Sagði hún af sér? Sté hún til hliðar? Sté hún af sér? Hvernig fór þetta eiginlega? Er hún enn ráðherra en samt ekki? Eða er hún hætt sem ráðherra en samt einhvern veginn enn „til hliðar“? Og Landsréttur: verður hann óbreyttur eða albreyttur? Eða smábreyttur? Gilda dómar hans? Eða stígur hann til hliðar? Hvernig verður þetta eiginlega allt saman?
Við vitum þetta eitt: Valdið býr í óvissunni. Sá sem er óútreiknanlegur stjórnar atburðarásinni. Þeir koma hver af öðrum lögspekingarnir, jafn öruggir og vissir eins og iðnaðarmenn að útskýra fyrir okkur fávísum hvernig eigi að gera þetta – og engir tveir með sömu ráð.
Þeir eru að tala um grundvallaratriði í stjórnskipun landsins; sjálft réttaröryggið.
Þær stundir hafa komið að manni hefur þótt eins og stjórnskipan landsins sé spunnin áfram frá degi til dags; íslenskt samfélag sé hreinlega impróvíserað jafnharðan. Og þannig vilji þeir hafa þetta. Kannski er þetta ein ástæðan fyrir því að svo hægt gengur að ljúka stjórnarskrárvinnunni: það sé hreinlega valdamiklum öflum kappsmál að hafa stjórnarskrána – grunnlögin – hæfilega óljós og ófrágengin til að hægt sé að spinna landstjórnina eins og hentar hverju sinni með snjöllum og hugkvæmum túlkunum.
Því valdið býr í óvissunni.
Stundum segja stjórnmálamenn eitt og meina annað. Margir tala þeir um „stöðugleikann“ sem svo mikilvægt sé að „varðveita“. Stöðugleika? Með krónu sem lýst hefur verið að það sé eins og að vera fastur inni í harmonikku á sveitaballi að búa við hana; með réttarkerfi þar sem enginn veit hvort millidómstigið er fært um að sinna sínu hlutverki; með dómsmálaráðherra sem enginn veit hvort sagði af sér, sté til hliðar eða skrapp bara í smápásu ...
Íslenskir valdamenn haga sér eins og það sé algjört forgangsmál þeirra að varðveita óstöðugleikann.
Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.