Frumvarpið sem vill ekki verða að lögum

Björg Árnadóttir segir að niðurstöður nær allra rannsókna sýni að áfengisneysla aukist með einkavæðingu. Annað hvort hafi flutningsmenn frumvarpanna um að gefa sölu þess frjálsa ekki kynnt sér málið eða þeim er sama. Hún kallar eftir frelsi frá áfengi.

Auglýsing

Ég greip ein­tak af The Hindi þegar ég lenti á Kochi flug­velli. Á for­síðu blaðs­ins sagði að þann dag, 1. apríl síð­ast­lið­inn, hafi lög gengið í gildi á Ind­landi sem banna sölu bjórs, víns og sterkra drykkja í versl­un­um, veit­inga­húsum og á hót­elum í ákveð­inni fjar­lægð frá hrað­brautum lands­ins. Í umfjöllun á inn­síðum voru tölur og töflur sem sýndu ann­ars vegar sam­fé­lags­leg áhrif ölv­un­arakst­urs en hins vegar efna­hags­leg áhrif sem bannið er talið hafa á ferða­þjón­ustu og áfeng­is­iðn­að. Einnig var vitnað í ráða­menn sem sögðu að lýð­heilsa vegi þyngra en við­skipta­hags­munir þegar teknar eru ákvarð­anir um svo alvar­leg mál. Ég staldr­aði við þessi ummæli enda óvön því að heiman að heilsa lýðs­ins sé tekin fram yfir hags­muni við­skipta­lífs­ins. 

Bannað að drekka undir sjö­tugu!

Á Íslandi er hópur fólks sem talar fyrir breyt­ingum á áfeng­is­lög­gjöf­inni og leggur ítrekað fram frum­vörp þess efnis sem virð­ast þó ekki geta orðið að lög­um. Stundum ímynda ég mér að sögu­skiln­ingur þeirra sem vilja breyt­ingar sé línu­leg­ur, að þeir haldi að í gamla daga hafi allt verið bannað en nú séu breyttir og betri tímar sem stefna stöðugt í frjáls­ræð­isátt. Árþús­unda löng saga áfeng­is­neyslu og til­rauna til að stemma stigu við henni er þó engan veg­inn svona ein­föld fremur en saga nokk­urs ann­ars fyr­ir­bæris mann­legrar hegð­un­ar. Sagan fer sífellt í hringi og end­ur­tekur sig líkt og öldu­toppur sem breyt­ist í öldu­dal til að verða aftur að öldu­toppi. 

Áfengi var lengi talið guðs­gjöf enda aðal­lega notað í til­beiðslu- og lækn­inga­skyni eða til almennrar neyslu á stöðum þar sem drykkj­ar­vatn var ónot­hæft. Í tæp­lega níu þús­und ára langri sögu áfengra drykkja hefur marg­vís­legum tak­mörk­unum verið beitt til að draga úr neyslu þeirra. Aztekar bönn­uðu til dæmis fólki undir sjö­tugu að drekka gerjað pulpque og lík­lega hefur sú neyslu­stýr­ing ekki verið að ástæðu­lausu! Á ýmsum tíma­bilum sög­unnar hefur drykkju­skapur verið skelfi­legt sam­fé­lags­mein og ekki er óþekkt að almenn­ingur verði fórn­ar­lamb þeirra sem græða á fram­leiðsl­unn­i.  

Auglýsing

Í byrjun nýaldar var óhemju magns af áfengi neytt um gjörvalla Evr­ópu. En sagan finnur alltaf ráð til að taka í taumana og breyta stefn­unni. Drykkju­skapur minnk­aði mjög með iðn­bylt­ing­unni og talið er að það hafi verið vegna þess að fólk gat ekki sinnt sér­hæfðum störfum sífullt. Áður þótti synd í Evr­ópu að verða ölv­aður en með iðn­bylt­ing­unni varð það ógn við fram­leiðni og hag­vöxt, fyr­ir­bæri sem flytj­endum áfeng­is­frum­varps­ins eru að góðu kunn. Á nítj­ándu öld urðu bind­ind­is­hreyf­ingar sterkt póli­tískt bar­áttu­afl og greiddu meðal ann­ars götu kvenna til sam­fé­lags­legra áhrifa. 

Lík­lega eru það bann­ár­in, sem voru hér­lendis 1915-1935, sem vekja þá hug­mynd að í gamla daga hafi allt verið bann­að. Vissu­lega hefur bann við sölu og neyslu áfeng­is, sem og ann­arra vímu­efna, ekki reynst happa­drjúg aðferð til neyslu­stýr­ingar en hins vegar höfum við hér á landi fundið fyr­ir­taks leið til að lág­marka skað­ann sem áhjá­kvæmi­lega fylgir áfeng­is­neyslu. Það vill svo vel til að stærstur hluti þjóð­ar­innar er ánægður með núver­andi áfeng­is­lög­gjöf. 

Frelsi frá áfengi

Hugur minn var bund­inn við áfengi dag­inn sem ég rak augun í umfjöll­un The Hindi. Þann dag átti ég nefni­lega fimm ára edrúafmæli og í edrúsa­mfé­lag­inu er slíkum tíma­mótum fagnað með því að minn­ast gamla leið­inda­lífs­ins þegar sterkara afl en eigin vilji var við völd. Ég var hvorki í erfða­fræði­legum né félags­legum áhættu­hópi þegar ég missti tökin um fimm­tugt heldur sötr­aði í mig sjúk­dóm­inn í hvítvín­inu með humr­in­um. 

Eftir fimm ár í bata er ég nú stödd á Ind­landi að rækta minn and­lega garð og skap­andi hlið­ar. Þessir við­kvæmu þættir fara fyrstir for­görðum þegar lík­ami og sál eru lögð í vín­anda, jafn­vel þótt hann sé af fín­ustu sort. Þegar ég losn­aði úr viðjum vín­and­ans og vand­ans varð ég fyrst um sinn afar upp­tekin af neyð þeirra sem eiga veru­lega um sárt að binda vegna eigin neyslu og ann­arra. Þótt ég væri komin á sex­tugs­aldur hafði ég ekki þekkt nema af afspurn átak­an­legar afleið­ingar þessa við­ur­kennda vímu­efn­is. Í dag er hugur minn hins vegar meira hjá öðrum afar stórum hópi; öllum þeim sem lifa undir getu­mörkum bak við fín­púss­aða fram­hlið hvers­dags­lífs­ins, þeim sem aldrei geta orðið veru­lega ham­ingju­samir né náð fullum árangri í lífi og starfi vegna þess að orkan fer í drykkj­una og felu­leik­inn sem henni fylg­ir. Rann­sóknir sýna að fyr­ir­hug­aðar breyt­ingar muni auka enn ógæfu þessa hóps en jafn­framt að rýmkun á aðgengi eykur alltaf vand­ann mest þar sem hann er verst­ur.  

Töl­fræði og til­finn­ingar

Eftir klukku­tíma dvöl á Ind­landi hafði ég með lestri dag­blaðs fengið gleggri töl­fræði­lega mynd af afleið­ingum breyt­inga á áfeng­is­lög­gjöf en ég hef fengið í enda­lausri umræð­unni heima. Í fyrra skrif­aði ég grein í Kjarn­ann í til­efni þáver­andi frum­varps og síðan hef ég ítrekað lent í því að ókunn­ugt fólk leitar til mín eftir töl­fræði­legum gögnum um áfeng­is­neyslu. Á því sviði er ég eng­inn sér­fræð­ingur enda langar mig meira til að varpa til­finn­inga­legu ljósi á vand­ann en töl­fræði­legu. Ég bendi fólki samt á þann fróð­leiks­brunn sem er að finna í athuga­semdum við frum­vörpin á vef Alþing­is, fróð­leik sem ég sé sjaldan flíkað í almennri umræðu. Má þar nefna rann­sóknir Hildig­unnar Ólafs­dóttur, afbrota­fræð­ings, sem stundað hefur áfeng­is­rann­sóknir frá árinu 1972 og skoðað sér­stak­lega erlendar rann­sóknir um áhrif einka­væð­ingar á sölu áfeng­is. Helstu nið­ur­stöður Hildig­unnar eru þær að nær allar rann­sóknir sýni að áfeng­is­neysla vex með einka­væð­ingu. Ann­að­hvort hafa flutn­ings­menn frum­varpanna ekki kynnt sér málið eða þeim er sama. Mér finnst ég höfð að fífli.  

Ég hef á til­finn­ing­unni að þeir sem vilja breyt­ingar á áfeng­is­lög­gjöf­inni haldi að skerð­ingar á aðgengi séu aðeins þekktar á Norð­ur­löndum auk Arabaland­anna. Svo er auð­vitað ekki heldur gilda marg­vís­leg lög og reglur víða um heim eins og einnig kemur fram í rann­sóknum Hildig­unn­ar. Í Was­hington-­fylki Banda­ríkj­anna var sala áfengis til dæmis ekki einka­vædd fyrr en árið 2012 eftir atkvæða­greiðslu árið 2011. Í könnun sem gerð var tveimur árum síðar kom í ljós að íbúar hefðu ekki kosið einka­væð­ingu aftur yfir sig að feng­inni reynslu. Ástæðan sem flestir gáfu upp fyrir breyttri afstöðu var sú að þeir vildu ekki hafa áfengi stöðugt fyrir aug­un­um. Fólk vill frelsi frá áfengi.

Víð­tæk áhrif vín­s­ins

Áður en ég fór til Ind­lands heim­sótti mig sænsk vin­kona, Lillemor, sem ákvað að koma til Íslands af því að hún þekkti engan annan en mig sem talar opin­skátt um alkó­hól­isma. Svíar eru ekki eins dug­legir við það og Íslend­ing­ar. Lillemor er á átt­ræð­is­aldri en nýlega ákvað hún að hún vildi ekki lengur vera í hlut­verki litlu mömm­unnar og yfir­gaf drykk­felldan lífs­föru­naut sinn. Hún hafði þó ekki áttað sig á því fyrr en hún var laus úr aðstæð­unum hvað Bakkus hafði breytt per­sónu­leika hennar þótt sjálf hafi hún ekki smakkað vín í ára­tugi. Íslenska edrúsa­mfé­lagið, huldu­her alkó­hólista og aðstand­enda, umvafði Lillemor skiln­ingi og vakti hana til vit­undar um að drykkju­vandi fyrr­ver­andi maka stjórn­ar ennþá lífi henn­ar. Dag­inn sem ég lenti í Kochi fékk ég skila­boð frá Lillemor. Hún vildi láta mig vita að hún hefði leitað sér hjálpar í heima­land­inu. Áfengi hefur víð­tæk­ari áhrif en margan grun­ar. 

Svo virð­ist sem tvær stað­reyndir um áfeng­is­neyslu séu fólki yfir­leitt ekki kunn­ar. Önnur er sú að Íslend­ingar drekka minna en nágranna­þjóð­irnar og áfeng­is­tengdir sjúk­dómar aðrir en alkó­hól­ismi eru til­tölu­lega óal­gengir hér. Slá­andi dæmi um það er tíðni skorpulifrar á Íslandi og í Dan­mörku. Hér­lendis grein­ast þrjú til­vik á hverja hund­rað þús­und íbúa en í Dan­mörku eru þau tutt­ugu og sex. Erfitt hefur reynst að afsanna að ekki séu bein tengsl á milli tíðni skorpulifrar og fyr­ir­komu­lags áfeng­is­út­sölu en í Dan­mörku er áfengi sem kunn­ugt er selt í mat­vöru­versl­un­um. 

Hin er sú að Ísland er eitt þeirra landa þar sem neysla fer vax­andi (sjá töflu á bls.10). Sala áfengis jókst í góð­ær­inu, dróst saman við hrunið en vex nú aftur með batn­andi hag og fleiri neyt­end­um. Vax­andi neyslu fylgja alltaf kröfur um lægra verð og betra aðgengi sem aftur leiðir til auk­innar neyslu. Það væri veru­lega van­hugsað að leggja niður fyr­ir­komu­lag sem vitað er að lág­markar skað­ann. Fyrir því hef ég ekki séð önnur rök en að halda þurfi áfengi til Haga. Og Cosco. Vissu­lega eru við­skipti heil­brigt hreyfi­afl en í þessu til­viki er stefnt að setn­ingu laga til höf­uðs lýð­heilsu. Heill, ham­ingju og heilsu þjóðar er fórnað fyrir þrönga hags­muni. Viljum við lúta stjórn Mamm­ons og Bakkusar?

Veljum frelsið

Satt að segja veit ég ekki af hverju ég er að eyða tíma mínum hér í mildu mann­líf­inu undir Ind­íasól þar sem fólk virð­ist hugsa til sín heilsu og anda að sér jafn­vægi í að skrifa aðra grein um áfeng­is­frum­varp­ið. Ég held að hennar sé ekki þörf af því að frum­varpið verður aldrei að lög­um. Sam­þykki Alþingi það hljóta þau tæp­lega átta­tíu og sjö þús­und sem skrif­uðu undir bæna­skjal um end­ur­reisn heil­brigð­is­kerf­is­ins að fara fram á þjóð­ar­at­kvæða­greiðslu vegna þess að vitað er að fátt holar það kerfi meira að innan en aukin áfeng­is­neysla. Ég skrifa því ekki þessa grein af því að ég hafi áhyggjur af frum­varp­inu sem vill ekki verða að lög­um, ég skrifa hana frekar til að hvetja til enn opn­ari umræðu um afleið­ingar alkó­hól­isma. Í sögum okkar býr lausn og bati en líka for­varn­ir. Sög­urnar eru lyk­ill að heil­brigð­ara sam­fé­lagi. Segjum þær.  

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar
None