Stundum hvarflar að manni að meirihlutanum í Reykjavík finnist grunnþjónustuverkefnin ekki nógu spennandi, allavega ekki eins spennandi og þeim ættu að finnast þau því ekki eru þau unnin nógu vel. Það er bæði vond afstaða og mikill misskilningur. Fyrir liggja fjölmörg tækifæri til nýrra nálgana til betri þjónustu og þau eru síður en svo ekki spennandi. Eina sem þarf er viljinn til að sjá þau og skoða og síðast en ekki síst þarf vilja til að gefa þeim svigrúm innan kerfisins.
Nýsköpun til að auka gæði þjónustu
Til staðar er stórt ákall um breytingar í þessum efnum og þar nánast hvert sem litið er innan þjónustu borgarinnar, hvort sem frá þjónustu til eldri borgara eða leikskólabarna. Þar er af mörgu að taka en það sem öll þjónustan á sameiginlegt er að alls staðar þarf að horfa til starfsmannamála og umhverfi starfsfólksins sem veitir þjónustuna. Mannekla og mikil veikindi, meðal annars vegna álags, er mál sem þarf til dæmis að komast á dagskrá. Því miður hefur meirihlutinn fellt tillögur mínar þess efnis.
Nýsköpunarumhverfi er lykilorð. Orð sem oft er talið vera pólitísk tískuorð en lýsir engu að síður því sem vantar og þarf að innleiða. Nýsköpun er háð því að stjórnendur og starfsmenn hafi frelsi og getu til að prófa nýjar hugmyndir og leiðir til að nálgast verkefni sín. Starfsumhverfið, viðhorf og menning innan fyrirtækjanna geta þar skipt sköpum. Nauðsynlegt er að rekstrarumhverfi verði tekið til sérstakrar skoðunar hvað þetta varðar. Fjárfesta þarf í breytingum sem hvetja fólk til að ná meiri árangri, gæðum og gleði. Umhverfið verður að gefa nægt rými til nýsköpunar, hvetji til jákvæðra samskipta, frumkvæði og lausnamiðaðri hugsun.
Í leiðinni verður að auka það svigrúm sem stjórnendur hafa til að mæta álagi á starfsfólk vegna manneklu og veikinda. Stjórnendur eiga til dæmis að hafa frelsi til að umbuna starfsmönnum. Stjórnunarumhverfið verður að vera þannig að það sé hvetjandi fyrir alla starfsmenn til að vinna að betri lausnum og bæta þjónustuna. Ef ákveðinn leikskóli hefði til að mynda fjárhagsramma til að vinna úr sjálfur og sjálfstætt gætu viðkomandi skólastjórnendur leyst þann vanda í stað þess að alltaf sé beðið eftir að borgarstjórn ákveði og stýri miðlægt hvernig bregðast skuli við, aðferð sem er einfaldlega ekki að skila árangri.
Þetta segir sig í raun sjálft þar sem auðvitað er farsælla að fólkið sem þekkir störfin fái að þróa þau. Nýsköpun í skólastarfi getur einnig leitt til þess að í stað þess að einblína á það að fjölga kennurum mætti velta fyrir sér hvernig umhverfið þyrfti að breytast þannig að hægt væri að kenna með sama fjölda kennara. Kannski má þannig nota fjármagnið og mannauðinn á skynsamlegri hátt með betri menntun.
Svigrúm til einkareksturs í þágu allra
Þar sem opinbera kerfið hefur verið tregt til að losa um miðstýringu kerfisins með sveigjanlegri lausnum er ekki hægt að ræða um nauðsyn nýsköpunar í þjónustu án þess að nefna svigrúm til einkareksturs.
Vinstri menn á Íslandi eru leynt og ljóst á móti því að gera sjálfstæðum aðilum kleift að taka að sér rekstur grunnþjónustu. Rök þeirra eru m.a. þau að slíkt fyrirkomulag leiði til mismunandi þjónustu, þar sem hinir efnameiri fái meira en þeir efnaminni. Þrátt fyrir þau mótrök, að þannig fái allir betri þjónustu, er lítil hreyfing á málinu.
Í Reykjavík er skortur á þjónustu fyrir börn, fatlaða, aldraða og aðra sem þurfa á aðstoð að halda. Þrátt fyrir að það sé lögbundin skylda sveitarfélagsins að veita þjónustuna eru biðlistar því miður staðreynd. Þjónustuþörf í Reykjavík vex mjög hratt. Hér búa margir sem þurfa á hjálp að halda og öldruðum á eftir að fjölga gríðarlega á næstu áratugum. Því er ljóst að við verðum að skoða vandlega hvernig við nálgumst það verkefni að veita mannsæmandi lögbundna grunnþjónustu.
Eitt stærsta verkefni Reykjavíkurborgar næstu ár er að takast á við breytingar á samfélaginu. Því miður hefur meirihlutinn í Reykjavík verið áhugalaus um að taka rekstur og útfærslu grunnþjónustunnar í Reykjavík til gagngerrar skoðunar. Engu að síður eru mörg teikn um að slíkt sé óhjákvæmilegt til þess að hægt verði að veita lögbundna þjónustu í næstu framtíð og mæta fyrirsjáanlegri aukinni þörf. Í því skyni er full ástæða til að líta til velferðarsamfélaganna annars staðar á Norðurlöndum. Við eigum að nýta það sem vel hefur gefist til þess að bæta þjónustuna en láta ekki rakalausar kreddur standa í vegi fyrir eðlilegum og nauðsynlegum umbótum.
Það hefur verið mitt hjartans mál að innleiða slíkar breytingar í Reykjavík og mun ég leggja mig alla fram um að fylgja þeim og öðrum framfararbreytingum eftir í þágu okkar allra. Opnum hug og einföldum málin – og látum þjónustuna í borginni virka.
Höfundur er borgarfulltrúi og frambjóðandi í leiðtogakjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík