Eðlilega var mörgum brugðið þegar Alþingi samþykkti búvörusamning fyrr í þessari viku. Mikil andstaða hefur skapast gegn gríðarlegum upphæðum sem ríkið greiðir til landbúnaðarins og virðast enda í vasa framleiðenda en hvorki bænda né neytenda.
Fyrir bændur og neytendur
Við í Samfylkingunni komum okkar sjónarmiðum skýrt á framfæri í umræðum um búvörusamningana og náðum þannig fram mikilvægri breytingu sem mun gera okkur kleift að endurskoða kerfið eftir kosningarnar. Breyta á þessu úrelta kerfi sem engum gagnast og hefur Samfylkingarfólk talað fyrir því að taka upp byggðastyrki í stað framleiðslustyrkja, sem tengjast þannig ekki framleiðslunni en viðhalda byggð í landinu. Það gagnast bændum best. Aðalatriðið fyrir neytendur er að auka samkeppni í búvöruframleiðslu og gefa hana frjálsa.
Búvörusamningurinn var upphaflega ætlaður til 10 ára með um 14 milljarða kostnaði á ári, en engin svör var að fá við spurningum okkar um það hvernig neytendur gætu hagnast af samningnum, hvað þá bændur. Nú hefur hann verið styttur niður í þrjú ár og við ætlum leggja allt kapp á breyta kerfinu fyrir þann tíma, og vanda okkur við það.
Við styðjum ekki búvörusamning
Þegar tillaga var lögð fram um að vísa frá búvörusamningnum studdum við hana heils hugar – en hún var felld af þingmönnum hægri stjórnarinnar. Þá hefur Samfylkingin margsinnis lagt fram tillögu á þingi um að samkeppnislög gildi um mjólkuriðnað eins og aðrar atvinnugreinar, og það gerðum við líka nú. Sú tillaga var naumlega felld.
Mikilvægast er samt að við náðum fram þeirri breytingu að samningurinn verður endurskoðaður á næsta kjörtímabili og fulltrúar neytenda munu koma að því ferli, sem ekki hefur verið raunin áður. En það er kristaltært að samningarnir eins og þeir líta út í dag eru á ábyrgð stjórnarflokkanna og þá studdum við í Samfylkingunni ekki.
Höfundur er formaður Samfylkingarinnar.