Fyrr í þessum mánuði ályktuðu Landssamtökin Þroskahjálp um mörg mjög mikilvæg réttinda- og hagsmunamál fatlaðs fólks. Því miður er það allt of margt í þeim málaflokki sem stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga gera ekki nægilega vel og sumt gera þau svo illa að það uppfyllir engan veginn skyldur sem þau hafa samkvæmt lögum, stjórnarskrá, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og öðrum mannréttindasamningum sem Ísland hefur skuldbundið sig til að virða og framfylgja.
Ályktanir samtakanna varða:
- Lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
- Endurskoðun laga um málefni fatlaðs fólks og laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.
- Ábyrgð ríkisins á að fatlað fólk njóti mannréttinda án mismununar og eftirlit með því.
- Notendastýrða persónuleg aðstoð (NPA).
- Almannatryggingar.
- Sjálfstæða mannréttindastofnun.
- Hámarksbiðtíma eftir þjónustu.
- Flóttafólk og vopnuð átök.
- Sérfræðiþjónustu fyrir fullorðið fólk með þroskahömlun, einhverfu eða hreyfihömlun.
- Forgangsröðun sveitarfélaga í þágu mannréttinda fatlaðs fólks.
- Stjórnsýslu í málefnum fatlaðs fólks.
- Fjárveitingar til málefna fatlaðs fólks og skiptingu ábyrgðar milli ríkis og sveitarfélaga.
- Húsnæðismál.
Þessar ályktanir má nálgast og lesa á heimasíðu samtakanna.
Þá sendu samtökin, í samstarfi við Átak, félag fólks með þroskahömlun, nokkrar spurningar til framboða til alþingiskosninga um atriði sem skipta miklu máli fyrir réttindi fatlaðs fólks. Spurningarnar og svörin sem bárust við þeim má nálgast og lesa hér.
Meðal þess sem fram kemur í svörum framboðanna er mikill stuðningur flestra þeirra við að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði tekinn í lög eins og gert var við barnasáttmála SÞ árið 2013. Lögfesting samningsins yrði mikil réttarbót fyrir fatlað fólk og því er þessi stuðningur stjórnmálaflokka við að það verði gert mikið fagnaðarefni. Miðað við svörin og ef stjórnmálaflokkarnir standa við þau ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að samningurinn verði lögfestur á næsta ári.
Í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks er sérstaklega áréttað að „virðing fyrir eðlislægri reisn, sjálfræði einstaklinga, þar með talið frelsi til að taka eigin ákvarðanir, og sjálfstæði einstaklinga“, sé meginregla samkvæmt samningnum. Virðing og tillitssemi á því að vera leiðarljós við alla framkvæmd á ákvæðum samningsins.
Það sem segir í lögum, reglum og mannréttindasamningum skiptir að sjálfsögðu mjög miklu máli. En til að það hafi tilætluð áhrif fyrir lífsgæði og tækifæri fatlaðs fólks verða stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga sem ábyrgð bera á framfylgdinni að taka skyldur sínar mjög alvarlega og haga framkvæmd, skipulagi og forgangsröðun þannig að fatlað fólk af holdi og blóði fái örugglega notið mannréttinda sinna eins og annað fólk. Samtökin telja að of oft og of víða sé misbrestur á því og of oft gleymist sú virðing og tillitssemi sem á að einkenna öll samskipti hlutaðeigandi stjórnvalda við fatlað fólk. Hér skulu nefnd þrjú dæmi.
Ákvæði um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) hafa ekki enn verið tekin í lög þó að stjórnvöld hafi margoft lýst því yfir að það eigi að gera. Þeir sem hafa samninga um NPA-þjónustu og eru mjög háðir henni um alla þátttöku í samfélaginu búa því við algjöra óvissu og óöryggi um stöðu sína og framtíð og þeir sem hafa hug á að sækja um slíka þjónustu geta ekki gert það því að rétturinn til hennar hefur ekki verið lögbundinn. Landssamtökin Þroskahjálp telja að í þessu felist mikið virðingar- og tillitsleysi við fatlað fólk.
Í lögum og reglum um þjónustu við fatlað fólk er ekki mælt fyrir um hámarksbiðtíma fatlaðs fólks eftir þjónustu sem það á rétt til lögum samkvæmt. Ríkisendurskoðun lagði þó í skýrslu sinni til Alþingis árið 2010 mikla áherslu á að stjórnvöld verði að setja slíkar reglur. Biðtími fatlaðs fólks eftir þjónustu sem það á rétt á samkvæmt lögum er oft og víða algjörlega óásættanlegur. Það leiðir til þess að fatlað fólk fær ekki þá þjónustu sem það þarf á að halda sem er forsenda þess að það fái notið annarra réttinda sinna og getið tekið virkan þátt í samfélaginu. Óskilgreindur biðtími leiðir til óvissu fólks um stöðu sína og framtíð og vegur að möguleikum og lagalegum rétti fólks til að bera mál sín undir dómstóla og aðra eftirlitsaðila með stjórnsýslunni en sá réttur er grundvallarþáttur í réttarríkinu. Landssamtökin Þroskahjálp telja að í þessu felist mikið virðingar- og tillitsleysi við fatlað fólk.
Þjónusta við fatlað fólk var flutt frá ríki til sveitarfélaga fyrir 6 árum síðan. Allan þann tíma hefur mjög mikill tími og orka farið í það hjá stjórnmálamönnum og stjórnkerfum ríkis og sveitarfélaga að togast á um ábyrgð á verkefnum og þjónustu og fjármögnun hennar. Þessi sóun á orku og tíma er óásættanleg og mjög ámælisverð þar sem um mjög veigamikil réttindi og hagsmuni fatlaðs fólks er að ræða sem oft ræður algjörum úrslitum um lífsgæði þess og möguleika til þátttöku í eðlilegu lífi. Þetta verður svo enn furðulegra í ljósi þess að oft er um sömu stjórnmálaflokka að ræða sem fara með vald hjá ríki og sveitarfélögum og alltaf er það fé almennings og engra annarra sem togast er á um. Landssamtökin Þroskahjálp telja að í þessu felist mikið virðingar- og tillitsleysi við fatlað fólk.
Í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks segir „aðildarríkin skuldbinda sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og mannfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar.“ Þar segir einnig að í því skyni séu aðildarríkin skuldbundin til að „taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð“ og að stjórnvöld skuli „stuðla að þjálfun og þekkingu fagfólks og starfsfólks, sem vinnur með fötluðu fólki, á þeim réttindum sem eru viðurkennd með samningi þessum til þess að unnt sé að betrumbæta þá aðstoð og þjónustu sem þau réttindi tryggja.“
Landssamtökin Þroskahjálp hvetja hlutaðeigandi stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga til að taka ofangreindar skyldur sínar samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks sem þau hafa nú skuldbundið sig til að virða og framfylgja mjög alvarlega. Einnig skora samtökin á þá alþingismenn sem munu sitja á þingi eftir komandi kosningar og þá ríkisstjórn sem tekur þá við völdum að taka samninginn í íslensk lög á árinu 2017.
Höfundur er formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar.