„...Þessi kona ætti ekkert erindi norður yfir heiðar“
(Samherjaforstjórinn við rektor Háskólans á Akureyri)
„Þessi kona“ er Dr. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, höfundur bókarinnar „Spegill fyrir skuggabaldur – atvinnubann og misbeiting valds“. Hún hafði það til saka unnið að sækja um auglýst starf við Háskólann á Akureyri. Það var samt ekki rektor háskólans, sem viðhafði þessi valdsmannslegu ummæli. Nei, það var Samherjaforstjórinn, sem virðist nú orðið líta svo á, að yfirráðasvæði hans sé allt landið og miðin.
Þrátt fyrir eindregin meðmæli og samþykkt hug- og félagsvísindasviðs háskólans, var Ólínu hafnað. Hvers vegna? Hún hafði setið á Alþingi Íslendinga, þar sem hún var eindreginn talsmaður þess, að þjóðin fengi arð af útdeildum einkaleyfum til nýtingar á fiskveiðiauðlindinni, sem að lögum er sameign þjóðarinnar. Þetta þykir sjálfsagt mál í Namibíu en hin mesta ósvinna á Íslandi. Hér hafa fáeinar fjölskyldur hagnast um hundruð milljarða s.l. tvo áratugi, í skjóli pólitísks valds. Það var vitað fyrir, að LÍÚ (SFS) – klíkan hefði hundelt þaulreynda sjómenn fyrir að hafa gagnrýnt gjafakvótakerfið (sjá bls. 25-28) og það án þess að Sjómannafélagið hreyfði legg né lið þeim til varnar. En háskólasamfélagið – ætluðu þeir að ráða því líka?
Þetta dæmi um ofríki Samherjaforstjórans gagnvart mannaráðningum í háskólasamfélaginu er jafnvel vítaverðara en framkoma varðhundakerfisins gagnvart umsækjendum um störf í opinberri stjórnsýslu af þeirri einföldu ástæðu, að Samherjaforstjóranum var málið með öllu óviðkomandi. Sér í lagi ef vitað var, að hinir nýríku sægreifar hefðu gaukað einhverju lítilræði að háskólanum til að kaupa sér áhrif. Dæmi um hefðbundna misbeitingu valds við mannaráðningar í hinni opinberu stjórnsýslu er hins vegar, þegar kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu, að brotin hefðu verið lög á Ólínu, með því að meirihluti Þingvallanefndar hafnaði umsókn hennar um starf Þjóðgarðsvarðar. Sú niðurstaða var svo afdráttarlaus, að hún bakaði ríkinu bótaskyldu, sem nam 20 milljónum króna. Lýsing Ólínu á þeim aðförum (sjá bls. 90) er eftirminnileg.
„Lyklarnir að ríkisfjárhirslunni“
En ef menn halda, að bók Ólínu sé einhver reiðiþrugin þrætubók gegn þeim, sem hún á óuppgerðar sakir við, þá er það mesti misskilningur. Hún nefnir til sögunnar milli 20 og 30 dæmi um misbeitingu ráðningarvalds, hvort heldur er í einkageiranum eða í opinberri stjórnsýslu. Það styður niðurstöðu rannsóknar Gunnars Helga Kristinssonar, stjórnmálafræðings, frá árinu 2006, sem komst að þeirri niðurstöðu, að um helmingur embættaveitinga á vegum hins opinbera á umræddu tímabili hefðu tekið mið af flokksaðild eða flokkshollustu umfram hæfni. Umfjöllun Ólínu er málefnaleg. Hún færir fram veigamikil rök í hverju tilviki. Textinn er hnitmiðaður og laus við siðferðilega umvandanir. Lesendum er ætlað að draga sínar ályktanir sjálfir.
Hér koma margir við sögu: Skipstjórar, ráðuneytisstjórar, sendiherrar, fyrrverandi þingmenn, dagskrárgerðarmenn ríkisútvarps, jafnvel starfsmenn þjóðkirkju, svo að nokkrir séu nefndir. Einna dapurlegust eru afskipti stjórnmálamanna af störfum fréttamanna, hvort heldur er hjá RÚV eða einkareknum miðlum. En spillingin er miklu víðtækari en þetta. Oftast nær er hún ósýnileg öllum almenningi og fer fram bak við byrgðar dyr. Ólína kemur því vel til skila með eftirfarandi orðum:
„Í huga almennings eru mútur yfirleitt beinharðar peningagreiðslur til opinberra embættismanna eða kjörinna fulltrúa, sem tryggja tiltekna hagsmuni sem þjóna greiðandanum. En mútur eru ekki bara peningabúnt, sem laumað er úr sveittum lófa í þvældan jakkavasa á skítugu hótelherbergi. Þær geta verið með ýmsu móti, bæði beinar og óbeinar. Eða hvernig ber að líta á það, þegar kjörnir stjórnmálamenn, sem fengið hafa yfirráð yfir almannasjóðum, deila þaðan út gæðum og gjöfum – embættum, lóðum, byggingarétti, verkefnasamningum – gegn tilætlun um fylgispekt eða „greiða á móti greiða“? Í öllu falli er óhætt að kalla það spillingu, og hún fær þrifist í skjóli andvaraleysis, leyndar og slælegs aðhalds.“ (Sjá bls. 128).
Þessi orð Ólínu endurspegla kjarnann í umsögn Jóns Þorlákssonar, stofnanda Sjálfstæðisflokknum um umdeildar embættaveitingar Jónasar frá Hriflu. Jón Þorláksson sagði af því tilefni árið 1928:
„Hvað er stjórnmálaspilling? Í hverju er hún fólgin? Þegar það mál er skoðað ofan í kjölinn, mun það sjást að nú á tímum þekkist hún naumast í neinni annarri mynd en þeirri, að réttir valdhafar nota almannafé til þess að kaupa sér fylgi eða launa fylgi. Óspillt siðferðistilfinning almennings finnur það fullvel, að sífellt hlutdrægni við skipun manna til opinberra starfa er ein af þeim myndum, sem þessi spilling tekur á sig. (…) Lyklar að ríkisfjárhirslunni er engum fengnir til þess að sækja þangað vinargjafir eða fylgdarlaun.“
Sporgöngumenn Jóns Þorlákssonar hefðu kannski mátt lesa ræður hans betur.
Bubbi kóngur
Ekki fer hjá því, að víða er vikið að helsta skuggabaldri kerfisins í seinni tíð, Davíð Oddssyni, fv. forsætisráðherra. Þeir sem til þekkja kunna að segja frá mörgum dæmum um meinbægni og hefnigirni valdamannsins gagnvart einstaklingum, sem honum þótti hafa gert eitthvað á sinn hlut eða voru ekki nægilega auðsveipir. Dæmi um það er, þegar sr. Örn Bárður Jónsson var flæmdur úr starfi sem fræðslustjóri Þjóðkirkjunnar fyrir að hafa skrifað smásögu, sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins og olli vanþóknun ráðherrans (sjá bls. 109–111).
Hitt dæmið lýsir því, hvernig háðfuglinn sjálfur á bágt með að umbera háð og spott frá öðrum og leggst svo lágt að misbeita valdi til að koma fram hefndum. Málið snýst um gagnrýni Kristjáns Hreinssonar – Skerjafjarðarskálds — um sálmakveðskap Davíðs, sem fékk viðhafnarútgáfu á síðum Morgunblaðsins og var flutt við tónlist Gunnars Þórðarsonar í einhverri kirkjunni á aðventunni. Kristjáni varð það á að gagnrýna kveðskapinn í grein undir fyrirsögninni „Hræsni um heilög jól“, þar sem forsætisráðherra var ráðlagt að fást við eitthvað annað en að „hnoða saman þessum leirburði“. Gagnrýnandinn er sagður hafa fengið upphringingu frá aðstoðarmanni fórsætisráðherra, þar sem honum var tilkynnt, að hann þyrfti ekki að gera sér vonir um listamannalaun eða nokkra aðra viðurkenningu, að opinberri hálfu, svo lengi sem ráðherrann fengi nokkru ráðið. Við þá hótun var staðið í tvo áratugi.
Versta dæmið um geðþóttaákvarðanir Davíðs Oddssonar á stóli forsætisráðherra er, þegar hann ákvað í bræðikasti að leggja niður Þjóðhagsstofnun, af því að honum mislíkaði þjóðhagsspá stofnunarinnar. Svona nokkuð gæti ekki hafa gerst nokkurs staðar á byggðu bóli, nema ef vera skyldi hjá Idi Amin – eða þá hjá Bubba kóngi (Ubu Roi) eftir Alfred Jarry í Leikhúsi fáránleikans (þar sem Davíð lék reyndar aðalhlutverkið í uppfærslu á Herranótt á menntaskólaárum sínum). Á sínum tíma reyndi Davíð að réttlæta þessa delluákvörðun með því að greiningardeildir bankanna sæju betur um nauðsynlega hagsýslugerð. Hann átti eftir að sjá eftir þeim orðum sínum síðar.
Skýrslur Þjóðhagsstofnunar voru á minni tíð náttborðsbókmenntir þeirra stjórnmálamanna, sem létu sig einhverju varða afkomu atvinnuvega, fyrirtækja og þjóðarbús. Þjóðhagsstofnun hefði t.d. getað reiknað út upphæð auðlindarentu í sjávarútvegi (sem þrífst af veitingu einkaleyfa og þar með útilokun samkeppni). Þar með hefðu þingmenn getað lagt af þann leiða vana að rífast um staðreyndir. Þeir hefðu getað lagt á auðlindagjöld á grundvelli staðreynda. Við vitum nú, að auðlindarentan nam hundruðum milljarða á fyrstu áratugum þessarar aldar. Í stað þess að byggja upp innviði samfélagsins hafa þessi auðævi orðið til þess að skapa fámenna forréttindastétt ofurríkra, sem gera út heilu stjórnmálaflokkana og ráða lögum og lofum á landsbyggðinni. Þeir eru hreint út sagt fyrir löngu orðnir ógnun við sjálft lýðræðið.
Önnur delluákvörðun Davíðs var sú, að þessa fáu mánuði sem hann var utanríkisráðherra 2004-05, skipaði hann einn góðan veðurdag tíu nýja sendiherra, flesta pólitíska skjólstæðinga sína. Voru þó sendiherrar þegar of margir fyrir og „vistaðir á göngudeildinni“ við Rauðarárstíg (sjá bls. 134). Svona vitleysisgangur ber ekki vott um mikla virðingu fyrir ráðstöfun almannafjár.
Helmingaskiptareglan
Er þetta eitthvað nýtt? Er þetta bara óhjákvæmileg afleiðing af fámenni þjóðarinnar og frændhygli ættbálkasamfélagsins? Þetta er sannanlega ekki nýtt. Upp í hugann kemur, að árið 1964, þegar ég kom heim ungur maður frá námi í útlöndum og fékk fyrir tilviljun upp í hendurnar vikublaðið Frjálsa þjóð, var eitt af mínum fyrstu verkum að gera úttekt á mönnun ákæruvaldsins. Mig minnir, að sýslumenn þá hafi talist vera 49. Lagadeildin við HÍ hefur löngum þótt einsleit og íhaldssöm. Að miklum meirihluta til eins og útungunarvél fyrir Sjálfstæðisflokkinn í gegnum Vöku, Órator, Heimdall og SUS.
Samt brá mér í brún, þegar á daginn kom við athugun, að 23 þáverandi sýslumanna höfðu verið skipaðir í embætti af dómsmálaráðherrum flokksins og voru almennt taldir vera áhrifamenn flokksins í héraði, jafnframt embættinu. Um 20 tilheyrðu Framsóknarflokknum á sömu forsendum. Um afganginn er það að segja, að tveir voru kratar, en hinir höfðu ekki, svo vitað væri, gengið flokksræðinu á hönd. Rétt er að hafa í huga, að á þessum tíma tilheyrðu sýslumenn bæði framkvæmdavaldinu (sem lögreglustjórar) og dómsvaldinu (sem dómarar í héraði). Þetta var því hvort tveggja flokksræðis- og alræðiskerfi. Því var ekki breytt fyrr en í stuttri dómsmálaráðherratíð Jóns Sigurðssonar hins þjóðhaga 1988.
Frá og með heimastjórn og fullveldi (1904-18) festi þetta flokksræðiskerfi sig í sessi á grundvelli misvægis atkvæðisréttar eftir búsetu, sem var löngum allt að fimmfalt. Þetta margfaldaði þingstyrk Framsóknarflokksins langt umfram fylgi hans. Þetta er líka ein meginástæðan fyrir því, að mannréttindahreyfing verkafólks í vaxandi þéttbýli við sjávarsíðuna, Alþýðuflokkur/Alþýðusamband, náði því aldrei að vera höfuðandstæðingur atvinnurekendavaldsins (Sjálfstæðisflokksins) í hinu unga lýðveldi. Í staðinn varð helmingaskiptareglan – úthlutun gæða í skjóli pólitísks valds til tveggja stjórnmálaflokka atvinnurekenda, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins – grundvallarregla íslenskrar stjórnsýslu. Þetta átti við um lánveitingavald ríkisbanka, fjárfestingarsjóða, leyfisveitinga vegna inn- og útflutnings, olíu- og tryggingabransann, smásöluna og síðar meir hermangið, svo nokkuð sé nefnt.
Niðurstaðan varð flokksræði skv. helmingaskiptareglum, en ekki valddreift markaðskerfi með lýðræði, sem byggir á jöfnum atkvæðisrétti. Þess vegna byggir stjórnarfar á Íslandi enn í dag á allt öðrum grunni en annars staðar á Norðurlöndum.
Velferðarríkið á Norðurlöndum er sósíaldemókratískt. Á sköpunarárum þess voru jafnaðarmannaflokkar með djúpar rætur í verkalýðshreyfingunni ráðandi flokkar í stjórnkerfinu. Fjármagnseigendur – eigendur fyrirtækja og forstjóraveldi með sitt ráðningarvald á vinnumarkaði – réðu ekki ríkisvaldinu og stjórnsýslunni líka. Á þessu tvennu er reginmunur. Á þessum grundvelli gat verðleikareglan við mönnun stjórnkerfisins fest sig í sessi annars staðar á Norðurlöndum. Á Íslandi ríkti – og ríkir enn – andverðleikareglan, eins og Einar Steingrímsson, stærðfræðiprófessor, orðar það. Þór Saari – fv. þingmaður og starfhæfur hagfræðingur, atvinnulaus s.l. sjö ár, eftir að hann hætti á þingi, þrátt fyrir 200 starfsumsóknir – er skýrt dæmi um þetta.
Mannréttindabarátta
Þrátt fyrir ofangreindar takmarkanir hefur verkalýðshreyfingin hér á landi, engu að síður sýnt í verki, að hún er mannréttindahreyfing fátæks fólks á vinnumarkaðnum. Það tók vinnandi fólk á Íslandi 20 ár að fá lögformlega viðurkenningu á samningsrétti sínum um kaup og kjör. Kjörin varða öryggi á vinnustöðum, starfsöryggi, uppsagnarfresti, atvinnuleysisbætur o.s.frv. Vald atvinnurekandans til að ráða og reka hefur með þessum hætti verið takmarkað, en afkomuöryggi vinnandi fólks aukið að sama skapi frá því sem áður var. Hinn pólitíski armur verkalýðshreyfingarinnar, sem Alþýðuflokkurinn var fyrsta aldarfjórðunginn, náði því, þrátt fyrir takmarkað fylgi alla tíð, að lögfesta grundvallarreglur velferðarríkisins um almannatryggingar, félagslegt húsnæði á viðráðanlegum kjörum, sömu laun karla og kvenna fyrir sömu vinnu, o.s. frv. En flestar eru þessar stoðir velferðarríkisins vanmáttugri hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum, af áðurgreindum pólitískum ástæðum. Undantekningin er lífeyrissjóðirnir, sem eru betur fjarmagnaðir í sjóðakerfi hér á landi en víða annars staðar, þar sem þeir eru fjármagnaðir með sköttum.
Bakgrunnur Ólínu – en doktorsritgerð hennar fjallar um galdur og galdratrú á brennuöld – er sennilega nokkuð góður til að bregða upp spegli fyrir skuggabaldra samtímans, um atvinnubann og misbeitingu valds í samtímanum. Það er margt sláandi líkt með tilhneigingum handhafa rétttrúnaðarins til að jaðarsetja og útskúfa þeim, sem leyfa sér að gagnrýna ríkjandi ástand í nútímanum, rétt eins og fyrr á tíð. Viðurlögin eru vissulega ólík, en innrætið er stundum óþægilega keimlíkt. Af því má margt læra.
Höfundur var formaður Alþýðuflokksins 1984-1996