Það átti ágætlega við að Jón Gnarr tilkynnti að hann nennti ekki í forsetaframboð um helgina vegna þess að hann vildi ekki leggja það á fjölskylduna sína að standa andspænis „freka kallinum“ sem tröllríður íslenskum stjórnvöldum. Freki kallinn hefur sjaldan verið jafn sýnilegur og undanfarna daga. Hann holdgervist nú í utanríkisráðherra Íslands sem segir það bara vera „common sense“ að sniðganga þing, nefndir og þjóð við mótun utanríkisstefnu þjóðarinnar.
Hann notar orð eins og „fáránlegt“ og „undarlegt“ um skoðanir þeirra sem telja hann hafa farið langt yfir strikið. Um það hafi verið samið í stjórnarmyndunarviðræðum að svíkja loforð um þjóðaratkvæðagreiðslur sem gefin voru korteri áður og við það verði fólk bara að sætta sig. Já, og svo eru þeir sem setja fyrirvara við hversu mikið er mulið undir skagfirska efnahagsvæðið bara öfundsjúkir útí Kaupfélag Skagfirðinga, sem Gunnar Bragi Sveinsson vann hjá um árabil.
Evrópumálin aftengd
Með því að lofa, ítrekað og innilega, að kosið yrði um afdrif Evrópusambandsumsóknar náðu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur að aftengja Evrópumálin í kosningabaráttunni. Þau voru einfaldlega ekki undir og fólk kaus ekki flokka með hliðsjón af þeim. Tryggt var að þjóðin myndi fá að kjósa um afdrif umsóknarinnar með loforðaflauminum.
Framundan eru risavaxin verkefni hjá ríkisstjórninni. Fjöldaverkföll eru yfirvofandi, losun hafta þarf að vera yfirvofandi og níu þúsundasti snúningurinn á kvótakerfisbreytingum er líka yfirvofandi. Að bæta Evrópusambandsátökunum í þessa súpu nú er algjörlega óskiljanlegt.
Við skulum líka hafa það alveg á hreinu að Framsóknarflokkurinn var kosinn til valda með því að lofa að gefa fólki pening. Umboðið sem hann fékk snérist fyrst og síðast um þá gölnu aðgerð, sem nú er um garð gengin og nánast allir, þiggjendur og borgendur, virðast óánægðir með.
Við skulum líka hafa það alveg á hreinu að Framsóknarflokkurinn var kosinn til valda með því að lofa að gefa fólki pening. Umboðið sem hann fékk snérist fyrst og síðast um þá gölnu aðgerð, sem nú er um garð gengin og nánast allir, þiggjendur og borgendur, virðast óánægðir með. Flokkurinn hefur hins vegar nýtt þetta umboð til að stunda skipulagða skemmdarverkastarfsemi á íslensku samfélagi, í umboði samstarfsflokksins. Framsókn hefur dundað sér við að pæla í áburðarverksmiðjum, hvernig eigi að gefa makrílkvótann til frambúðar, dæla skúffufé í þau kjördæmi þar sem stuðningur við flokkinn er sem mestur, daðra við útlendingaandúð, að gera ekkert í húsnæðismálum, og gera samfélagið reglulega nánast brjálað af bræði með hroka, yfirgangi og ásökunum um að allir misskilji allt sem þeir segja.
Nei þú!
Þau fáu skipti sem ráðamennirnir fást til að réttlæta aðgerðir sínar með rökum þá byggja þau vanalega á því að benda á mistök sem síðasta ríkisstjórn gerði. Að Vinstri græn hafi látið teyma sig í Evrópuleiðangur gegn eigin sannfæringu eða að Samfylkingin hafi troðið Evrópusambandsaðildarumsókn upp á þjóð og þing sem hafi ekki verið fylgjandi henni. Það er alveg rétt hjá andstæðingum Evrópusambandsaðildar að forkastanlega illa var staðið að aðildarumsókninni árið 2009. Líklega hefur ekkert eyðilagt jafn mikið fyrir möguleikum Íslands á því að ganga í sambandið og sú aðgerð að leggja upp í leiðangurinn án þess að vera með meirihluta fylgjandi aðild í ríkisstjórninni sem sótti um.
En svik einhverra annarra eru ekki boðleg réttlæting á virðingalausu valdabrölti þeirra sem nú sitja í stjórn. Það þýðir ekki að benda á mistök annarra til að afsaka sín eigin. Þá erum við komin í vítahring sem endar með ósköpum.
Og þegar allt annað þrýtur þá öskrar þetta fólk hástöfum „Icesave“, líkt og það sé raunverulega einhverjum öðrum að þakka að Ísland hafi ekki setið uppi með þann reikning en Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, og Páli Hreinssyni, íslenskum dómara við EFTA-dómstólinn.
Búum til láglaunastörf
Það sem hefur gengið vel hér síðustu ár er að það hefur myndast stöðugleiki í efnahagsmálum. Bæði fyrri ríkisstjórn og sú sem nú situr eiga sinn þátt í því að svo sé og algjör óþarfi að reyna að halda öðru fram. En það verður líka að horfa á að fjármagnshöft sem búa til efnahagslegan sýndarveruleika hérlendis, stöðugleikakjarasamningar á vinnumarkaði, breytingar á göngu makríls, ótrúleg aukning ferðamanna og hríðfallandi heimsmarkaðsverð á olíu hafa skipt langmestu máli fyrir efnahagsbata Íslands.
Þótt hagvöxtur hér sé ágætur og störfum fjölgi þá verður líka að horfa á hvers kyns störf við erum að skapa. Af þeim 2.800 störfum sem urðu til í fyrra voru langflest, um 1.700, á meðal ósérhæfðs starfsfólks í þjónustu- og verslunargeiranum. Stjórnendum og embættismönnum fækkaði um ellefu prósent á milli ára, hlutfallslegur fjöldi sérfræðingastarfa hefur um árabil verið sá sami og störfum fyrir sérmenntað starfsfólk er að fækka hratt. Með öðrum orðum þá erum við ekki að búa til sérhæfð störf fyrir menntað fólk heldur þjónustustörf sem tengjast undirstöðuatvinnuvegunum okkar. Láglaunastörf.
Með öðrum orðum þá erum við ekki að búa til sérhæfð störf fyrir menntað fólk heldur þjónustustörf sem tengjast undirstöðuatvinnuvegunum okkar. Láglaunastörf.
Þetta endurspeglast ágætlega í því að þau hugvitsfyrirtæki sem byggja á íslenskum hugmyndum og eru með höfuðstöðvar á Íslandi eru einungis með lítinn hluta af störfum sínum hérlendis. Þau eru líka, oft á tíðum, með skráð heimilisfesti í öðrum löndum þar sem mögulegt er að stunda alþjóðlega starfsemi án hafta og þeirrar pólitísku áhættu á gerræðislegum skyndiákvörðunum sem öllu umbylta sem við búum við á Íslandi.
Nokkrar fjölskyldur sem eiga sjávarútvegsfyrirtæki, og hagnast raunverulega á þeirri leiftursókn til fortíðar sem virðist vera rekin hér um þessar mundir, hafa á sama tíma hagnast ævintýralega. Þær eru orðnar ofurríkar á evrópskan mælikvarða og ekkert lát er á. Stjórnvaldsaðgerð eftir stjórnvaldsaðgerð hefur aukið auð og áhrif þessarra fyrirtækja. Sú næsta verður ugglaust þegar makrílkvótinn verður endanlega gefinn á grundvelli veiðireynslu þeirra sem handvaldir voru til að fá að búa til þá reynslu.
Það kemur ekki á óvart að tengsl þessarra fyrirtækja við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk eru mikil og augljós. Og mun umfangsmeiri en í formi styrkveitinga, þótt yfir 90 prósent allra styrkja þeirra til stjórnmálaflokka fari til þessarra tveggja flokka. Hér er að verða til einhverskonar nýlenduveldi sjávarútvegsgreifa. Nokkrar fjölskyldur eiga þetta land. Og stjórnvöld sitja í þeirra umboði.
Úr farsa í meiri farsa
Síðasta kjörtímabil var farsi. Hér sat brotin minnihlutastjórn sem átti í stanslausum innanhúsátökum. Fólk í henni var ekki sammála um hvernig himininn er á litinn. Hún hafði aldrei kraft til að taka margar þeirra mikilvægu ákvarðanir sem hún þurfti. Í stað þess að hér hafi verið mynduð sterk samsteypustjórn margra flokka árið 2009 sem hefði komið sér saman um nokkur stór og skýr efnahagsleg markmið þá nýttu Samfylkingin og Vinstri græn sér óánægju almennings gagnvart gömlu valdaflokkunum og túlkuðu hana sem umboð til að gerbylta íslensku samfélagi eftir sínum pólitísku línum. Ný stjórnarskrá, Evrópusambandsaðild og umbreyting á kvótakerfinu voru allt of stórir bitar til að kyngja á sama tíma og landið stóð frammi fyrir fordæmalausum efnahagslegum aðstæðum.
En núverandi ríkisstjórn er að bjóða okkur upp á næsta skref fyrir ofan farsa. Farsa á sterum. Hún veður áfram með áður óséðri frekju, dónaskap, yfirgangi og hroka.
En núverandi ríkisstjórn er að bjóða okkur upp á næsta skref fyrir ofan farsa. Farsa á sterum. Hún veður áfram með áður óséðri frekju, dónaskap, yfirgangi og hroka. Annað hvort eru ráðherrarnir þannig að þeir vilja gera allt sem þeim dettur í hug án þess að spyrja kóng, prest, þing, nefndir eða þjóð eða eru svo verklausir og ákvörðunarfælnir að annað eins hefur vart séð. Að einhverju leyti má skrifa þetta ástand á reynsluleysi ráðherranna. Engin ráðherranna hafði nokkru sinni verið ráðherra áður. Og sameiginleg þingreynsla ríkisstjórnar hefur líkast til aldrei verið minni.
Þetta gengur hins vegar ekki lengur. Við, einhver 330 þúsund manna örþjóð, getum ekki verið í innbyrðis stórstríði um allar meiriháttar ákvarðanir sem við þurfum að taka. Við þurfum að finna leið til að ljúka þessum málum, taka ákvörðun á lýðræðislegan máta, og halda áfram. Þá er ekki deilt um umboð og heimildir. Þá liggur niðurstaða einfaldlega fyrir. Til þess þarf freki kallinn að víkja úr íslenskum stjórnmálum, sama hvar í flokki hann situr.
Það er bara „common sense“.