20:00 - Beinni útsendingu lokið í bili
Ég þakka fyrir samfylgdina í þessari fimm klukkustunda beinu lýsingu í dag. Við höldum þó áfram umfjöllun okkar um þessi mál og verðum aftur með beina lýsingu á morgun.
19:48 - Varla til sú manneskja sem sér meira eftir Wintris en Sigmundur
Sigmundur Davíð segir varla til þá manneskju á Íslandi sem sjái meira eftir því að félagið Wintris, sem er með heimilisfesti á Bresku Jómfrúareyjunum, hafi verið stofnað utan um eignir eiginkonu hans, nema mögulega eiginkonan sjálf. Það sé sjálfsagt að biðjast afsökunar á því að til félagsins hafi verið stofnað með þessum hætti. Þetta sagði hann í Íslandi í dag.
19:40 - Ritari Sjálfstæðisflokksins tekur undir með Bjarna
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins, segir að hún taki undir með Bjarna Benediktssyni formanni flokksins. „Mér finnst augljóst að málið er alvarlegt og það verður að hlusta á viðbrögð fólks við þættinum í gær. Við sjálfstæðismenn tökum þessum málum af fullri alvöru.“
19:39 - Enn nokkur fjöldi á Austurvelli
Þótt formlegum mótmælum sé lokið er enn nokkur fjöldi fólks á Austurvelli.
19:21 - Forsætisráðherra Svíþjóðar segir að sambærileg staða væri ótæk þar
Forsætisráðherra Svíþjóðar Stefan Löfven, segir að þar í landi þætti ótækt að flækjast í hneykslismál svipuð þeim sem nú skekja íslenskt samfélag. Hann segir að Íslendingar verði sjálfir að ákveða hvort Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sitji áfram í stóli forsætisráðherra. Þetta kom fram í fréttum RÚV.
19:13 - Fjallað um mótmælin í fjölmiðlum víða um heim
#PanamaPapers: Iceland's prime minister could be the first to fall after massive leak https://t.co/z63uk0hcgD pic.twitter.com/5GaaKN2z61
— VICE News (@vicenews) April 4, 2016
Will the Panama Papers bring down Iceland's prime minister? https://t.co/sZvl4hY9J8 pic.twitter.com/GkUt1zNUgI
— The Daily Beast (@thedailybeast) April 4, 2016
Panama Papers: mass protests in Iceland call for prime minister to quit – live https://t.co/MN0TzdiQN5
— The Guardian (@guardian) April 4, 2016
Iceland's prime minister says he won't resign amid protests over #PanamaPapers https://t.co/6hwsiCPFM4
— TIME.com (@TIME) April 4, 2016
Iceland's prime minister refuses calls to resign after #PanamaPapers show hidden investmentshttps://t.co/hal3I4OpCj pic.twitter.com/kQeMAf96Qq
— BBC Breaking News (@BBCBreaking) April 4, 2016
19:07 - Kann að vera að það sé tímabært að birta skattaskýrslur
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði að það gæti verið tímabært að birta skattaskýrslur sínar og konu sinnar, þótt það sé til mikils að ætlast af henni að gera slíkt. Þetta kom fram í viðtali við hann á Stöð 2.
19:00 - 27 þúsund manns hafa skrifað undir gegn Sigmundi Davíð
Rúmlega 27.300 manns hafa skrifað undir undirskriftasöfnun þar sem þess er krafist að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segi af sér.
18:49 - Forsætisráðherra nýtur stuðnings eins og staðan er í dag
Þetta sagði Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Hann sagði þó ekki hægt að líta framhjá því hvernig hljóðið er í framsóknarmönnum um allt land og í mótmælendum á Austurvelli.
18:43 - Ekki augljóst að stjórnin haldi áfram
Formaður Sjálfstæðisflokksins segir ekki augljóst að ríkisstjórnin hafi umboð til þess að halda áfram. Hann ætlar að hitta forsætisráðherra í fyrramálið. Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks segir stöðuna alvarlega. Þetta kemur fram í viðtölum Kjarnans við þá, sem Sunna Valgerðardóttir tók nú fyrir skömmu.
18:19 - Lekagögnin ítarlegri en gögn skattrannsóknarstjóra
Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri segir gögnin sem fjallað var um í Kastljósi í gær að einhverju leyti þau sömu og embættið keypti á sínum tíma, þó virðist sem lekagögnin séu eitthvað ítarlegri. Þetta kemur fram á vef RÚV.
18:09 - Aldrei annar eins fjöldi á Austurvelli
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur aldrei séð annan eins mannfjölda samankominn til mótmæla og nú er á Austurvelli. Ekki einu sinni í mótmælunum í hruninu. Ómögulegt sé að slá á mannfjöldann auk þess sem fólk streymi enn í bæinn. Þetta kemur fram á RÚV. Sjá má á meðfylgjandi mynd að fólk er ekki bara á Austurvelli heldur út allt Pósthússtræti.
Ok þetta reyndist rétt hjá Sigmundi, það mótmæltu ekki allir. Það var því miður bara ekki pláss á Austurvelli. pic.twitter.com/LDiIertGVG
— Haukur Homm (@haukurhomm) April 4, 2016
18:04 - Búið að afboða þingfund á morgun
Enginn þingfundur verður haldinn á morgun og líklega ekki fyrr en vantrauststillaga á ríkisstjórnina verður tekin á dagskrá. Þetta staðfestu Svandís Svavarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir, þingmenn VG, við mig rétt í þessu. Ekki er komið á hreint hvenær af því verður, en líklega á miðvikudag eða fimmtudag.
17:50 - Varðstjóri aldrei séð eins marga safnast saman á stuttum tíma
Arnar Rúnar Marteinsson, varðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að hann hefði aldrei séð jafnmikinn fjölda fólks safnast saman á svo skömmum tíma og á Austurvelli í dag. Hann segir umferð í átt að miðborginni gríðarlega mikla, og það sé bíll við bíl á Sæbrautinni frá Kringlumýrarbraut. Mikill hiti sé í mannskapnum en allt hafi hingað til farið vel fram. Eins og sjá má hér að neðan er þó eitthvað um að fólk kasti matvælum í þinghúsið.
The view from inside the Icelandic Parliament. The windows are covered with eggs! #panamapapers pic.twitter.com/JpGfJKJuZl
— Sigridur Tulinius (@sigridurtul) April 4, 2016
17:47 - Myndband frá mótmælunum
Mikill fjöldi við Austurvöll. pic.twitter.com/pg4gbNhDGE
— Kjarninn (@Kjarninn) April 4, 2016
17:45 - Þingfundi slitið
Búið er að slíta þingfundinum. Sagt er að fólk streymi enn á Austurvöll og við munum halda áfram umfjöllun okkar um mótmælin og málið allt. Innan skamms birtir Kjarninn viðtöl við þingmenn.
17:33 - Bjarni segir Sigmund í mjög þröngri stöðu
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála-og efnahagsráðherra, segir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, sé í þröngri stöðu og ríkisstjórnin um leið vegna opinberunar á eignum íslenskra ráðamanna í aflandsfélögum og málum sem því tengjast. Bjarni svarar því ekki hvort hann styðji forsætisráðherra til að sitja áfram. Það þurfi að setjast yfir það hvort ríkisstjórnin hafi nægjanlegan stuðning og hvort ríkisstjórnin treysti sér til að halda áfram, eftir atvikum eftir „ákveðnar ráðstafanir“. „Ég ætla ekkert að leyna því að það er það sem við erum að ræða. Hvort við höfum styrk til að halda áfram,“ sagði Bjarni.
Greint er nánar frá ummælum Bjarna hér.
17:29 - Enn streymir fólk á Austurvöll
Fréttamenn sem eru á Austurvelli hafa greint frá því að enn streymi fólk á Austurvöll. Það er þung umferð í vesturátt, sem er mjög óvenjulegt á þessum tíma dags, þegar umferðin er venjulega í hina áttina. Eins og sést á myndinni hér að neðan er Austurvöllur troðfullur af fólki.
#panamapapers causing a political earthquake in Iceland. Demand for immediate resignation of PM. Massive protest. pic.twitter.com/ii74KhqiEN
— Huginn Þorsteinsson (@huginnf) April 4, 2016
17:24 - Bjallan ómar
Þingmenn stjórnarandstöðunnar halda áfram að ræða um málið undir liðnum fundarstjórn forseta. Þær ræður eru nokkuð stuttar og Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, var komin langt fram úr sínum tíma. Einar K. Guðfinnsson sló í bjöllu sína nokkuð oft en þá spurði Birgitta hvers vegna hún ætti að virða þingsköp þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kæmist upp með það að tala við þjóðina með með lygum og lýðskrumi.
17:12 - Talsmaður Indefence will að Sigmundur Davíð víki
Ólafur Elíasson, einn talsmanna InDefence hópsins, telur forsætisráðherra eiga að segja af sér. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, barðist með InDefence hópnum á móti hryðjuverkalögum Breta á sínum tíma, hann var kominn á þing þegar hópurinn fór fram vegna Icesave. Þetta kemur fram á vef RÚV.
17:07 - Mótmælin í beinni
Hér má fylgjast með mótmælunum á Austurvelli í beinni útsendingu.
17:03 - „Hvorki ég né konan mín höfum átt eignir í skattaskjóli“
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur ekki viljað biðjast afsökunar á þeim upplýsingum sem komið hafa fram vegna eignar hans og eiginkonu hans á félagi skráð til heimilis á aflandseyjunni Tortóla, sem tilheyrir Bresku Jómfrúareyjunum. „Hvorki ég né konan mín höfum átt eignir í skattaskjóli,“ sagði hann í svari við einni fyrirspurninni í þinginu í dag. Þórður Snær Júlíusson hefur tekið saman frétt um það sem Sigmundur sagði í óundirbúnum fyrirspurnatíma.
16:58 - Bara tveir stjórnarþingmenn í salnum
Björt Ólafsdóttir þingmaður Bjartrar framtíðar bendir á að aðeins tveir stjórnarþingmenn séu eftir í þingsalnum Þetta eru þeir Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Haraldur Einarsson, þingmaður Framsóknarflokksins. Hér að neðan má sjá mynd af Jóni fyrir skömmu.
16:53 - Forsætisráðherrahjónin sögðu bara frá nauðbeygð
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG, segir að forsætisráðherrahjónin hafi ekki sagt frá nokkrum hlut fyrr en þau voru nauðbeygð til þess.
16:50 - Mótmæli komin á fullt
Mótmælin gegn ríkisstjórninni eiga að hefjast klukkan fimm en miðað við fjöldann og lætin fyrir utan þingið eru þau löngu hafin.
Enn kortér í að mótmælin hefjist en Austurvöllur strax stappaður #cashljós pic.twitter.com/UjqrbcXgwy
— Árni Páll Árnason (@ArniPallArnason) April 4, 2016
16:44 - Sigmundur er farinn úr þingsalnum
Og um leið og óundirbúnum fyrirspurnatíma lauk á Alþingi fór Sigmundur Davíð úr þingsalnum. Búið er að taka önnur mál af dagskrá þingsins en þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa hafist handa við að halda ræður undir liðnum fundarstjórn forseta á ný.
Allir hinir ráðherrarnir sem hér sátu í þingsalnum eru farnir, en Eygló Harðardóttir stendur enn og hlustar á ræður stjórnarandstöðuþingmanna.
16:41 - Listi yfir lágskattasvæði
Til upplýsingar má sjá hér á vef fjármálaráðuneytisins lista yfir þau svæði sem teljast lágskattasvæði að mati ríkisins. Þar eru Bresku jómfrúareyjarnar.
16:37 - Ætlar hann í alvöru að segja við heiminn að Tortóla sé ekki skattaskjól?
Að þessu spyr Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar. Helgi á síðustu fyrirspurnina í óundirbúnum fyrirspurnartíma. Sigmundur segir hér í annað sinn að Svíþjóð sé iðulega nefnt sem skattaskjól, og notar það sem rök fyrir því að félagið Wintris hafi aldrei verið í skattaskjóli.
16:32 - Sigmundur segir ekki mikið nýtt
Nú hafa Árni Páll, Katrín Jakobsdóttir, Óttarr Proppé og Helgi Hrafn Gunnarsson öll spurt Sigmund Davíð um málið. Það verður að segjast eins og er að forsætisráðherra hefur ekki sagt mikið nýtt í þessum fyrirspurnum. Það er ein fyrirspurn eftir. Hann segir að það sé ákaflega mikilvægt að veita réttar upplýsingar og það hafi hann gert.
16:30 - Dauðastríð ríkisstjórnarinnar
Ríkisstjórnin hangir ekki aðeins á bláþræði, heldur virðist aðeins kraftaverk geta bjargað lífi hennar úr þessu. Ástæðan er veik staða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, eftir afhjúpun í Kastljósi RÚV í gær, þar sem félagið Wintris Inc. var í forgrunni en það er skráð á Tortóla, eins og marg hefur verið rakið að undanförnu. Samkvæmt heimildum Kjarnans er mikil og almenn óánægja innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins, með stöðu Sigmundar Davíðs, og ekki síst þann ímyndarskaða sem hann hefði valdið þjóðinni, með framgöngu sinni í þættinum í gær.
Ítarleg fréttaskýring Magnúsar Halldórssonar um stöðu mála er hér.
16:25 - Farið að heyrast í mótmælunum
Nú er farið að heyrast í mótmælendum hér inni í þingsal. Bæði trommusláttur og sírenuvæl heyrist mjög vel hingað inn, og út um gluggann má sjá að það er farið að fjölga á Austurvelli. Á áttunda tug erlendra sjónvarpsstöðva hafa óskað eftir því að fá að taka á móti útsendingu RÚV af mótmælum fyrir utan Alþingishúsið sem hefjast formlega klukkan 17 í dag. Þetta hefur Kjarninn fengið staðfest hjá tæknideild RÚV. Lesa má nánar um það mál hér.
16:24 - Myndir af pöllunum
Hér má sjá ýmsar myndir af pöllum Alþingis.
16:16 - Sigmundur svarar ekki hvort hann ætli að hætta eða hvort hann skammist sín
Árni Páll spyr hvort Sigmundur ætli að horfast í augu við veruleikann og biðja þjóðina afsökunar, og bætir því við í seinni fyrirspurn hvort hann skammist sín ekki. Hann segir að honum þyki enginn sómi að því að Sigmundur leiti sér skjóls í skattaskjóli eða á bak við konu sína. Þetta snúist um hans ákvarðanir, upplýsingar sem hann hafi leynt og lög sem hann hafi í besta falli gengið á svig við.
Sigmundur ræddi allan tímann um skattamál og skattaskjól. Hann ítrekaði að alltaf hefðu verið greiddir skattar, og að þau hjón ættu ekki peninga í skattaskjóli þess vegna. „Við hljótum öll að vilja ræða málið af yfirvegun, heiðarleika og skynsemi,“ sagði hann.
16:13 - Óundirbúnar fyrirspurnir hefjast
Sigmundur er kominn aftur í salinn og óundirbúnar fyrirspurnir hefjast. Fyrstur er Árni Páll Árnason.
16:07 - Ekkert getur orðið eins og áður
Það falla áfram mjög þung orð hér í þingsalnum. Helgi Hjörvar og Steinunn Þóra Árnadóttir hafa bæði sagt að málið verði ekki þagað í hel. Björt Ólafsdóttir segir þingfundinn eins og meðvirknissamkomu og það gangi ekki lengur. Enginn stjórnarliði hafi komið upp og sagt sína skoðun, það sé vonandi merki um að fólk sé að hugsa sig um, því annars „getum við bara hætt þessu, þetta er skrípaleikur.“ Íslenska þjóðin eigi betra skilið. Oddný Harðardóttir segir að ekkert geti orðið eins og áður í íslenskum stjórnmálum.
16:04 - Sigmundur bregður sér frá
Sigmundur Davíð var að bregða sér úr þingsalnum, eftir að hann spurði forseta þingsins hversu margir þingmenn ættu eftir að kveða sér hljóðs undir liðnum fundarstjórn forseta. Hann fékk svarið fimm þingmenn.
15:59 - Við sættum okkur ekki við að búa í svo spilltu landi
„Herra forseti, hér er ekki fundafært“ segir Sigríður Ingibjörg. „Við sættum okkur ekki við að búa í svo spilltu landi.“ Það þurfi að boða til kosninga og slíta þinginu.
15:53 - Frægasti fjárglæframaður heims
Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði að Íslendingar ættu um þessar mundir frægasta fjárglæframann heimsins í forsætisráðherra. Hann væri á forsíðum fjölmiðla um allan heim. Við þessi orð leit Sigmundur Davíð upp úr skrifum sínum og á Einar K. Guðfinnsson, forseta þingsins, sem brást við með því að biðja þingmenn að vera ekki með svigurmæli í ræðum sínum. Róbert Marshall, samflokksmaður Guðmundar, var næstur í ræðustól og fann að þessu. Hann sagði forsætisráðherra hafa orðið uppvísan að lygum í sjónvarpi, en verið væri að biðja aðra þingmenn um að gæta orða sinna.
15:52 - „Þeirra er skömmin“
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG, lauk sinni síðustu ræðu á því að ávarpa stjórnarmeirihlutann og sagði: „Þeirra er skömmin.“ Margir félagar hennar kölluðu þá „heyr, heyr.“ Þau orð heyrast nokkuð oft hér í þinginu í dag.
15:49 - Hvað eruð þið að hugsa?
Árni Páll Árnason beinir nú orðum sínum til stjórnarliða. Hann spyr hvort þeim finnist staða mála í alvörunni í lagi og spyr hvað stjórnarliðar séu að hugsa. „Ætlið þið ekki að standa með þjóðinni? Við bíðum svars.“
15:46 - Twitter á fullu og mikið álag á vef Alþingis
Það virðist vera mikið álag á vef Alþingis, að minnsta kosti kemst blaðamaður ekki inn á vefinn. Það er kannski til marks um áhugann á þessari umræðu sem hér fer fram. Twitter virðist vera að fylgjast vel með gangi mála eins og svo oft.
Popp og kók og alþingi #cashljós pic.twitter.com/ful0SmyYmn
— Hrönn Magnúsdóttir (@94hronn) April 4, 2016
Ég tilkynni hér með að siðrofið sé hafið.
— Krummi (@hrafnjonsson) April 4, 2016
Nennir þú ekki í strætó til þess að mæta á mótmælin?
— Una Hildardóttir (@unaballuna) April 4, 2016
💥Skutlaragrúppann er að bjóða upp á frí skutl á mótmælin!💥
15:40 - Búið að niðurlægja heila þjóð
Það er búið að niðurlægja heila þjóð.“ segir Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar. „Forsætisráðherra hefur ákveðið, með því að segja okkur ekki satt, með því að eiga peninga í skattaskjólum, með því að koma sér áfram án þess að segja sannleikann, þá hefur hann niðurlægt okkur.“
15:36 - „Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segðu af þér“
Birgitta Jónsdóttir var að enda við að segja þessi orð hér að ofan. Hún var komin í ræðustól Alþingis í annað sinn. Áður hafði flokkssystir hennar, Ásta Guðrún Helgadóttir, sagt það sama og spurt hvort Sigmundur Davíð hefði enga sómakennd.
15:33 - Vantrauststillagan komin fram
Þingsályktunartillaga um vantraust á Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og ríkisstjórn hans, þingrof og nýjar kosningar hefur verið lögð fram. Í henni stendur: „Alþingi ályktar að lýsa vantrausti á forsætisráðherra og ríkisstjórn hans. Alþingi lýsir þeim vilja sínum að þing verði rofið og efnt til almennra þingkosninga svo fljótt sem við verður komið." Lestu frétt Kjarnans um vantrauststillöguna hér.
15:31 - Enn enginn stjórnarliði tekið til máls
Það er góð mæting meðal þingmanna í þingsalnum. Enn er verið að ræða málin undir liðnum fundarstjórn forseta, en enginn stjórnarliði hefur enn kveðið sér hljóðs. Þeir virðast ekki sérstaklega áfjáðir í það heldur.
15:24 - „Icesave“
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG og fyrrverandi fjármálaráðherra, er kominn í ræðustólinn og hafði ekki talað lengi um að málið væri eitt það alvarlegasta í sögunni þegar Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, kallaði fram í „Icesave“.
15:20 - Rafmagnað andrúmsloft í þingsalnum
Þingmenn stjórnarandstöðunnar eru greinilega búnir að stilla saman strengi sína á fundinum í morgun. Þeir koma hér upp hver á fætur öðrum undir liðnum fundarstjórn forseta, svo að dagskrá þingsins er formlega ekki hafin enn. Þetta gengur væntanlega svona áfram um einhverja stund.
Þingpallarnir eru lokaðir fyrir almenningi eins og oft þegar mótmæli hafa verið boðuð fyrir utan. Það þýðir þó ekki að þeir séu tómir, því þeir eru nýttir fyrir þá fjöldamörgu blaða- og fréttamenn sem hér eru til að fylgjast með.
15:15 - „Þetta er grafalvarleg stjórnarkreppa“
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri Grænna, er næst í ræðustól. Hún segir að það hefði verið eðlilegt að Sigmundur Davíð hefði komið sjálfur fram með skýringar á málinu. „Kannski er orðið of seint fyrir skýringar,“ segir hún svo, eftir Kastljósþáttinn í gær. „Það eru þung skref að ganga til þings í dag. Íslensk stjórnvöld eru í alvarlegri kreppu,“ segir Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, í sinni fyrstu ræðu. Á eftir honum kemur Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata, og tekur í sama streng og hinir leiðtogar stjórnarandstöðuflokkanna. „Ég verð að segja að það er mér til mikilla vonbrigða að forsætisráðherra hafi ekki nú þegar lýst því yfir að hann hyggist segja af sér.“
15:10 - Fundurinn hafinn
Fyrstur í ræðustól Alþingis er Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar. Hann lýsir yfir undrun sinni á dagskrá þingsins í dag. Eðlilegt hefði verið að þingfundur hæfist á skýrslu Sigmundar Davíðs um þessi stóralvarlegu mál sem nú séu uppi.
Fundur að hefjast
Þingfundurinn er að hefjast, en hann hefst á því að þingmenn minnast látins þingmanns, Stefáns Gunnlaugssonar. Að því loknu verður gert stutt hlé á þingfundi áður en óundirbúnar fyrirspurnir hefjast.
Heimdallur lýsir yfir vantrausti
Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, hefur lýst yfir vantrausti á Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra vegna þeirra upplýsinga sem hafa komið fram um eignarhald hans á félagi í skattaskjóli á Bresku Jómfrúareyjum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá þeim. Þar segir að forsætisráðherra hafi haldið upplýsingunum leyndum og sagt ósatt um þær. „Alvarleiki málsins er slíkur að honum er ekki sætt á stóli forsætisráðherra. Ekki kemur annað til greina en Sigmundur Davíð segi af sér embætti. Hann hefur nú þegar stórskaðað íslenska hagsmuni. Heimdallur mun ekki styðja ríkisstjórn undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar."
Bjarni enn í Flórída
Upphaflega stóð til að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra yrði einnig til svara í óundirbúnum fyrirspurnatíma á þinginu í dag. Seinkun í flugi innanlands í Bandaríkjunum varð til þess að hann missti af fluginu til Íslands í gærkvöldi. Því er ekki von á honum til landsins fyrr en í fyrramálið. Eins og við greindum frá fyrr í dag segir Bjarni þó að staðan sem upp er komin sé „mjög þung“ fyrir ríkisstjórnina. Hann vildi ekki tjá sig um það hvort Sigmundur Davíð sé hæfur til að starfa áfram sem forsætisráðherra.
Velkomin í fréttastraum frá Alþingi
Góðan dag, og velkomin í þennan beina fréttastraum héðan frá Alþingi. Hér fylgjumst við með þingfundi sem hefst klukkan 15 og því sem verður í gangi fyrir utan þinghúsið. Þetta er fyrsti þingfundurinn í rúmar tvær vikur og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á að vera til svara í óundirbúnum fyrirspurnatíma. Fjöldi blaða- og fréttamanna bíður nú í Alþingishúsinu eftir því að þingfundurinn hefjist.