Í síðustu viku kom út skýrsla starfshóps forsætisráðherra, sem skipaður var í upphafi ársins: „Efling trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu“. Ekki þarf að hafa mörg orð um þörfina á slíkri úttekt í því andrúmslofti vantrausts sem hver könnunin af annarri hefur staðfest að umlykur alþingi og stjórnsýsluna alla og hefur gert frá hruni. Skýrslan er um margt góð og vel unnin, en það er forvitnilegt að skoða efni hennar út frá þeim flokkum sem skipa þá ríkisstjórn sem forsætisráðherra er í forsvari fyrir. Í skýrslunni er fjallað um ýmsa þætti sem varða traust, spillingu og varnir gegn spillingu: Siðareglur, gagnsæi, uppljóstrara, fræðslu, en þeir þættir sem mig langar að fjalla um hér eru hagsmunaárekstrar, samskipti við hagsmunaaðila og lýðræðislegt samráð.
Hagsmunaárekstrar og samskipti við hagsmunaaðila
Það er í sjálfu sér stórmerkilegt að í flestum málum sem varða hagsmunaárekstra, og mögulegt misferli þeim tengt, á formaður stærsta flokks Íslands, Bjarni Benediktsson, hlut að máli. Tenging hans við atvinnulífið og möguleg misbeiting trúnaðarupplýsinga úr stjórnsýslunni, meðferð hans sem ráherra á upplýsingum um aflandsfélög, auk þess að hafa átt a.m.k. eitt slíkt sjálfur, svo fátt eitt sé nefnt. Í nágrannalöndum okkar væri hvert og eitt mál út af fyrir sig nóg til að ráðamenn stigju til hliðar. Það snýst ekki einu sinni um hvort hann hafi gert eitthvað misjafnt – eins og nefnt er í áðurnefndri skýrslu skiptir ásýndin máli og allt þetta hefur stórskaðað ímynd Alþingis og íslenskrar stjórnsýslu. Önnur möguleg spillingarmál tengd Sjálfstæðisflokknum eru lekamál Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, tengsl Illuga Gunnarssonar við Orku Energy og Sigríður Andersen og landsréttarmálið.
Þótt gerendurnir í mörgum stærstu spillingarmálum Framsóknarflokksins, eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (Wintris-málið) og Finnur Ingólfsson (ýmsir vafasamir gjörningar þar sem ítökum í pólitík var beitt til persónulegs hagnaðar), hafi yfirgefið Framsóknarflokkinn, þá er flokkurinn ennþá þátttakandi í mestu kerfislægu spillingu á Íslandi í dag, íslenska kvótakerfinu. Það var formaður flokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, sem afhenti stórútgerðum makrílkvóta árið 2015 á gjaldi sem er u.þ.b. fjórðungur af því gjaldi sem Færeyingar eru að fá fyrir sinn makrílkvóta á uppboði. Þar með tryggði hann stórútgerð landsins gríðarlegan hagnað um ókomna tíð, þar sem segja þarf upp þessum samningi með 6 ára fyrirvara.
Nú, þegar hillir undir opnun Vaðlaheiðarganganna, má rifja upp aðkomu Steingríms Sigfússonar, stofnanda og þingmanns VG, að þeim gjörningi, þar sem Vaðlaheiðargöngum var skotið fram fyrir aðrar vegaframkvæmdir sem einkaframkvæmd, sem ríkið þó ber raunverulega ábyrgð á, eins og ljóst er nú, þegar framkvæmdin er komin langt fram úr áætlun. Þetta er nokkuð augljóst dæmi um spillingu – stuðningur flokksins við stóriðju á norðurlandi er kannski á gráu svæði, en örugglega svik við marga kjósendur flokksins og ekki til að stuðla að trausti í stjórnmálum.
Lýðræðislegt samráð
Í skýrslunni er fjallað um vaxandi kröfu um lýðræðislegt samráð, ekki aðeins á Íslandi, heldur víða um heim. Þar er fjallað um viðleitni m.a. Reykjavíkurborgar til slíks samráðs, með Betri Reykjavík og aðkomu fólks að ráðstöfun fjár til ýmissa verkefna. Krafan um lýðræðislegt samráð á landsvísu hefur verið sterk á Íslandi frá hruni og birtist m.a. í ferli við mótun nýrrar stjórnarskrár stjórnlagaráðs. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur léku lykilhlutverk í að stöðva það ferli, auk þess að koma í veg fyrir að almenningur fengi að taka ákvörðun um hver staða okkar innan Evrópu ætti að vera. VG hefur að auki ekki haft sig mikið í frammi í þessum málum. Ef verkin tala, þá er þetta ólíklegasta mögulega ríkisstjórnin til að koma á auknu lýðræðislegu samráði á Íslandi.
Lokaorð
Í þessari ríkisstjórn koma saman þau öfl á Íslandi sem er mest umhugað um óbreytt ástand hvað varðar mörg stærstu álitamál íslensks þjóðfélags, ekki síst pólitíska kerfið sjálft. Vandinn með traust verður ekki leystur innan kerfis sem er sjálft hluti af vandanum. Eins og áður segir, þá er skýrslan ágætlega unnin og gott plagg. Spurningin er hins vegar hvort þessir flokkar séu þeir líklegustu til þess að hrinda í framkvæmd umbótum á þeim ágöllum sem hún bendir á, flokkar sem sjálfir bera mikla ábyrgð á þeim skorti á trausti sem nú ríkir. Það verður allavega forvitnilegt að fylgjast með þessari vegferð, þar sem segja má að haltur leiði blindan.
Höfundur er framkvæmdastjóri Múltikúlti íslensku, stundar meistaranám í heimspeki og er Pírati.