Kjarninn fékk það staðfest í síðustu viku hjá Seðlabankanum að 500 milljón evra neyðarlán (76,2 milljarðar króna á núvirði) sem bankinn veitti Kaupþingi þann 6. október 2008, sama dag og Geir H. Haarde bað guð að blessa Ísland, myndi ekki innheimtast að fullu. Langt í frá. Tæpur helmingur lánsins, um 35 milljarðar króna, er tapaður. Fyrir þessu láni var tekið allsherjarveð í eignarhlut Kaupþings í danska bankanum FIH. Seðlabanki ákvað að lána nánast allan innlendan gjaldeyrisforða sinn í miðju alþjóðlegu bankahruni til íslensks banka, sem náði að lifa í þrjá daga eftir lánveitinguna, og tók veð í dönskum banka sem sérhæfði sig í lánum til fasteignaverkefna í nýsprunginni fasteignabólu í staðinn. Þetta gerðist í alvöru.
Tapið blasað við frá byrjun
Árni Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra, lýsti lánveitingunni þannig í bók sinni um bankahrunið og afleiðingar þess að Seðlabankinn hafi „látið Kaupþing hafa allan gjaldeyrisforðann sem þeir voru með hér heima þannig að það voru engir peningar eftir í Seðlabankanum“.
Það að tap yrði á þessari glórulausu lánveitingu hefur raunar blasað við frá byrjun. Og sérstaklega frá september 2010 þegar FIH, hið slaka veð, var selt til hóps fjárfesta. Seðlabankinn tilkynnti hroðugur að hann myndi hagnast verulega á sölunni. Í stað þeirra 500 milljóna evra sem hann lánaði ætluðu kaupendurnir að greiða 670 milljónir evra fyrir FIH. Þegar smáa letrið var skoðað kom hins vegar í ljós að einungis helmingur kaupverðsins var greiddur og Seðlabankinn lánaði nýjum eigendum restina vaxtalaust út árið 2015. Það réðst síðan á því hversu mikið FIH þurfti að afskrifa af eignum sínum og hversu mikið af ódýrum skartgripum danska skartgripakeðjan Pandora (sjóður FIH er stór eigandi að henni) myndi selja hvort Seðlabankinn myndi yfir höfuð fá eitthvað af seljendaláninu til baka. FIH þurfti auðvitað að afskrifa fullt af eignum, hlutabréf í Pandoru hríðféllu og á endanum fékk Seðlabankinn nánast ekkert til baka af seljendaláninu.
„Eftir að Kaupþing féll gat Lindsor ekki greitt lánið til baka. Ekki eina krónu. Og tapið því gríðarlegt fyrir kröfuhafa bankans, meðal annars Seðlabanka íslenskra skattgreiðenda. Þeir sem seldu umrædd skuldabréf til Lindsor losuðu sig hins vegar undan ábyrgðum og tryggðu sér marga milljarða króna í gróða í evrum.“
Keyptu skuldabréf fyrir tugi milljarða sama dag
Nú skulum við spóla aðeins til baka. Sigurður Einarsson, þáverandi stjórnarformaður Kaupþings, sagði í Kastljósinu sama dag og neyðarlánið var veitt að hann „réttlæti það að við höfum fengið þessa fyrirgreiðslu vegna þess að þetta er mjög öruggt lán. Vegna þess að við stöndum mjög vel og Seðlabankinn er öruggur um að fá þessa peninga til baka […] Ég get sagt það kinnroðalaust".
Davíð Oddsson, þáverandi formaður bankastjórnar Seðlabankans, sagði daginn eftir í sama þætti að ef lánið fengist ekki greitt þá myndi „Seðlabankinn eignast mjög góðan banka í Danmörku, FIH". Báðar þessar digurbarklegu yfirlýsingar reyndust tóm steypa. Báðir mennirnir sögðu ósatt.
Þá hefur komið fram, og verið til rannsóknar bæði á Íslandi og í Lúxemborg, að sama dag og Kaupþing fékk þetta neyðarlán hafi Lindsor Holding Corporation, félag skráð á Tortola-eyju, fengið 171 milljón evra, um 26 milljarðar króna á núvirði, lánaða frá Kaupþingi. Lindsor var í eigu Otris, félags sem stjórnendur Kaupþings stýrðu og virkaði sem nokkurs konar ruslakista, afskriftasjóður utan efnahagsreiknings Kaupþings. Þangað var lélegum, og ónýtum, eignum hrúgað. Lánið til Lindsor, sem var ekki borið undir lánanefnd Kaupþings, var notað til að kaupa skuldabréf af Kaupþingi í Lúxemborg, einstökum starfsmönnum þess banka og félagi í eigu Skúla Þorvaldssonar, sérstaks vildarviðskiptavinar Kaupþings sem fékk óheyrilegar lánveitingar hjá bankanum án veða.
Komið hefur fram í gögnum að sérstakur saksóknari telur að tilgangur þessarra viðskiptavina hafi verið að „flytja fallandi verðgildi skuldabréfanna af eigendum þeirra og yfir á Kaupþing á Íslandi“. Þá benda gögn til þess að Lindsor hafi keypt skuldabréfin á mun hærra verði en markaðsverði.
„Þessi lánveiting er lykilpúsl í því uppgjöri þjóðar við ömurlega atburði sem urðu ekki vegna breyttrar vindáttar í bankakerfi, heldur af mannavöldum. Það eru ákvarðanir sem skapa afleiðingar.“
Eftir að Kaupþing féll gat Lindsor ekki greitt lánið til baka. Ekki eina krónu. Og tapið því gríðarlegt fyrir kröfuhafa bankans, meðal annars Seðlabanka íslenskra skattgreiðenda. Þeir sem seldu umrædd skuldabréf til Lindsor losuðu sig hins vegar undan ábyrgðum og tryggðu sér marga milljarða króna í gróða í evrum, sem margfaldaðist í íslenskum krónum þegar krónan féll. Ekki hefur verið gefið upp hverjir þetta voru eða hvort þeir hafi verið að starfa í umboði fyrir aðra. Ákvörðunin um að framkvæma þennan snúning var hins vegar tekin af stjórnendum Kaupþings.
Símtal Davíðs og Geirs
Þennan saman dag og Kaupþing fékk tugi milljarða króna lánaða frá Seðlabanka Íslands, og keypti fullt af síðar verðlausum skuldabréfum á yfirverði af starfsmönnum og vildarviðskiptavini sínum fyrir stóran hluta upphæðarinnar, átti sér stað símtal milli Davíðs Oddssonar, þáverandi formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands, og Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, þar sem þeir ræða lánveitinguna. Fjárlaganefnd Alþingis reyndi árum saman að fá afrit af umræddu símtali. Það hafa fjölmiðlar líka gert en án árangurs. Birting samtalsins hefur strandað á því að Geir H. Haarde hefur ekki viljað gefa leyfi fyrir henni, en hann vissi ekki að samtalið hefði verið tekið upp.
Í ljósi þess að nú hefur fengið staðfest að þessi afleita lánveiting kostaði íslenska skattgreiðendur 35 milljarða króna, án tillits til tapaðrar ávöxtunar á slíkri upphæð á sex árum, og að verið sé að rannsaka hvort stjórnendur Kaupþing hafi ráðstafað láninu með saknæmum hætti til að tryggja þröngum hópi stórkostlegan ágóða, er algjörlega kristaltært að gera þarf umrædda upptöku opinbera. Strax.
Það er ekki hægt að láta eins og þetta hafi bara verið óheppni að tapa þessum svimandi háu upphæðum, sem eru tæp tvö prósent af árlegri landsframleiðslu Íslands. Það verður að útskýra fyrir þjóðinni hvernig æðstu ráðamenn hennar tóku ákvörðun um að lána, og tapa, um 75 prósent af því fé sem tekur að reka Landsspítala Íslands á þessu ári. Þessi lánveiting er lykilpúsl í því uppgjöri þjóðar við ömurlega atburði sem urðu ekki vegna breyttrar vindáttar í bankakerfi, heldur af mannavöldum. Það eru ákvarðanir sem skapa afleiðingar.
Til þess að geta horft áfram þurfum við að geta hætt að horfa afturábak. Það gerist ekki nema myndin sem blasir við í baksýnisspeglinum sé skýr. Og hún verður mun skýrari strax eftir að búið verður að spila samtal Geirs og Davíðs upphátt og fyrir alla.