Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í Kryddsíld Stöðvar 2 á gamlársdag að einungis 1% af starfandi fólki væri á lágmarkslaunum á vinnumarkaði.
Þetta er eins villandi og nokkuð getur verið!
Umsamin lágmarkslaun á árinu 2017 voru 280 þúsund krónur og á árinu 2018 voru þau 300 þús. kr. á mánuði.
Samkvæmt launakönnunum Hagstofu Íslands voru árið 2017 tæplega 40% fullvinnandi verkafólks með umsamin lágmarkslaun eða minna í grunnlaun.
Helmingur verkafólks var með 301.000 kr. eða minna í grunnlaun og 384.000 í regluleg laun (að teknu tilliti til álags vegna vaktavinnu og eftirvinnu, fastrar yfirvinnu bónusa og kostnaðargreiðslna). Inn í það mat vantar þó láglaunafólk í ferðaþjónustu, sem er stór hópur og mat Hagstofunnar telst því vera í neðri kantinum.
Ef horft er yfir allan almenna vinnumarkaðinn voru 20% með 304 þús. kr. á mánuði eða minna í grunnlaun og 379 þús. í regluleg laun samkvæmt nýjustu launakönnun Hagstofunnar.
En þá mæta menn fjármálaráðherranum sem tekur 36,9% af yfirvinnutekjum láglaunafólks í staðgreiðslu tekjuskatts. Ríka fólkið sem bætir við sig fjármagnstekjum greiðir hins vegar einungis 22% af þeim í beina skatta (fjármagnstekjuskatt) – óháð tekjuupphæð.
Skattlagning fátæktarkjara
Árið 1996 og fyrr voru lágmarkslaun á vinnumarkaði, sem og óskertur lífeyrir TR, skattfrjáls í tekjuskattskerfinu.
Í dag greiðir fólk á lágmarkslaunum hins vegar umtalsverðan tekjuskatt af launum sínum – jafnvel þó launin dugi ekki fyrir lágmarks framfærslukostnaði samkvæmt viðmiði velferðarráðuneytisins.
Það er afleiðing af því að skattlagning lægstu launa hefur aukist umtalsvert umfram skattbyrði hæstu tekjuhópa frá 1996 til 2018 (sjá um það hér og skýrslu ASÍ frá 2016).
Skattlagning lágra launa setur því stórt strik í afkomu láglaunafólks á Íslandi nú á dögum.
Þetta er sýnt í meðfylgjandi töflu sem sýnir tekjur, staðgreiðslu og framfærslukostnað hjá einstaklingum sem eru með laun á bilinu 275.000 og 525.000 krónur á mánuði. Allar tölurnar í töflunni miðast við árið 2018.
Af töflunni má sjá að vegna beinnar skattlagningar launa, allt að 500 þúsund krónum á mánuði, þá duga tekjurnar ekki fyrir framfærslukostnaði, eins og velferðarráðuneytið hefur metið hann (sjá dálkinn „Afkoma”, lengst til hægri).
Sá sem er með 300 þús. kr. á mánuði (lína 2) fær útborgaðar 235.508 krónur eftir skatt og iðgjöld í lífeyrissjóð. Framfærslukostnaður hans án húsnæðiskostnaðar er 228.850. Ef bætt er við algjörum lágmarks húsnæðiskostnaði (125 þús. kr. á mán.) þá er framfærslukostnaður 353.000 kr. og viðkomandi í mínus sem nemur 117 þúsund krónum í hverjum mánuði.
Menn þurfa í reynd að vera með nærri 500 þúsund krónur í laun/tekjur á mánuði (fyrir skatt) til að eiga fyrir lágmarks framfærslukostnaði á Íslandi, sem vel að merkja er nú sá dýrasti í Evrópu.
Sá sem er með 425 þúsund krónur á mánuði, sem er krafa verkalýðshreyfingarinnar um lágmarkslaun fyrir lok næsta samningstímabils, er samt með neikvæða afkomu upp á 41.800 krónur á mánuði – vegna skattheimtunnar.
Stjórnvöld horfist í augu við staðreyndir – og taki á vandanum
Til að brúa bilið og ná endum saman í afkomunni þarf láglaunafólk því bæði kauphækkun og lækkun beinna skatta – eins og fram kemur í kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar.
Þetta er hin raunsanna mynd af afkomu fólks sem er í lægri enda tekjustigans. Staðan í efri hluta tekjustigans á Íslandi er hins vegar ein sú albesta á Vesturlöndum, meðal annars vegna tiltölulega lágra skatta á hæstu tekjur hér á landi.
Þegar fjármálaráðherra segir að einungis 1% vinnandi fólks sé á lágmarkslaunum þá er hann ekki einungis að villa stórlega um fyrir fólki, heldur horfir hann einnig framhjá því hvernig skattkerfið (sem hann stýrir) fer með afkomu láglaunafólks. Sú meðferð hefur versnað umtalsvert á stjórnartíma hans, frá 2013 til 2018.
Stjórnvöld hafa nú lofað að breyta skatta- og bótakerfinu svo það bæti afkomu þeirra lægst launuðu og lægri millihópa.
Taflan hér að ofan gefur skýra mynd af því verkefni sem við blasir, ef menn eiga að geta náð því að lifa af heildarlaunum undir 500 þúsund krónum á mánuði – í dýrasta landi Evrópu.
Framlag stjórnvalda, með lækkun skatta á lægri tekjuhópa, þarf því að vera umtalsvert og ná vel upp eftir millitekjuhópunum.
Það er fjármálaráðherra ekki sæmandi að gera lítið úr erfiðleikum láglaunafólks við að láta enda ná saman.
Höfundur er prófessor við HÍ og sérfræðingur í hlutastarfi hjá Eflingu stéttarfélagi.