Mér hefur lengi verið mjög annt um valddreifingu, hugmyndina um að einstaklingar eiga að hafa vald yfir sér sjálfir. Mér hefur þar af leiðandi fundist verið mér nokkuð furðulegt þegar ég rekst á fólk sem finnst það bara eðlilegt að hafa völd yfir öðru fólki. Þetta lyktar á tímum alveg svakalega af leifum þess gamla tíma þegar sumum þótti eðlilegt að hafa algjört vald yfir öðru fólki. En þegar við lítum fram á við þá þætti mér það eðlilegt að fólk hafi meira að segja um eigin frelsi og framtíð frekar en minna. Ef við stefnum í þá átt að fólk hafi minna að segja um eigin frelsi og framtíð þá erum við farin að horfa aftur til fortíðar.
Þetta virðist vera nokkuð algengt hjá sumum stjórnmálamönnum, að horfa frekar til fortíðar sem er oftast sett í einhverskonar glansímynd sem var aldrei til. Borgarfulltrúar þurfa helst að vera jafn margir og þegar Reykjavík var smábær, byggja þarf fleiri hverfi og leggja niður nokkrar nefndir og svið, og fækka skal starfshópum og starfsmönnum. Það var engin þörf fyrir þessu á árum áður, af hverju er þá þörf á þessu núna? Þetta er allt boðað í nafni þess að gera rekstur Reykjavíkurborgar skilvirkari og minnka kostnað.
Þegar gögnin eru hins vegar skoðuð, er auðvelt að sjá að slíkar fullyrðingar eru byggðar á sandi. Fleiri hverfi munu þýða meira fjármagn í innviði og aukna umferð um stofnæðar borgarinnar. Færri borgarfulltrúar munu þýða meiri samþjöppun á valdi ásamt því að borgarfulltrúar munu hafa minni tíma til að sinna sínum verkefnum, og haldið verður áfram að sækja utanaðkomandi aðila til að manna nefndir borgarinnar. Því hefur líka verið flengt fram að lítil þörf sé á mannréttindaráði, eða stjórnkerfis- og lýðræðisráði. Hvernig á þá að fylgja eftir mannréttindamálum í borginni? Hvernig á að tryggja aðkomu borgara að ákvarðanatöku hjá Reykjavíkurborg?
Það er greinilega brýn þörf á að hætta þessari fortíðardýrkun og horfa frekar til framtíðar, þar sem almenningur hefur aðkomu að ákvarðanatöku, þar sem ákvarðanir eru byggðar á bestu mögulegu upplýsingum. Stjórnmál á Íslandi eru að mörgu leyti komin á þann stað að þau eru eins og bíll sem er fastur í drullupolli. Það þýðir ekki að halda áfram að spóla í sama fari og halda að maður komist á endanum leið sína, það er nauðsynlegt að nota nýjar aðferðir.
Píratar í borginni hafa unnið markvisst á undanförnu kjörtímabili að koma að breyttum nálgunum þegar kemur að ákvarðanatöku borgarinnar. Hvergi er það sýnilegra en í lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar sem við höfum þrýst á og verður að öllum líkindum samþykkt í borgarstjórn fyrir lok kjörtímabilsins. Lýðræðisstefnan mun tryggja skýra og aðgengilega upplýsingagjöf til borgara og koma af stað gagnsjá Reykjavíkurborgar þar sem borgarar (og ekki síður borgarfulltrúar) munu geta fylgst með stöðu mála í borgarkerfinu, gert athugasemdir, eða sent inn fyrirspurnir til að tryggja að mál festist ekki í kerfinu. Þetta er raunveruleg leið til að gera borgina skilvirkari ásamt því að draga úr rekstrarkostnaði. En þeir sem horfa til fortíðar virðast enn sem komið er hafa lítinn áhuga á þessu.
Höfundur er frambjóðandi í prófkjöri Pírata í Reykjavík.