Ekkert frumvarp frá ríkisstjórninni bíður þess nú að vera tekið til umræðu á Alþingi. Ríkisstjórnin hefur lagt fram 52 frumvörp á yfirstandandi þingi. Það eru mun færri mál en hin tvö þingin sem ríkisstjórnin hefur verið við völd. Það er einnig mun færri frumvörp en nokkur ríkisstjórn síðustu tuttugu árin hefur verið búin að leggja fram á þessum tíma. Þess ber einnig að geta að lengst af á þessum tíma kom þing ekki saman fyrr en í byrjun október, en frá árinu 2012 hefur það hafist í byrjun september.
Fimm frumvörp ríkisstjórnarinnar hafa verið lögð fram eftir að þingið kom saman á ný eftir áramót og fimm frumvörp til viðbótar hafa verið kynnt í ríkisstjórn en eru ekki komin inn í þingið. Samkvæmt starfsáætlun þingsins þurfa frumvörp, sem eiga að komast á dagskrá fyrir sumarhlé, að berast þinginu fyrir lok marsmánaðar. Það er eftir rétt rúman mánuð.
23 frumvörp orðin að lögum
Það sem af er þessu þingi er búið að gera 23 frumvörp ríkisstjórnarinnar að lögum. Þetta er einnig minna en á sama tíma undanfarin tuttugu ár, eins og sjá má hér að neðan.
24 frumvörp ríkisstjórnarinnar eru til umfjöllunar í nefndum eftir fyrstu umræðu, tvö bíða annarrar umræðu og þrjú bíða þriðju umræðu.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Ólöf Nordal innanríkisráðherra hafa lagt fram langflest frumvörp, eða 13 hvort. Það er tæpur helmingur allra frumvarpa ríkisstjórnarinnar á þessu þingi. Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra hefur lagt fram 5 frumvörp og sömu sögu er að segja af Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra og Sigrúnu Magnúsdóttur umhverfisráðherra. Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur lagt fram fjögur frumvörp og Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra einnig. Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur lagt fram tvö frumvörp og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra eitt frumvarp hvor.
Þess ber þó að geta að af 19 þingsályktunartillögum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram á þinginu eru 15 þeirra tillögur utanríkisráðherra. Mörg mál sem koma inn í þingið í gegnum EES eru þingsályktanir.
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins duglegastir að leggja fram frumvörp
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem eru utan ríkisstjórnar hafa verið duglegastir við að leggja fram frumvörp. Þeir hafa lagt fram 18 frumvörp. Þingmenn Bjartrar framtíðar hafa lagt fram 15 frumvörp og þingmenn VG einnig 15 frumvörp. Þingmenn Framsóknarflokksins sem eru utan ríkisstjórnar hafa lagt fram 11 frumvörp, Samfylkingarþingmenn hafa lagt fram 9 og Píratar 7.
Eitt frumvarp frá þingmanni hefur orðið að lögum á þessu þingi, og það var frumvarp Ögmundar Jónassonar um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum.