Píratar eru enn stærri en Sjálfstæðisflokkurinn samkvæmt nýjustu kosningaspánni í aðdraganda Alþingiskosninga í haust. Fylgi Pírata er nú 29,3 prósent en fygli sjálfstæðisflokksins mælist 29,0 prósent. Flokkarnir eru því orðnir nánast jafn stórir en síðan um áramót hafa Píratar notið lang mest fylgis í kosningaspánni. Kjarninn mun, í samstarfi við Baldur Héðinsson stærðfræðing, birta kosningaspá í aðdraganda kosninganna.
Kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar er nú gerð í annað sinn, fyrir Alþingiskosningar sem boðaðar hafa verið í haust. Baldur hefur útbúið spálíkan sem vigtar kannanir sem gerðar eru á fylgi stjórnmálaflokka eftir áreiðanleika. Sama líkan var notað fyrir sveitarstjórnarkosningarnar árið 2014 fyrir fylgi framboða í Reykjavík og niðurstaðan birt á vef Kjarnans og á vefnum kosningaspá.is. Í nýjustu kosningaspánni eru nýjustu kannanirnar vegnar: Skoðanakannanir Fréttablaðsins 9. maí og 2. til 3. maí, Þjóðarpúls Gallup 14. til 28. apríl og skoðanakönnun MMR 22. til 26. apríl.
Fylgi stjórnmálaflokka til Alþingis fór á talsvert flakk eftir Kastljósþáttinn 3. apríl síðastliðinn þegar sagt var frá tengslum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þáverandi forsætisráðherra, við aflandsfélag á Bresku jómfrúareyjunum. Það var fyrsta umfjöllunin sem unnin var úr Panamaskjölunum svokölluðu sem hafði verið lekið til fjölmiðla frá panömsku lögfræðistofunni Mossack Fonseca. Auk Sigmundar Davíðs var fjallað um tengsl Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, og Ólafar Nordal, innanríkisráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, við aflandsfélög.
Eins og sjá má á myndritinu hér að neðan nýtur Framsóknarflokkurinn stuðnings 9,0 prósent Íslendinga samkvæmt kosningaspánni, öllu minna en Vinstri grænir sem hafa 16,9 prósent fylgi. Þar á eftir kemur Samfylkingin með 8,4 prósent, Björt framtíð með 4,0 prósent og Viðreisn, sem var fyrst mæld í byrjun apríl, fengi 3,0 prósent atkvæða ef gengið yrði til kosninga nú. Önnur framboð fengju 0,4 prósent. Aðeins þrír flokkar bæta við sig fylgi milli kosningaspárinnar 3. maí og þeirrar sem gerð var í morgun; Píratar, Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn. Aðrir tapa fylgi eða standa í stað.
Fylgi stjórnmálaflokkanna hafði verið nokkuð stöðugt frá áramótum og ekki miklar breytingar að merkja fyrr en í fyrstu kosningaspánni sem gerð var eftir umfjöllunina um ráðherrana. Samkvæmt kosningaspánni sem gerð var úr fyrirliggjandi könnunum 7. apríl má sjá að umfjöllunin virðist hafa hreyft við kjósendum. Strax má sjá merki þess að fylgi stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, minnkar en aðrir flokkar mælast með meira fylgi eða standa í stað.
Þróunin undanfarinn mánuð hefur verið einkar áhugaverð því fylgi Pírata minnkaði um meira en tvö prósentustig í fyrsta sinn frá áramótum. Fylgið hefur svo haldið áfram að minnka og mælist nú 29,3 prósent miðað við 36,7 prósent 7. apríl. Aðra sögu má hins vegar segja um stuðning við Sjálfstæðisflokkinn sem hefur vaxið stöðugt síðan 7. apríl. Sjálfstæðisflokkurinn hlyti 29,0 prósent atkvæða ef gengið yrði til kosninga nú miðað við 22,0 prósent 7. apríl.
Vinstri græn uxu í öllum kosningaspám sem gerðar voru í apríl eða þangað til í þeirri næst nýjustu. Í þeirri nýjustu eykst fylgið á ný. Flokkurinn stendur mun betur nú en hann gerði 1. apríl, þegar hann mældist með 10,4 prósent fylgi. Hér verður einnig að nefna Bjarta framtíð sem óx um jafn mörg prósentustig og Vinstri græn milli þess sem kosningaspáin var gerð 1. apríl og 7. apríl. Síðan hefur fylgi þeirra dalað. Áhrif Panamaskjalanna á fylgi Samfylkingarinnar virðast hafa verið neikvæð.
Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins, tók við sem forsætisráðherra 7. apríl síðastliðinn. Fylgi Framsóknarflokksins hafði vaxið um tæpt prósentustig í kosningaspám sem gerðar voru í apríl og í byrjun maí. Fylgið er nú, samkvæmt nýjustu kosningaspánni, orðið minna en það var 7. apríl þegar Sigurður Ingi tók við lyklavöldum í Stjórnarráðinu.
Hvað er Kosningaspáin?
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Kjarninn birti Kosningaspá Baldurs fyrir sveitarstjórnarkosningarnar og reyndist sú tilraun vel. Á vefnum kosningaspá.is má lesa niðurstöður þeirrar spár og hvernig vægi kannana var í takt við frávik kannana miðað við kosningaúrslitin.
Áreiðanleiki könnunaraðila er reiknaður út frá sögulegum skoðanakönnunum og kosningaúrslitum. Einnig hefur það vægi hversu langt er síðan könnunin var framkvæmd og svo hversu margir svara í könnununum.