum fer miklu meira fyrir tveimur umferðum. Seinni umferðin er nýjar kosningar og þess vegna ný frétt. Í forgangskosningu er sagt frá kosningabaráttunni og síðan frá úrslitunum án þess að lýsa talningaraðferðinni. Jafnvel þó einhver frétt berist um úrslit samkvæmt „fyrstu tölum“, þá þarf ekki að fylgja sögunni hvort einhver hluti atkvæða er ótalinn eða einhverjar umferðir eftir af talningu úr forgangskosningu.
Ég heyrði t.d. og las talsvert af fréttum um sveitarstjórnarkosningarnar í Bretlandi fyrir stuttu, bæði í hérlendum miðlum og þarlendum, þar sem m.a. vakti mikla athygli borgarstjórakjörið í Lundúnum. En aðeins á einum stað tók ég eftir að nefnd væri kosningaaðferðin, borgarstjórinn valinn með forgangskosningu.
Hér heima verður sama aðferð notuð fljótlega við formannskjör í Samfylkingunni. Og fyrir bráðum sex árum var henni beitt við kosningarnar til stjórnlagaþings, þess sem svo varð að Stjórnlagaráði og samdi frumvarp að nýrri stjórnarskrá. Þar segir um forsetakjör:
„Kjósendur skulu raða frambjóðendum, einum eða fleirum að eigin vali, í forgangsröð. Sá er best uppfyllir forgangsröðun kjósenda, eftir nánari ákvæðum í lögum, er rétt kjörinn forseti."
Þessi tillaga varð ég ekki var við að sætti neinni gagnrýni. Vissulega er stundum bent á að forgangsröðun sé flóknari fyrir kjósendur en að kjósa aðeins einn. Og vissulega hæfir hún miður þeim sem vilja sjá menn og málefni í svörtu og hvítu, vera með eða móti, hugsa „já, minn maður sko!“ og „nei, ekki þessa andskota!“ En Stjórnlagaráð gætti hagsmuna slíkra kjósenda með því að enginn þurfi að raða nema „einum eða fleirum að eigin vali“ – sem sagt heimilt að kjósa bara „sinn mann“ og líta ekki við „þessum andskotum“.
Vissulega hefur ýmislegur ágreiningur risið um stjórnarskrárbreytingar. Sumir vilja breyta sem minnstu, jafnvel alls engu og umfram allt ekki strax. Og sumir hafa efasemdir um einstakar tillögur, t.d. auðlindaákvæði eða þjóðaratkvæðagreiðslur. En um tilhögun forsetakosninga, ef henni verður breytt á annað borð, hef ég ekki vitað nokkurn mann skoða tillögu Stjórnlagaráðs og komast að þeirri niðurstöðu að tveggja umferða kosning sé á einhvern hátt heppilegri.
Samt hefur umræðan núna, í aðdraganda forsetakosninga, öll verið á þeim nótum að tvær umferðir sé einfaldlega hin aðferðin, sú sem við hlytum að taka upp ef okkur líkar ekki meirihlutakosning eftir gildandi reglum. Jafnvel atvinnumenn á fjölmiðlum muna ekki að fleiri kostir séu til.
Hvað er að okkur?